Opið bréf til forsvarsmanna Faxaflóahafna sf
Opið bréf til forsvarsmanna Faxaflóahafna sf frá Umhverfisvaktinni við Hvalfjörð með fimmtán spurningum varðandi fyrirhugaða sólarkísilverksmiðju Silicor Materials Inc. á Grundartanga. Allar varða spurningarnar rök fyrir því að leggja út í slíka tilraunastarfsemi í Hvalfirði.
Komið þið sæl ágætu forsvarsmenn Faxaflóahafna sf.
Umhverfisvaktin við Hvalfjörð biður ykkur að svara eftirfarandi spurningum.
- Getur Umhverfisvaktin við Hvalfjörð fengið í hendur allar skýrslur sem lagðar hafa verið fram um væntanlega starfsemi Silicor Materials á Grundartanga og öll gögn sem liggja að baki skýrslunum? Jafnframt óskar Umhverfisvaktin upplýsinga um, hvar og undir hvaða kringumstæðum hið nýja framleiðsluferli Silicor Materials var prófað erlendis.
- Silicor Materials er ungt fyrirtæki með nýja tækni við hreinsun kísils. Á Grundartanga er stefnt að því að stórauka framleiðslu sem hefur aðeins verið á tilraunastigi í tvö ár, en það er of stuttur tími til að sannreyna ferlið.
Hefur verið gerð áhættugreining vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar og starfsemi Silicor Materials á Grundartanga? Ef svo er óskar Umhverfisvaktin eftir að fá hana í hendur. Hafi slík greining ekki verið gerð er beðið um skýringar á því. - Einungis hafa verið framleidd 5 -700 tonn af hreinum kísil með hinni nýju aðferð Silicor Materials í Kanada. Áætluð ársframleiðsla Silicor Materials á Grundartanga er um 19.000 tonn. Mjög lítil reynsla er komin á framleiðsluna. Finnst forsvarsmönnum Faxaflóahafna réttlætanlegt að sannreyna tilraunastarfsemi Silicor Materials á náttúru og lífríki Hvalfjarðar?
- Í hvaða löndum hefur Silicor Materials reynt að selja viðkomandi tækni?
- Hefur sameignarfélagið Faxaflóahafnir nýtt sér ráðgjöf aðila sem hafa starfað fyrir Silicor Materials á Íslandi? Hvaða stöðu og sérþekkingu hefur ráðgjafarfyrirtækið VSÓ og aðrir sem hafa lagt mat á fyrirhugaða starfsemi Silicor Materials á Íslandi, til að leggja óháð mat byggt á sérfræðiþekkingu á starfsemi verksmiðjunnar? Umhverfisvaktin leggur áherslu á að það eru t.d. ekki nægjanleg rök að efnaverkfræðingur sé til staðar hjá viðkomandi ráðgjafarfyrirtæki.
- Forsvarsmenn Reykjavíkurborgar heilluðust af hugmyndinni um tækni við Hellisheiðarvirkjun á sínum tíma. VSÓ var álitsgjafi Reykjavíkurborgar varðandi virkjunina en þar fer fram umdeild tilraunastarfsemi sem nú veldur vandræðum. Finnst Faxaflóahöfnum að það eigi að bjóða náttúru og lífríki Hvalfjarðar upp á meiri tilraunastarfsemi varðandi mengandi iðnað? Er ekki hægt að læra eitthvað af Hellisheiðarvirkjun og núverandi stöðu mengunarmála vegna stóriðju á Grundartanga?
- Umhverfisvaktin minnir á að tvær nýjustu verksmiðjurnar á Grundartanga störfuðu lengi á undanþágu með samþykki Umhverfisstofnunar, en það þýðir mengun eftir „þörfum“ fyrirtækisins. Hafa forsvarsmenn Faxaflóahafna hugsað sér að Silicor Materials starfi á undanþágu fyrst í stað? Ef svo er, þá hversu lengi? Faxaflóahafnir eru beðnar að skýla sér ekki á bak við Umhverfisstofnun þegar þessari spurningu verður svarað.
- Í upphafi kynningar á Silicor Materials var ekki minnst á flúormengun frá iðjuverinu, aðeins talað um „óverulega mengun“ sbr. ummæli efnaverkfræðings hjá VSÓ sem hafði einnig unnið fyrir Silicor, og forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar. Báðir þessir aðilar sem svo oft hefur verið vitnað til virðast annaðhvort ekki hafa séð þennan veigamikla þátt eða að hann hafi ekki skipt máli í þeirra augum. Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar hafði þá þegar ákveðið að ekki skyldi aukið við flúormengun frá Grundartangasvæðinu og kvikaði ekki frá þeirri ákvörðun. Silicor Materials tók þá til við að breyta vinnsluferlinu til að koma í veg fyrir losun flúor, að sögn forsvarsmanna. Fyrst ekki var sagt satt og rétt frá í upphafi, má velta fyrir sér hverju megi eiga von á síðar. Við álbræðslu er flúor nauðsynlegur og við hreinsun kísils er notað brætt ál. Geta Faxaflóahafnir lagt á borðið fullnægjandi sannanir um að Silicor Materials muni ekki losa flúor út í andrúmsloftið?
- Hvernig verður unnt að mæla hvort flúor kemur frá verksmiðju Silicor Materials þar sem henni er ætlaður staður rétt hjá álveri Norðuráls?
- Þegar talað er um „óverulega mengun“ er meðal annars átt við um 60 tonn af ryki sem fari árlega út í andrúmsloftið frá fyrirhugaðri verksmiðju Silicor Materials. Hvaða eiturefni munu verða í þessu „ryki“ og í hvaða magni?
- Talað er um „lokaða ferla“ hjá verksmiðju Silicor Materials. Lítið hefur verið fjallað um mengun innan verksmiðjunnar sjálfrar þar sem gert er ráð fyrir að 350- 400 manns vinni að staðaldri. Umhverfisvaktin spyr hvort hægt sé að fá greinargóða lýsingu á starfsaðstæðum innan veggja fyrirhugaðrar verksmiðju.
- Iðjuverin á Grundartanga halda sjálf utan um umhverfisvöktun vegna starfsemi sinnar. Mun þetta fyrirkomulag einnig gilda um Silicor Materials? Enn og aftur eru Faxaflóahafnir beðnar að skýla sér ekki á bak við Umhverfisstofnun þegar þessari spurningu verður svarað.
- Gríðarleg hávaða- og sjónmengun er nú þegar frá Grundartanga. Tilkoma Silicor Materials mun gera hana langtum verri. Hennar gætir mest sunnan megin fjarðar, í Kjós. Hvernig hafa forsvarsmenn Faxaflóahafna hugsað sér að eyða þessari mKomið þið sæl ágætu forsvarsmenn Faxaflóahafna sf.
- Mikill hraði hefur verið á undirbúningi samnings við Silicor Materials. Þann 31. mars síðastliðinn hitti stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð borgarstjóra, Dag B. Eggertsson, til að tjá honum áhyggjur vegna Grundartanga og fá upplýst hvert Reykjavíkurborg stefndi með svæði Faxaflóahafna þar, en borgin á rúm 75% í Faxaflóahöfnum. Innan örskamms tíma var skrifað undir samninga við Silicor. Borgarstjórinn gaf sér ekki tíma til að hlusta á rök okkar. Hvers vegna?
- Hvert stefnir með Hvalfjörð? Enginn hefur þorað að segja upphátt að breyta ætti þessari undurfögru náttúruperlu í mengaðan iðnaðarfjörð. En verkin tala og það sem Faxaflóahafnir hafa aðhafst á Grundartanga síðustu árin bendir því miður allt í þá átt að það eigi ekki að hlífa Hvalfirði. Enda þótt sameignarfélagið Faxaflóahafnir sé í eigu íbúa í fimm sveitarfélögum,* kemur vilji íbúanna sjaldnast í ljós þar sem ekki er leitað álits þeirra, en ljóst er að kjörnir fulltrúar Reykjavíkurborgar halda uppi harðri stefnu gagnvart Hvalfirði. Umhverfisvaktin við Hvalfjörð vísar á opið bréf til borgarstjóra og Reykvíkinga dags. 24. apríl 2015 og spyr: Hvert stefnir með Hvalfjörð?
Óskað er svara við ofangreindum spurningum sem allra fyrst, og eigi síðar en 13. maí nk.
Hvalfirði 28. apríl 2015
með fyrirfram þökk og kveðju,
f.h. Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð
*Sameignarfélagið Faxaflóahafnir er í eigu Reykjavíkurborgar (75,6%), Akraneskaupstaðar (10,8%), Hvalfjarðarsveitar (9,3), Borgarbyggðar (4,1%) og Skorradalshrepps (0,2%).
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisvaktin við Hvalfjörð „Opið bréf til forsvarsmanna Faxaflóahafna sf“, Náttúran.is: May 10, 2015 URL: http://nature.is/d/2015/05/10/opid-bref-til-forsvarsmanna-faxafloahafna-sf/ [Skoðað:Sept. 14, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: May 24, 2015