Viðurkenningar í tengslum við Dag umhverfisins
Umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, veitti Landspítala í dag Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum á síðasta ári. Við sama tækifæri voru nemendur í 9. bekk í Lágafellsskóla í Mosfellsbæ útnefndir Varðliðar umhverfisins.
Kuðungurinn
Landspítali hlýtur Kuðunginn fyrir metnaðarfulla umhverfisstefnu og markvisst umhverfisstarf undanfarin ár. Er árangur starfsins skýr og mælanlegur og sýnir að það hefur leitt til ávinnings fyrir umhverfi, öryggi, heilsu og efnahag. Hefur sérstök áhersla verið lögð á að auka flokkun, draga úr sóun, auka vistvæn innkaup, hvetja til vistvænna ferðamáta, hafa skýrt verklag fyrir hættulegan úrgang og að auka miðlun upplýsinga um umhverfismál. Meðal annars má nefna að vegna aðgerða sem lúta að sorpflokkun fóru 130 tonnum meira á ári frá Landspítala til endurvinnslu árið 2014 en 2012, eða 370 kg meira daglega. Spítalinn hefur nýtt innkaupamátt sinn til að stuðla að auknu framboði á umhverfisvænum vörum og þjónustu á markaði með því að setja umhverfisskilyrði í útboðum sínum. Eftir að Landspítali hóf að bjóða samgöngusamninga fjölgaði þeim starfsmönnum sem ferðast með vistvænum hætti og má ætla að bílum hafi fækkað um 160 á götum borgarinnar á hverjum virkum degi og útblástur koltvíoxíðs minnkað um 120 tonn á ársgrundvelli.
Á síðasta ári fór fram undirbúningsvinna vegna Svansvottunar eldhúss og matsala Landspítala og afhending Svansvottunarinnar fór fram í mars sl. Eldhúsið og matsalirnir framleiða og selja 4.500 máltíðir á dag en með markvissum aðgerðum hefur matarsóun minnkað um 40% síðan 2011. Það þýðir að 20 tonnum minna er hent af mat á Landspítala á ári hverju. Nýlega voru tekin í notkun margnota matarbox í matsölum, í stað frauðplastboxa sem áður voru notuð. Þessi aðgerð verður til þess að 123.000 færri frauðplastbox eru nú notuð á ári hverju en væri þessum fjölda boxa staflað upp í einfalda röð, yrði staflinn jafnhár og 150 Hallgrímskirkjuturnar.
Er það mat dómnefndar að Landspítali sé fyrirmynd í öflugu umhverfisstarfi. Sá mikli árangur sem náðst hafi með markvissum aðgerðum sé öðrum stofnunum og fyrirtækjum hvatning í því að gera betur á þessu sviði. Jákvæð áhrif Landspítala á umhverfið felist þannig ekki síst í því að hann hefur miðlað óspart af þekkingu sinni og reynslu.
Verðlaunagripurinn, Kuðungurinn, sem Landspítali hlaut, er að þessu sinni eftir Guðrúnu Indriðadóttur leirlistamann, en svo skemmtilega vill til að hún starfar einnig sem lyfjafræðingur á Landspítala. Þá öðlast stofnunin rétt til að nýta merki verðlaunanna í kynningu á starfsemi sinni.
Varðliðar umhverfisins
Nemendur í 9. bekk í Lágafellsskóla hlutu útnefninguna Varðliðar umhverfisins fyrir verkefni sem unnin voru sem hluti af umhverfisþema síðastliðið haust. Verkefnin voru margþætt; til að byrja með tóku nemendurnir fyrir ákveðin umhverfismál og kynntu fyrir samnemendum sínum í formi t.d. myndbanda, fréttaþátta, heimildarmynda eða rapplags. Í kjölfarið þurftu nemendur að taka sig á í tíu atriðum er varða umhverfið í sinni hversdagslegu hegðun á heimili sínu, allt frá því að nota færri handklæði í hverri viku og að eiga samskipti við vini og ættingja í eigin persónu, án milligöngu tölvu, síma eða annarra samskiptatækja – og til þess að gera ítarlega áætlun í samráði við foreldra sína um það hvernig heimilið allt geti bætt sig í sjálfbærum lífsstíl. Loks boðuðu nemendur bæjarstjóra Mosfellsbæjar á sinn fund og afhentu honum áskorun með sjö tillögum um úrbætur í umhverfismálum bæjarins. Áskorun nemendanna var í kjölfarið tekin fyrir hjá umhverfisnefnd bæjarins og skiluðu hugmyndir þeirra sér þaðan í vinnu bæjarins við Staðardagskrá 21, sem lýtur að stefnumótun sveitarfélaga í sjálfbærnimálum.
Í rökstuðningi dómnefndar segir að verkefnið hafi tekið á umhverfismálum í víðum skilningi. „Verkefnið hafði ekki eingöngu jákvæð áhrif innan skólans heldur einnig út fyrir skólann, í fyrsta lagi þar sem heimili nemenda voru virkjuð og í öðru lagi með beinum hætti í sjálfbærnivinnu bæjarfélagsins.“
Viðurkenningarnar voru afhentar á hátíðarathöfn í Nauthól í dag, sem haldin var í tengslum við Dag umhverfisins sem er 25. apríl næstkomandi. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar viðurkenningarhöfum innilega til hamingju.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Viðurkenningar í tengslum við Dag umhverfisins“, Náttúran.is: April 22, 2015 URL: http://nature.is/d/2015/04/22/vidurkenningar-i-tengslum-vid-dag-umhverfisins/ [Skoðað:Oct. 4, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.