Glífósat líklegur krabbameinsvaldur
Fyrr í marsmánuði hittust sautján sérfræðingar frá ellefu löndum við IARC, alþjóðlega miðstöð krabbameinsrannsókna í Lyon í Frakklandi, (International Agency for Research on Cancer) til að skera úr um krabbameinshættu vegna nokkurra illgresis- og óværulyfja úr lífrænum fosfötum, tetrachlorvinphos, parathion, malathion, diazinon og glyphosate (sjá töflu). Yfirlýsing hópsins birtist í sérriti breska læknatímaritsins Lancet, The Lancet Oncology, 20. mars 2015.
Kveðið var upp úr um að skordýralyfin tetrachlorvinphos og parathion væru hugsanlega krabbameinsvaldandi í fólki (flokkur 2B). Gögn úr rannsóknum á fólki voru þó af skornum skammti og því taldar ófullnægjandi. Tetrachlorvinphos olli æxlisvexti í lifrarvef karlkyns músa (góðkynja eða illkynja) og góðkynja æðaæxlum í milta hjá karlkyns rottum. Efnið er bannað í Evrópusambandinu en leyfilegt í Bandaríkjunum og til dæmis notað þar í gæludýrahálsbönd til að drepa flær. Parathion hefur virst valda lungnakrabbameinum í músum og ýmiss konar æxlismyndun í rottum. Það olli líka skemmdum á DNA-erfðaefni í mannsfrumum sem ræktaðar voru í tilraunaglösum. Notkun þess hefur verið háð ströngum skilyrðum undanfarin þrjátíu ár. Skordýralyfin malathion og diazinon úrskurðaði sérfræðingahópurinn að væru sennilega krabbameinsvaldandi hjá fólki.
Tafla: Flokkun IARC á nokkrum illgresis- og skordýralyfjum úr lífrænum fosfötum. Úr The Lancet Oncology 20.03.2015.
Efnið glyphosate eða glífósat, sem einnig er fjallað um í greininni, snertir skógrækt því það hefur verið notað í skógrækt hérlendis, aðallega til að bægja frá grasvexti í frjósömu landi svo að grasið kæfi ekki litlar trjáplöntur. Einnig hefur það verið notað í miklum mæli hérlendis til að eyða illgresi, ekki síst í þéttbýli, og þekktar eru tilraunir víða um land til að eyða tegundum eins og lúpínu og skógarkerfli. Glífósat er breiðvirkt illgresislyf og það langalgengasta í heiminum. Það er virkt efni í meira en 750 framleiðsluvörum sem ætlaðar eru til notkunar í landbúnaði, skógrækt, umhirðu í þéttbýli og í heimilisgörðum. Þekktasta vörumerkið er væntanlega illgresislyfið Roundup®. Notkun glífósats hefur aukist hratt með þróun nytjaplantna sem erfðabreytt hefur verið svo að þær þoli efnið.
Glífósat hefur mælst í andrúmslofti á þeim tíma árs sem því er úðað en einnig í drykkjarvatni og mat. Hingað til hafa takmarkaðar vísbendingar verið um að efnið gæti valdið krabbameini í fólki. Samanburðarrannsóknir á fagfólki sem unnið hefur með efnið í Bandaríkjunum, Kanada og Svíþjóð hafa bent til aukinnar hættu á blóðkrabba en rannsóknarhópur á vegum bandarískra landbúnaðaryfirvalda sýndi aftur á móti ekki fram á marktæka hættu af þeim toga. Hins vegar hefur sést tilhneiging til sjaldgæfrar tegundar krabbameins hjá músum sem voru útsettar fyrir efninu og önnur rannsókn gaf til kynna aukna hættu á æðaæxlissarkmeinum í músum. Glífósat jók líka hættuna á eyjafrumuæxlum í brisi hjá músum samkvæmt tveimur rannsóknum og efni sem innihélt glífósat ýtti líka undir æxlismyndun í húð músa í einni rannsókn.
Glífósat hefur mælst í blóði og þvagi fólks sem starfar við landbúnað sem bendir til þess að líkaminn taki efnið upp. Örverur í jarðvegi brjóta efnið niður í amínómetílfosfórsýru (AMPA). Fundist hefur AMPA í blóði fólks eftir notkun glífósats sem bendir til þess að örverur í meltingarvegi brjóti efnið niður. Hreint glífósat og efnablöndur með glífósati hafa sýnt sig geta valdið skemmdum á DNA og litningum í spendýrum og slíkar skemmdir hafa sést á dýra- og mannafrumum á rannsóknarstofum. Í einni rannsókn mældust skemmdir á litningum í blóði meiri hjá fólki á nokkrum svæðum eftir að glífósatefnum hafði verið úðað. Einnig voru vísbendingar um aukna tíðni stökkbreytinga í bakteríum. Þessi efni virðast líka samkvæmt rannsóknum auka álag vegna oxunar hjá nagdýrum en líka í frumum á rannsóknarstofum. Sérfræðingahópurinn sem hittist í Lyon ákvað því að flokka glífósat sem líklegan krabbameinsvald í fólki (flokkur 2A).
Heimild: The Lancet Oncology
Texti: Pétur Halldórsson
Birt:
Tilvitnun:
Pétur Halldórsson „Glífósat líklegur krabbameinsvaldur“, Náttúran.is: 24. mars 2015 URL: http://nature.is/d/2015/03/24/glifosat-liklegur-krabbameinsvaldur-hefur-verid-no/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 25. mars 2015