Aukið samstarf stofnana um rannsóknir og vöktun á náttúru Íslands
Stýrihópur ráðuneytis og forstjóra nokkurra stofnana á sviði rannsókna og vöktunar hefur skilað umhverfis- og auðlindaráðherra skýrslu sinni um frumathugun á samlegð stofnana á sviði rannsókna og vöktunar á náttúru Íslands. Tillögum stýrihópsins er ætlað að auka samstarf rannsóknastofnana ráðuneytins m.a. með það að markmiði að efla þekkingu á auðlindum íslenskrar náttúru og miðlun upplýsinga um hana.
Hlutverk stýrihópsins var m.a. að meta hvort sameining stofnana, aukið samstarf og/ eða samþætting verkefna stofnana sé góður kostur. Þær stofanir sem voru til skoðunar eru Náttúrfræðistofnun Íslands, Náttúruannsóknastöðin við Mývatn, Umhverfisstofnun, Íslenskar orkurannsóknir, Rannsóknastöðin í jarðskjálftaverkfræði og Veðurstofa Íslands.
Tillögur stýrihópsins eru eftirfarandi:
- Sameining Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn.
- Samstarf Veðurstofu Íslands og Íslenskra orkurannsókna.
- Flutningur verkefna frá Umhverfisstofnun og Náttúrfræðistofnun Íslands til Veðurstofu Íslands.
- Komið verði á fót samstarfsneti um rannsóknir og vöktun á náttúru Íslands.
- Komið verði á samstarfsvettvangi á sviði upplýsingatækni- og gagnagrunnsmála.
- Ábyrgð á gerð vöktunaráætlana verði á hendi einnar stofnunar.
Sú framtíðarsýn sem tillögur stýrihópsins byggja á er að fram fari öflugt fagleg starf á sviði gagnaöflunar, rannsókna og vöktunar á náttúru Íslands. Jafnframt öflug miðlun upplýsinga til upplýstrar og vandaðrar ákvarðanatöku á sviði náttúruvár, umhverfis- og auðlindmála. Áhersla er lögð á uppbyggingu rannsóknainnviða með betri þjónustu til samfélagsins og nýtingu fjármuna.
Stýrihópurinn telur ekki grundvöll nú til að sameina allar stofnanir ráðuneytisins sem vinna að rannsóknum og vöktun á náttúru Íslands í eina stofnun en leggur til að unnið verði að heildstæðri stefnumörkun stjórnvalda á sviði rannsókna og vöktunar á náttúru Íslands. Slík stefna mæli fyrir um hvernig standa skuli að rannsóknum hins opinbera á náttúru landsins, hvað eiga að vakta og hverjir eigi að bera ábyrgð á opinberum rannsóknaverkefnum, vöktun og hvernig forgangsraða eigi vöktun og rannsóknum til lengri tíma. Við endurskipulagningu stofnana og verkefna þeirra, komi til hennar síðar, verði síðan tekið mið af stefnumörkun stjórnvalda á þessu sviði.
Frumathugun á samlegð stofnana á sviði rannsókna og vöktunar á náttúru Íslands.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Aukið samstarf stofnana um rannsóknir og vöktun á náttúru Íslands“, Náttúran.is: 20. apríl 2015 URL: http://nature.is/d/2015/04/20/aukid-samstarf-stofnana-um-rannsoknir-og-voktun-na/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.