Á Sprengisandi. Ljósm. Vegagerðin.Vegagerðin hefur ákveðið að ekki verði lokið við mat á umhverfisáhrifum Sprengisandsleiðar að sinni. Nýr vegur yfir Sprengisand verður því líklega ekki á samgönguáætlun sem lögð er fram til tólf ára.

Eitt af markmiðum verkefnisins var að stilla saman legu vegar og háspennulínu, einkum með tilliti til sjónrænna áhrifa. Verkefnið var unnið sameiginlega af Vegagerðinni, Landsneti og Landsvirkjun. Náttúruverndarsamtök Íslands og Samtök ferðaþjónustunnar lögðust gegn því að nýr vegur yrði lagður yfir Sprengisand.

Ef vegurinn yrði byggður myndu þungaflutningar færast að miklu leyti yfir á hann með tilheyrandi sjón- og hávaðamengun á svæðinu.

Drög að tillögu að matsáætlun eru til meðferðar hjá Skipulagsstofnun en þeirri vinnu verður hætt. Á vef Vegagerðarinnar segir að Sprengisandsleið sé skilgreind sem stofnvegur um hálendi og eðli málsins samkvæmt lokaður að vetri til. Ekkert hafi verið unnið með hugmyndir um heilsársveg yfir hálendið. Samráð hefur verið við Landsnet um undirbúning að mati á umhverfisáhrifum vegar og raflínu en ekki er gert ráð fyrir sameiginlegu mati.

Birt:
16. apríl 2015
Tilvitnun:
Ríkisútvarpið ohf „Umhverfismat Sprengisandsleiðar stöðvað“, Náttúran.is: 16. apríl 2015 URL: http://nature.is/d/2015/04/17/umhverfismat-sprengisandsleidar-stodvad/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 17. apríl 2015

Skilaboð: