Laufey Helga Guðmundsdóttir, formaður starfshópsins kynnir skýrsluna.Starfshópur, sem umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði sl. haust og hafði það hlutverk að móta tillögur um hvernig draga megi úr sóun matvæla, skilaði í dag ráðherra skýrslu sinni á hátíðarathöfn í tilefni af Degi umhverfisins.

Í skýrslunni er tæpt á því hvað matarsóun er og þeim verkefnum sem þegar hefur verið hrint í framkvæmd á þessu sviði. Í skýrslunni er auk þess að finna tillögur hópsins en þær lúta að rannsóknum á matarsóun á Íslandi, fræðslu til neytenda og vitundarvakningu, geymslu og merkingu matvæla, framleiðslu, dreifingu og sölu matvæla og matarsóun í stóreldhúsum, veitingahúsum og mötuneytum.

Í kafla um rannsóknir á matarsóun er lagt til að fyrirliggjandi upplýsingar um matarsóun verði kortlagðar og mælikvarðar þróaðir til að hægt verði að sýna fram á mælanlegan árangur aðgerða gegn þessu vandamáli. Þá er lagt til að ráðist verði í spurningakönnun um matarsóun til að kanna viðhorf Íslendinga til matarsóunar og að gerð verði ítarleg langtímarannsókn á efninu.

Á sviði neytenda og vitundarvakningar er lagt til að búinn verði til einn vefur með fræðslu um matarsóun og leiðbeiningum um hvernig sporna má við henni, að farið verði í átaksverkefni til að stuðla að hugarfarsbreytingu um matarsóun, að fræðsla um matarsóun verði tryggð í grunnskólum sem og að boðið verði upp á örfyrirlestra um efnið á vinnustöðum, hjá félagasamtökum og stéttarfélögum. Sérstök áhersla er lögð á fræðslu um geymsluþolsmerkingar matvæla og að neytendur þekki muninn á „best fyrir“ og „síðasti notkunardagur“. Einnig er að finna tillögu um fræðslu um geymsluaðferðir matvæla.

Í kafla um framleiðslu, dreifingu og sölu er lagt til að teknar verði saman leiðbeiningar um hvernig draga megi úr sóun við framleiðslu matvæla. Á sviði stóreldhúsa, veitingahúsa og mötuneyta er lagt til að verkefni um matarsóun verði hluti verkefnakistu Skóla á grænni greinsem og að aðgerðir gegn matarsóun verði hluti af Grænum skrefum í ríkisrekstri  og Grænum skrefum Reykjavíkurborgar. Loks er gerð tillaga að verkefni í samvinnu við veitingastaði sem miðar að meðvitund um skammtastærðir og möguleika á að taka með sér afganga.

Í starfshópnum sátu fulltrúar  Umhverfisstofnunar, Matvælastofnunar, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu, Samtaka ferðaþjónustunnar, Bændasamtaka Íslands, Kvenfélagssambands Íslands, Vakandi - samtaka gegn sóun matvæla og Landverndar en hópurinn starfaði undir forystu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Matarsóun - tillögur til úrbóta. 

Birt:
22. apríl 2015
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Starfshópur um matarsóun skilar ráðherra skýrslu um tillögur til úrbóta“, Náttúran.is: 22. apríl 2015 URL: http://nature.is/d/2015/04/22/starfshopur-um-matarsoun-skilar-radherra-skyrslu-u/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: