Ræða Guðmunar Inga Guðbrandssonar, framkvæmdastjóra Landverndar á Pardísarmissi? Hátíð til verndar hálendis Íslands þ. 16. apríl 2015:

Gott kvöld góðir gestir!

Fyrir hönd hinna fjölmörgu skipuleggjenda býð ég ykkur öll hjartanlega velkomin á þessa hátíð til verndar hálendi Íslands.

Hvers vegna er blásið til baráttufundar núna? Jú, vegna þess að sjaldan hefur verið jafnmikil nauðsyn á samstöðu um vernd hálendisins og á næstu misserum. Það er komið að ögurstundu.

Ögurstund er magnþrungið orð. Er þessi dramatík mín einvörðungu vegna þess að ég er fæddur dramadrottning, sem ég fúslega viðurkenni, eða hangir fleira á spýtunni? Skoðum það nánar.

Landsnet hyggst reisa stóra og áberandi háspennulínu í lofti þvert yfir Sprengisand, ekki ólíka þeim sem við sjáum á Hellisheiðinni. Sprengisandslína myndi kljúfa hálendið í herðar niður.

Og Orkufyrirtækin vilja:

 • Virkja Jökulsárnar í Skagafirði með óbætanlegu tjóni fyrir flúðasiglingar og víðfeðmustu flæðiengi landsins og jafnvel Norðurlandanna .
 • Tvær vikjanir í Skjálfandafljóti með uppistöðulónum hátt upp á hálendinu og neikvæðum áhrifum á einstaka fossa eins og Aldeyjarfoss.
 • Virkja jarðhitasvæðið við Fremrinámar á ósnortnu landsvæði við Ketildyngju, milli Mývatns og Herðubreiðarfjalla.
 • Virkja jarðvarma við Hágöngur í anddyri Vatnajökulsþjóðgarðs.
 • Virkja við Skrokköldu á Sprengisandsleið.
 • Virkja við Norðlingaöldu í jaðri Þjórsárvera og eyðileggja víðerni vestan Þjórsár og fossana, þá bræður Dynk, Gljúfurleitarfoss og Kjálfaversfoss.
 • Reisa Bjallavirkjun og Tungnaárlón á óbyggðum víðernum milli Friðlands að Fjallabaki og Vatnajökulsþjóðgarðs.
 • Virkja Hólmsá við Einhyrning eða við Atley og Skaftá við Búland.
 • Reisa þrjár virkjanir á vatnasviði Hvítár: Hagavatnsvirkjun við Langjökul á frábæru útivistarsvæði, í Stóru-Laxá og við
 • Búðartungu 5 km ofan Gullfoss.
 • Þá eru uppi hugmyndir um vindmyllur á tveimur stöðum.

Samtals eru þetta um 15 nýjar virkjanir á hálendi Íslands.

Og þetta er ekki alveg búið...

Því virkjunum fylgja nýjar, uppbyggðar og helst malbikaðar hraðbrautir á hálendinu, og í kjölfarið láglendisvæðing hálendisins með gisithúsum og vegasjoppum. Skynsamleg ákvörðun Vegagerðarinnar í gær um að fresta umhverfismati nýs Sprengisandsvegar um sinn er þó áfangasigur okkar allra.

Kæru gestir!
Gleymum því ekki að fjórar af þessum virkjanahugmyndum eru í verndarflokki rammaáætlunar!  Ég sem hélt í sakleysi  mínu að verndarflokkur þýddi vernd!

Gleymum því ekki að enginn hefur greint frá því í hvað eigi að nota þessa orku.

Gleymum því ekki að nú þegar hefur fjölmörgum svæðum á hálendinu verið fórnað. Getum við samþykkt að skipta köku á milli verndar- og orkunýtingar sem þegar er hálf? Svar mitt er NEI!

Góðir gestir!
Þið munuð heyra hér á eftir hvers virði hálendið er. Þessar framkvæmdir ógna því virði. Þannig að ég spyr: „Hvaða framtíð viljum við sjá fyrir hálendi Íslands?“

Þessa hérna sem ég hef hér að framan lýst?

Eða þessa hér þar sem við tryggjum varanlega vernd hálendis Íslands?

ÞETTA ERU VALKOSTIRNIR! Svellkaldur raunveruleikinn.

Ég legg til að við nálgumst vernd hálendisins með jákvæðni og berjumst fyrir okkar sýn, gerum hana að raunverulegum, áþreifanlegum valkosti sem getur hrifið fólk með okkur á verndarvagninn.

Að lokum geri ég orð Guðmundar Páls Ólafssonar heitins að okkar allra: „Á meðan er okkar sæng upp reidd: Að verja hálendið, sjálft hjarta landsins, með ráð og dáð, sem sverð þess og skjöldur. Og annaðhvort verjum við það núna eða aldrei. Í húfi er æran, þín og mín; heiður allra Íslendinga.“

Látum þennan fund marka endi Paradísarmissis og upphaf Paradísarheimtar.

Kæru vinir – njótið kvöldsins!

Birt:
April 21, 2015
Tilvitnun:
Guðmundur Ingi Guðbrandsson „Inngangsræða Guðmundar Inga Guðbrandssonar á Pardísarmissi “, Náttúran.is: April 21, 2015 URL: http://nature.is/d/2015/04/21/inngangsraeda-gudmundar-inga-gudbrandssonar-pardis/ [Skoðað:June 20, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: May 10, 2015

Messages: