Danskur bekkur hefur sigur í Stóru norrænu loftslagsáskoruninni
„Sjálfbærni er það að geyma fyrir komandi kynslóðir.“ Svona einfalt er svarið þegar spurningin er lögð fyrir fulltrúa komandi kynslóðar í 7. bekk C í Krogård-skólanum í Danmörku. Bekkurinn vann fyrstu umferð í Stóru norrænu loftslagsáskoruninni sem er námstengd keppni 12 til 14 ára barna á öllum Norðurlöndum og snýst um það að spara orku og fræðast um loftslagsáskoranir nútímans. Loftslagsáskorunin er hluti af sameiginlegu verkefni forsætisráðherra Norðurlanda; „Norðurlönd – leiðandi í grænum hagvexti", sem á að efla tækifæri til grænnar þróunar á Norðurlöndum.
15/04 2015
Fyrstu umferð árlegs átaks Norrænu ráðherranefndarinnar á sviði kennslu um loftslag og náttúru er lokið. Hún skilaði góðum árangri og nýrri þekkingu til komandi kynslóða.
Stóru norrænu loftslagsáskoruninni var hleypt af stokkunum 11. nóvember 2014 á Norræna loftslagsdeginum og námsefni sem henni tengdist varð samtímis hluti af námsgátt Sambands norrænu félaganna, www.nordeniskolen.org, þar sem boðið er upp á námsefni sem byggir á þvernorrænu sjónarhorni.
Næsta kynslóð verður að gera betur en við
Thomas Mikkelsen, þróunarstjóri Loftslagsáskorunarinnar, segir nauðsynlegt að sjálfbær hugsunarháttur og umhverfisvitund verði samþætt betur í menntakerfið. Með því að kynna loftslagsáskoranir fyrir grunnskólabörnum er þeim gefið færi á að verða sjálfbærari neytendur en fyrri kynslóðir.
– Nemendurnir í grunnskólum okkar eru neytendur framtíðarinnar og þeir þurfa að geta lifað í betri sátt við takmarkaðar auðlindir jarðarinnar, segir hann. Við verðum að breytta háttum okkar og til þess þarf vitund, áherslur og áhugi almennings að breytast.
Í Krogård-skólanum hafa nemendurnir myndað sér ýmsar skoðanir á framtíðinni sem bíður þeirra.
– Ef of mikið er notað af jarðefnaeldsneyti mun vatn flæða yfir jörðina og tegundir deyja út, segir Frederik Vennervald Møller Hansen grunnskólanemi.
– Sjálfbærni er það að hafa notað auðlind og síðan að endurnota hana. Sjálfbærni er það að geyma fyrir komandi kynslóðir.
Norrænt námsefnishugmynd um loftslagið
„Norden i skolen“ http://nordeniskolen.org/is/ er, eins og nefnt hefur verið, sá vettvangur sem Loftslagsáskorunin hefur verið felld inn í. Norden i skolen á að vera á háu faglegu stigi og bjóða upp á sveigjanleg verkfæri fyrir kennara á Norðurlöndum. Jafnframt er þar að finna námsvettvang þar sem tekið er á móti nemendum á jafnræðisgrundvelli og þeir hvattir til að kanna málin sjálfir.
– Hugmyndin að baki Loftslagsáskoruninni felur í sér marga möguleika, segir Lone Skafte Jespersen sem kennir bekknum í Krogård-skóla sem sigraði í fyrstu umferðinni.
– Þegar kemur að því að kafa ofan í fræðin líkar mér vel að mismunandi leiðir standa til boða þar sem kennarinn getur hvort sem er sett fyrir eigið verkefni eða leitað fanga í verkefnabókasafninu á vefgáttinni. Hvort tveggja fjölbreytnin í verkefnunum og möguleikinn á að krydda námið með samkeppni og stigagjöf getur ýtt undir áhuga nemenda.
Loftslagsáskorunin verður endurtekin á næsta skólaári og næsta umferð hefst 11. nóvember 2015 á Norræna loftslagsdeginum. Þátttaka er opin og ókeypis fyrir alla grunnskóla á Norðurlöndum.
Námsgátt Sambands norrænu félaganna er þegar opin og efnið og möguleikar á borð við það að stofna vinabekki, spjall, verkefnastýringu og verkefnabanka standa til boða allt árið.
Birt:
Tilvitnun:
Norden - Norræna ráðherranefndin „Danskur bekkur hefur sigur í Stóru norrænu loftslagsáskoruninni“, Náttúran.is: 21. apríl 2015 URL: http://nature.is/d/2015/04/21/danskur-bekkur-hefur-sigur-i-storu-norraenu-loftsl/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.