Ræða Kristínar Helgu Gunnarsdóttur á Pardísarmissi - Jarðkerfisfræðin
Ræða Kristínar Helgu Gunnarsdóttur á Pardísarmissi? Hátíð til verndar hálendis Íslands þ. 16. apríl 2015:
Leikur öræfaandi,
hvísla einveruhljóð,
breiðist hátignarhjúpur
yfir heiðanna slóð.
O'n af fornhelgum fjöllum
þrumar forlagamál.
Á þeim afskekktu stöðum
ríkir ómælissál.”
Þannig fangaði Jóhannes úr Kötlum öræfaandann - galdurinn sem býr í auðninni og kyrrðinni.
Og við spyrjum okkur: Hvers virði er þetta? Getum við búið til gjaldskrá? Hvað borgum við fyrir að sjá og upplifa? Er verðmiði? Hvaða rekstrarforsendur má leggja til grundvallar hér.
Hagfræðileg viðmið, hagræn gildi, hagvöxtur, arðsemi fjármagns, framleiðni hagkerfa, krafa um stöðugan vöxt, einkaneysla og kaupmáttaraukning. Hér eru aðeins örfá af ótal handónýtum hugtökum sem byggja á ónýtu kerfi fortíðar. Kerfi sem við rogumst með og felur í sér tortímingu jarðar, afát, ofneyslu, ágang, græðgi og sóun sem bitnar fyrst og síðast á heimilinu okkar, plánetu jörð. Bitnar á nærumhverfinu, landinu og sveitinni okkar, bakgarðinum og okkur sjálfum, en mest þó á afkomendum okkar um ókomna tíð.
Og í stað þess að sjá sjúkdómseinkennin, hlusta á hjartslátt jarðar, fylgjast með óstöðugu línuriti ,höldum við ótrauð áfram.
Við sláum okkur á lær í veislum yfir því að ef allir jarðarbúar myndu nota jafnmkið af auðlindum og við íslendingar, og gera sömu neyslukröfur og við, þá þyrfti að minnsta kosti ellefu jarðir til viðbótar.
En við hljótum að læra og lifa í batnandi heimi. Eða eins og Birtíngur sagði - ,,Allt er gott, allt gengur vel. Allt gengur hið besta sem má.”
Afhverju búum við þá við ríkisstjórn sem starfar eftir hugmyndafræði liðinnar aldar? Ráðamenn sem kasta fjöreggjum
á milli biðflokka og nýtingarflokka - eins og óðar tröllskessur? Afhverju höfum við verið slegin áratugi aftur í tímann í hugarfari, viðhorfum, stefnu og framtíðarsýn?
Eitt er þó öðruvísi í dag en um miðja síðustu öld. Við erum fleiri sem spyrnum við fótum. Við, náttúrufólkið, erum ekki lítill
hópur sérvitringa sem auðvelt er að hundsa og hæðast að. Nei, við erum fjöldahreyfing. Það er vitundarvakning. Hún er ekki bara á Íslandi heldur út um alla veröld. Við erum mörg og okkur fjölgar mjög hratt.
Því miður líka vegna þess hve víða blikur eru á lofti.
,,Fyrst láta þeir eins og við séum ekki til. Svo hlæja þeir að okkur. Því næst berjast þeir við okkur og svo sigrum við,”sagði Mahatma Gandhi. Þau orð eru okkar leiðarljós. Þannig verður
maður að sjá þetta ferli sem við erum í. Þetta er barátta fyrir framtíðina. Orrustan um Ísland, liður í stærri baráttu fyrir lífvænlegri veröld.
Þannig vitum við öll að í framtíðinni mun hver einasta ákvörðun sem stjórnmálamenn standa frammi fyrir verða tekin eingöngu með tilliti til umhverfis og náttúru- aðeins með hliðsjón af því hvað það gerir fyrir jörðina, landið, sveitina og bakgarðinn. Við erum á þessum krossgötum núna og aðstæður þvinga valdamenn veraldar á næstunni til að velja þessa stefnu. Því fyrr sem þeir átta sig, því betra.
Og hvar er betra að skapa fyrirmyndina en á Íslandi?
Við erum fámenn. Við búum við landfræðilega einangrun en erum líka miðsvæðis í veröldinni. Við náum svo auðveldlega athygli þegar við hrópum hátt – hvort sem við skandalíserum eða gerum eitthvað sniðugt. Við höfum hér mögnuð tækifæri til að búa til nýja framtíðarsýn fyrir veröldina til að lifa eftir. Þar er
afkomutækifæri fyrir okkur svo aðrar þjóðir megi læra af, skoða og nýta sér. Við gætum leitt umræðuna á heimsvísu, umræðuna um það hvernig mannskepnan getur lifað af í heiminum með sem minnstri áníðslu. Það hlýtur alltaf að vera hið endanlega markmið.
En allt stefnir að stækkun og framfarir ganga út á að finna ný þolmörk og komast þangað. Endalaust þarf að skoða nýja
virkjanakosti, endurskoða og endurflokka ár og sprænur, öræfi og eyðiland. Það er ekki síst svo verktakar hafi risaverkefni til að keyra áfram dýran tækjabúnað og mannafla sem krefst öflugra skyndiúrræða, svo kaupmáttur aukist með heróínsprautu í hagkerfið.
Við þurfum að hugsa hlutina upp á nýtt. Ekki lappa upp á ónýtt kerfi. Það vantar nýtt kerfi – kerfi sem heitir ekki hagkerfi.
Það orð er ónýtt. Kannski ætti það að heita jarðkerfi? Og hagfræðingar morgundagsins væru þá jarðkerfisfræðingar sem gæfu út jarðtölur og könnuðu jarðvöxt, og jarðræn gildi. Hagkerfi er hannað út frá peningalegu regluverki, en jarðkerfið myndi taka inn allar breyturnar. Taka inn þessar breytur sem manneskjur vandræðast með í dag og kalla tilfinningabreytur, náttúrubarnaskap og fjallagrasalógíg.
Það sem er gott fyrir jörðina er gott fyrir okkur. Vð erum eitt. Hættum að tala um mann og náttúru. Maður er náttúra.
Við þurfum ný gildi með framtíð jarðar, lands, sveitar ,okkar sjálfra og afkomendanna að leiðarljósi.
Við erum landverðir og flytjum fjársjóðinn frá einni kynslóð til annarrar. Við hverfum sjálf eftir augnablik og verðum að mold. Við verðum að jörð sem öðrum verður falið að varðveita svo næstu kynslóðir njóti gæða og deili saman.
Við erum landverðir og vitum að morgundagurinn geymir nýjar uppfinningar sem ganga út á að ganga ekki á - heldur gefa og auka vöxt og viðgang náttúru og jarðar.
Við erum rómverjar norðursins. Í Róm biðja heimamenn alla að virða og ganga vel um sameiginlegar fornminjar heimsins. Þar stinga menn varla niður múrskeið án þess að ræða mál og skipuleggja. Við ættum hvergi að mega stinga niður skurðgröfukjafti án þess að taka samtalið langa um gildi lands og framtíðar og jarðrænnar þróunnar.
Við erum fjöldahreyfing og við verðum að stækka hratt því við stöndum vörð um heimsminjar. Þekking er öflugasta vopnið í baráttunni gegn öfgaöflum. Innleiðum umhverfis - og náttúruverndarfræði í skólakerfið frá fyrstu tíð. Tölum saman. Upplýsum og leysum allan okkar sköpunarkraft úr læðingi í þágu náttúru- Verum jarðsýn.
Raflínurskógar og upphækkaðar hraðbrautir með vegasjoppum og tilheyrandi mannvirkjum á öræfum Íslands er
allra síst það sem ferðamaðurinn leitar að, hvort heldur hann er íslenskur eða gestur að utan.
Það vissi Jóhannes úr Kötlum líka þegar hann sagði þetta um öræfin:
„Þar er hreinleikans heimur,
og þar hverfur allt tál;
þar er hliðið til himins mannsins hrjáðustu sál.
Einmitt þessvegna er þögnin meiri en þrumuhljóð heit, —
margfalt auðugri auðnin
en hin algróna sveit.”
Birt:
Tilvitnun:
Kristín Helga Gunnarsdóttir „Ræða Kristínar Helgu Gunnarsdóttur á Pardísarmissi - Jarðkerfisfræðin“, Náttúran.is: 18. apríl 2015 URL: http://nature.is/d/2015/04/18/raeda-kristinar-helgu-gunnarsdottur-pardisarmissi-/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 10. maí 2015