Ræða Andra Snæs Magnasonar á Pardísarmissi - Sáttin er möguleg
Ræða Andra Snæs Magnasonar á Pardísarmissi? Hátíð til verndar hálendis Íslands þ. 16. apríl 2015:
Ég hitti einu sinni mann sem sagði - þú þekkir ekki manneskju fyrr en þú hefur skipt með henni arfi.
Einhvernveginn mætti heimfæra það upp á þjóð. Þú þekkir ekki þjóð fyrr en hún hefur skipt með sér náttúruarfinum.
Við horfum á þetta núna þar sem þeir sem eitt stærsta útgerðarfyrirtækið gæti notað 10% af hagnaðnum og greitt hverjum einasta starfsmanni milljón meira í árslaun - en kemst upp með að gera það ekki.
Við sjáum þetta sama mynstur í alþjóðlegu samhengi. Fyrirtæki eins og Alcoa - sem ætti að greiða heilmikinn skatt á Íslandi gerir það ekki. Samt græðir fyrirtækið svo mikið að það borgaði niður alla fjárfestinguna á fimm árum. Í bókhaldinu er fyrirtækið hins vegar gjaldþrota.
Menn tala um að ,,stækka kökuna" þegar kakan er í raun og veru gríðarstór.
Íslendingar veiða um 2% af öllum fiski í heiminum. Það er risavaxið verkefni að halda utan um fyrir litla þjóð. Jafnvel milljón manna þjóð ætti fullt í fangi við að gera það vel.
Á Íslandi er brætt um 3% af öllu áli í heiminum. Það eitt ætti að vera feykinóg fyrir 350.000 manns og hér er orkukerfi sem er næstum 10 sinnum stærra en þjóðin sjálf getur nýtt sér. 90% orkunnar er nýtt af alþjóðlegum stórfyrirtækja. Þarna er risavaxin áhætta, fjárfesting og fórnir á náttúru sem hafa aldrei skilað beinum arði til þjóðarinnar. Aldrei bein innspýting í mennta eða heilbrigðiskerfið.
Hingað koma fleiri ferðamenn á haus heldur en til flestra annarra ríkja. Það eitt ætti að vera nóg fyrir 350.000 manns.
Málið er einfalt - ef við getum ekki lifað góðu lífi með allar þessar auðlindir sem við nýtum nú þegar - þá höfum við sannað að jörðin er óbyggileg.
Væri ekki ótrúlega kúl ef þjóðin gæti einu sinni sameinast um eitthvað. Að við gætum öll verið sátt við að eiga alveg magnað, jafnvel illa kannað og illfært hálendi inni í miðju landsins, einhverskonar undraheim fyrir komandi kynslóðir, eitthvað sem við getum öll verið innblásin og stolt af um ókomna framtíð og eitthvað sem þeir sem hafa bisnessvit skilja að þeir græða á og þeir sem hafa engan áhuga virða vegna þess að það gleður vini þeirra og ættinga. Það er ekki svo erfitt, í rauninni sáraeinfalt. Við þurfum bara að vilja það og við þurfum að leggja örlítið á okkur.
Sáttin er afar einföld. Allir stjórnmálaflokkar sættast við landið. Við stöndum með stjórnmálamann fyrir framan Aldeyjarfossi og spyrjum - er nokkuð að þessum fossi? Ertu ekki bara sáttur, er þetta ekki bara fínt svona?
Og þetta er niðurstaða sem allir eiga að geta sætt sig við vegna þess að virkjunarmenn munu áfram búa í mest virkjaða landi heims miðað við höfðatölu, með gríðarlega fjölbreytt úrval af virkjunum, tíu sinnum fleiri en höfðatalan gefur til kynna. Og þeir hafa þegar byggt sína Mónu Lísu á Austurlandi svo að þeirra stærstu stórmennskudraumar verða aldrei toppaðir á Íslandi. Öll þessi mannvirki þurfa viðhald svo að þeir sem hafa sérstakan áhuga á rafmagni - munu alltaf hafa nóg að gera.
Þeir sem hafa áhuga á peningum munu horfa upp á orkufyrirtækin greiða niður skuldir og skila hreinum og beinum hagnaði til þjóðarinnar, í stað þess að skuldsetja sig.
Þeir sem hafa áhuga á náttúru - munu eiga risavaxinn Miðgarð - Hjarta Landsins.
Og það er alveg ótrúlega einfalt að gera þetta.
- Ekki kjósa flokka sem vilja skemma hálendið.
- Ekki kjósa fólk sem vill skemma landið.
- Kjósið fólk sem vill friða hálendið.
- Ekki kjósa flokka sem vilja skemma hálendið.
Var ég búinn að segja það?
og liður 5:
Ekki kjósa flokka sem ætla að skemma hálendið.
Þetta er mjög einfalt. Verndun er ekki aðgerðarleysi. Verndun er ekki að gera ekkert. Verndun er skapandi, sá sem verndar land, skapar land. Og af öllum þeim listaverkum eða afrekum sem okkar kynslóð gæti afrekað, þá held ég að þau myndu öll blikna í samanburði við metnaðarfulla áætlun um stórt og heildstætt friðland, miðgarð, Hjarta Landsins.
Þetta er mjög einfalt, við þurfum bara að rísa upp.
Birt:
Tilvitnun:
Andri Snær Magnason „Ræða Andra Snæs Magnasonar á Pardísarmissi - Sáttin er möguleg“, Náttúran.is: 21. apríl 2015 URL: http://nature.is/d/2015/04/21/raeda-andra-snaes-magnasonar-pardisarmissi-sattin-/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 10. maí 2015