Við afhendingu umhverfisverðlauna Ölfussí Garðyrkjuskólanum að Reykjum. Mennta- og menningarmálaráðherra Illugi Gunnarsson afhenti þeim Guðrúnu Tryggvadóttur og Einari Bergmundi Arnbjörnssyni verðlaunin. Ljósm. Móna Róbertsdóttir Becker.

Illugi Gunnarssson mennta- og menningarmálaráðherra afhenti umhverfisverðlaun Ölfuss á Sumardaginn fyrsta við hátíðlega athöfn á Landbúnaðarháskólanum á Reykjum í Ölfusi.

Umhverfisverðlaun Ölfuss 2015 hlaut Náttúran.is fyrir metnaðarfulla vefsíðu um umhverfismál sem á jákvæðan hátt hvetur almenning og fyrirtæki til að skapa sjálfbært samfélag.

Stofnendur síðunnar þau Guðrún Tryggvadóttir og Einar Bergmundur Arnbjörnsson hafa með síðunni innleitt nýja hugsun í umhverfisvitund Íslendinga.

Á vefsíðunni eru á einum stað aðgengilegar leiðbeiningar sem auðvelda almenningi og fyrirtækjum að taka upp umhverfisvænni lífsstíl. Þar er hægt að fá upplýsingar um umhverfismál heimilisins, um orkusparnað, vistvæn innkaup, betri nýtingu matvæla, sorpflokkun, um hvernig skuli flokka hluti og hvar sé hægt að skila hverjum hlut, þar er að finna skilgreiningar á hverjum flokki fyrir sig, sem oft vefst fyrir fólki. Einnig geymir vefurinn fróðleik um hvernig hægt sé að forðast hættuleg efni við innkaup á vörum, þar er yfirlit yfir aukaefni í matvörum og skilgreiningar á umhverfismerkingum.“

Frá upphafi hefur verið leitast við að nota nýjustu tækni til að miðla upplýsingum og fræðslu til notenda. Þó þannig að ekki skapist tæknilegir þröskuldar heldur geti allir nálgast efnið með almennum búnaði og almennri tækniþekkingu. Auk þess leggur Náttúran.is áherslu á að fylgja tækniþróunum og nýjungum eftir til að höfða til ungs fólks og auka áhrifamátt skilaboðanna.

Aðaláherslan er á að þjóna hinum almenna neytanda með áreiðanlegum upplýsingum um allt sem snertir umhverfi okkar og heilsu. Þar er allt undir, nærumhverfi okkar og náttúran sjálf sem og heimilið, neyslan og fyrirtækin sem upplýstir borgarar vilja fá til aðstoðar við að skapa sjálfbæra framtíð. Markmiðið er að gera neytendum umhverfisvænar lausnir sýnilegri og aðgengilegri með því að tengja á milli vistvænnar aðferðafræði á öllum sviðum og raunverulegs vöru- og þjónustuframboðs í landinu. Til að ná markmiðum sínum þróar Náttúran stöðugt nýja þjónustuliði.

Frumkvöðull vefsins er Guðrún Tryggvadóttir myndlistarmaður en hún og maður hennar Einar Bergmundur Arnbjörnsson tölvunarfræðingur mynda kjarnateymi Náttúran.is

Náttúran.is er staðsett í Alviðru í Ölfusi.

Birt:
29. apríl 2015
Tilvitnun:
Sveitarfélagið Ölfus „Náttúran.is hlaut umhverfisverðlaun Ölfuss“, Náttúran.is: 29. apríl 2015 URL: http://nature.is/d/2015/04/23/natturan-faer-umhverfisverdlaun-olfuss/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 23. apríl 2015
breytt: 15. maí 2015

Skilaboð: