EBL, eitur og krabbamein
Fyrir rúmum tveim árum var hér uppi heilmikil umræða um erfðabreyttar lífverur (:EBL / Gene Modified Organisms: GMO) og erfðabreytt matvæli, með tilliti til hvaða áhrif þetta hefði á okkur sjálf og lífrænt umhverfi okkar. Seint á árinu 2012 birtust fyrstu strangvísindalegu niðurstöðurnar úr rannsóknum á þessum fyrbærum (sjá [1] og [2] og tilvitnanir í greinunum til frumrannsókna). Niðurstöðurnar bentu til þess, að bæði erfðabreytingarnar sjálfar og sum af þeim efnum, sem finna má í erfðabreyttum neyzluvörum, gætu haft skaðleg áhrif og jafnvel valdið alvarlegum sjúkdómum. Sumar þessara rannsókna urðu fyrir aðskoti, einkum frá þróendum og framleiðendum erfðabreyttra lífvera og matvæla, en aðalniðurstaða matvælastofnunar Evrópusambandsins var, að brýn nauðsyn væri á frekari rannsóknum í þessum efnum (sjá [3], einnig [4] og [5]).
Á þeim tveim árum, sem liðin eru frá ofannefndum atburðum, hafa fleiri rannsóknir verið gerðar á þessum fyrirbærum. Í mars s.l. kom svo saman nefnd 17 sérfræðinga frá 11 löndum á vegum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) á Alþjóðastofnuninni fyrir krabbameinsrannsóknir (IARC) í Lyon í Frakklandi. Þar fór nefndin yfir gögn varðandi ýmis eiturefni, sem oft eru í erfðabreyttum matvælum, og hættuna á krabbameini af þeirra völdum [6]. Meðal eiturefnanna var jurtabaninn glyphosat, sem er notaður við ræktun erfðabreyttra yrkja, s.s. byggs, maís, hveitis o.fl., og seldur undir nafninu Roundup. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu, að fyrirliggjandi rannsóknargögn nægðu til að álykta, að neyzla glyphosats „ylli krabbameini í fólki og tilraunadýrum”. Helztu niðurstöður skýrslunnar birtar í hinu virta læknatímariti, The Lancet þ. 20. apríl s.l. [7].
Ræktun og framleiðsla EBL af ýmsu tæi hefur verið þegar verið bönnuð í sumum löndum í Vesturevrópu, m.a. Danmörku og Frakklandi, og annars staðar er sala þannig afurða stranglega takmörkuð. En ekki á Íslandi. Hér er erfðabreytt korn ræktað utandyra og Roundup selt bændum og garðyrkjustöðvum án eftirlits. Sala og notkun skordýraeitursins DDT var bönnuð með lögum fyrir hálfri öld, en eituráhrif Roundups á lífverur eru sennilega ekki síðri. Er ekki kominn tími til fyrir fólk að hugsa sig um aftur, og fara að vernda sjálft sig og fjölskyldur sínar gegn sjúkdómum og dauða af völdum eiturs í matvælum?
Mestallur maís og soja, sem við neytum nú til dags í fjölmörgum afurðum, eru framleidd úr EBL og innihalda, já einmitt, Roundup. Magnið í sérhverri afurð fer nokkuð eftir framleiðendum, en afgangur af efninu er alltaf til staðar í afurðinni. Ofnæmi og óþægindi s.s. kláði um allan kroppinn og sárindi í augum eru meðal verksummerkja eitursins - hvað er langt síðan síðast þú fannst fyrir því síðast?
Alþjóðlegu umhverfis- og mannréttindasamtökin Avaaz safna reglulega undirskriftum á netinu til stuðnings mikilvægum málefnum, og leggja um þessar mundir til atlögu við hið illræmda, bandaríska fyrirtæki Monsanto, sem framleiðir Roundup og fjölmörg þeirra erfðabreyttu yrkja, sem Roundup er notað á. Herferð Avaaz kallast „Gætum heilsu okkar, stöðvum Monsanto!“. Markmiðið er minnst 1.250.000 undirskriftir, og þegar ég leit á skjáinn rétt áðan var komið upp í 1.162.784. Skrifum öll undir, og bindum endi á eiturbaðið!
Gætum heilsu okkar, stöðvum Monsanto!
Tilvitnanir:
[1] Valdimar Briem, „Erfðabreytt fæðuefni og sjúkdómar“, Náttúran.is: 3. október 2012 URL: http://xn--nttran-pta6r.is/d/2012/10/03/erfdabreytt-faeduefni-og-sjukdomar/ [Skoðað:27. apríl 2015]
[2] Vottunarstofan Tún, Slow Food Reykjavík, HNLFÍ, Matvís - Matvæla- og veitingafélag Íslands, Matvís - Matvæla- og veitingafélag Íslands, Neytendasamtökin, Neytendasamtökin „Rannsókn bendir til skaðlegra heilsufarsáhrifa erfðabreyttra afurða“, Náttúran.is: 19. október 2012 URL: http://xn--nttran-pta6r.is/d/2012/10/19/rannsokn-bendir-til-skadlegra-heilsufarsahrifa-erf/ [Skoðað:27. apríl 2015]
[3] Alþingi, 141. löggjafarþing 2012–2013, 193. mál, þingsályktunartillaga, „Útiræktun á erfðabreyttum lífverum“. Sjá hér innsendar umsagnir undirritaðs. http://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=141&mnr=193.
[4] Alþingi, 140. löggjafarþing 2011–2012. 667. mál, þingsályktunartillaga. „Bann við útiræktun á erfðabreyttum lífverum“. http://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=140&mnr=667.
[5] Alþingi, 139. löggjafarþing 2010–2011. 450. mál, þingsályktunartillaga. „Útiræktun á erfðabreyttum lífverum“. http://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=139&mnr=450.
[6] International Agency for Research on Cancer Volume 112: Some organophosphate insecticides and herbicides: tetrachlorvinphos, parathion, malathion, diazinon and glyphosate. IARC Working Group. Lyon; 3–10 March 2015. IARC Monogr Eval Carcinog Risk Chem Hum (in press).
[7] Kathryn Z Guyton, et al., „Carcinogenicity of tetrachlorvinphos, parathion, malathion, diazinon, and glyphosate“, The Lancet, March 20, 2015. http://dx.doi.org/10.1016/S1470-2045(15)70134-8
Birt:
Tilvitnun:
Valdimar Briem, dr. phil. „EBL, eitur og krabbamein“, Náttúran.is: 27. apríl 2015 URL: http://nature.is/d/2015/04/27/ebl-eitur-og-krabbamein/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.