Landvernd fer fram á nýtt umhverfismat raflínu frá Kröflu að Bakka
Landvernd hefur farið fram á við Skipulagsstofnun að unnið verði nýtt umhverfismat raflína frá Kröflu að Bakka, m.a. um ósnortin svæði nærri Kröflu. Í greinargerð með bréfinu er bent á að fyrirliggjandi umhverfismat byggi á tilkomu álvers á Bakka. Þær forsendur séu brostnar og flutningsþörf raforku inn á svæðið sé nú um 10 sinnum minni en áður. Vegna þessa sé ljóst að ekki þurfi jafn umfangsmiklar og stórar raflínur til að anna raforkuflutningi og fleiri valkostir því í stöðunni en áður, þ.m.t. jarðstrengir og lægra spennustig raflína og jafnvel breytt lega. Þessa valkosti beri að meta í mati á umhverfisáhrifum svo velja megi þann kost sem lágmarkar umhverfisáhrif framkvæmdanna.
Árið 2010 lauk umhverfismati fyrir tvær 220kV háspennulínur í lofti frá Kröflu að Bakka. Veruleg neikvæð og óafturkræf áhrif á Þeistareykjahraun og Leirhnjúkshraun norðvestan Kröflu og mikil skerðing á lítt snortnum víðernum voru meðal niðurstaðna umhverfismatsins. Þá myndi raflína á þessu svæði hafa neikvæð áhrif á útsýni frá Leirhnjúk, vinsælum áningarstað ferðamanna. Nú áformar Landsnet eina slíka raflínu frá Kröflu að Bakka.
Þessar breyttu forsendur þýða að raunhæfir valkostir í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum eru aðrir en þeir sem settir voru fram í fyrirliggjandi umhverfismati; framkvæmdirnar eru ólíkar, hafa ólíkan tilgang og umfang. Minni raforkuflutningsþörf gefur færi á minni flutningsmannvirkjum og opnar á nýja og fleiri möguleika á raflínum, legu þeirra og útfærslu, þ.m.t. jarðstrengjum og loftlínum á lægri spennustigum (132 kV), sem valda minni umhverfisáhrifum. Þessa möguleika verður að umhverfismeta svo finna megi þann kost sem minnst umhverfisáhrif hefur. Þá vekur það undrun Landverndar að hvorki sveitarfélög á svæðinu né Landsnet hafi ekki þegar hugað að því að láta nýtt umhverfismat fara fram, svo lágmarka megi neikvæð áhrif framkvæmdanna.
Bygging álvers Alcoa á Bakka var forsenda fyrirliggjandi umhverfismats. Orkuþörf fyrirhugaðs álvers mun hafa verið um 577 MW, sem línurnar áttu að anna. Árið 2011 féll Alcoa hinsvegar formlega frá því að reisa álverið og forsendur fyrir byggingu svo stórra raforkuflutningsvirkja eru því ekki lengur til staðar. Landsvirkjun hefur hinsvegar gert orkusölusamning við PCC Bakki Silicon vegna nýrrar kísilmálmverksmiðju á Bakka. Kísilmálmverksmiðjan myndi nota allt að 58 MW og þar af kæmu 45 MW úr fyrsta áfanga Þeistareykjavirkjunar, hin 13 MW kæmu frá öðrum virkjunum Landsvirkjunar.
Ekkert liggur fyrir um frekari flutningsþörf til Bakka en umrædd 58 MW að hámarki um eina raflínu sem yrði frá Kröflu og Þeistareykjum til Bakka, auk hugsanlegrar samnýtingar slíkrar línu til almennra nota á Húsavík, en sú notkun er svo smávægileg að ekki skiptir máli í þessu samhengi.
Ljóst er þannig að á þessu stigi er um flutningsþörf að ræða sem einungis krefst um 1/10 af þeirri flutningsþörf sem forsendur umhverfismatsins 2010 gengu út frá. Álit Skipulagsstofnunar byggði þannig á flutningsþörf fyrir 577 MW afl með tveimur línum á 220 kV spennu. Nú er flutningsþörfin 58 MW. Ljóst er að það eru allt aðrar forsendur en áður.
Birt:
Tilvitnun:
Landvernd „Landvernd fer fram á nýtt umhverfismat raflínu frá Kröflu að Bakka“, Náttúran.is: 24. mars 2015 URL: http://nature.is/d/2015/03/24/landvernd-fer-fram-nytt-umhverfismat-raflinu-fra-k/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.