Reglugerð um baðstaði í náttúrunni undirrituð
Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur undirritað reglugerð um baðstaði í náttúrunni. Reglugerðin hefur það að markmiði að fyrirbyggja og koma í veg fyrir slys og sýkingar, stuðla að öryggi notenda, bættum hollustuháttum og heilnæmi vatns
Baðstaðir í náttúrunni eru skilgreindir sem náttúrulaug eða baðströnd sem notuð er til baða af almenningi þar sem vatn er ómeðhöndlað af sótthreinsiefnum, geislun eða á annan hátt. Til baðstaðar telst einnig búnings- og salernisaðstaða sem tilheyrir baðstað og önnur aðstaða fyrir baðgesti.
Samkvæmt reglugerðinni eru baðstaðir í náttúrunni flokkaðir í þrjá flokka og eru baðstaðir í 1. og 2. flokki starfsleyfisskyldir. Rekstraraðili þessara staða á að tryggja að skilyrði reglugerðarinnar, sem og reglugerðar um hollustuhætti á sund- og baðstöðum séu uppfyllt. Ákvæðin varða meðal annars öryggi notenda, innra eftirlit, upplýsingasíðu fyrir almenning á vef Umhverfisstofnunar og örverufræðilegar rannsóknir. Baðstaðir í 3. flokki eru baðstaðir þar sem ekki er um rekstur að ræða.
Í viðauka með reglugerðinni eru sett fram viðmið fyrir heilnæmi og gæði baðvatns á baðstöðum í náttúrunni auk þess sem kveðið er á um að taka skuli saman upplýsingar fyrir baðstaði í öllum flokkum og skulu þær vera aðgengilegar baðgestum.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Reglugerð um baðstaði í náttúrunni undirrituð“, Náttúran.is: 5. maí 2015 URL: http://nature.is/d/2015/05/05/reglugerd-um-badstadi-i-natturunni-undirritud/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.