Ályktun um Náttúruminjasafn Íslands
Fimmtán náttúruverndar- og útivistarsamtök hafa sent mennta- og menningarmálaráðherra ályktun þar sem farið er fram á að Alþingi og ráðherra axli ábyrgð og tryggi starfsemi og rekstur Náttúrugripasafns Íslands, sem er eitt þriggja höfuðsafna landsins.
Ályktunin fylgir hér á eftir:
Undirrituð samtök skora á Alþingi og mennta- og menningarmálaráðherra að taka hið fyrsta af skarið varðandi málefni Náttúruminjasafns Íslands og búa þannig um hnútana að starfsemi þessa höfuðsafns þjóðarinnar í náttúrufræðum rísi undir nafni og sómi sé af við miðlun á fróðleik og þekkingu um náttúru landsins, náttúrusögu, náttúruvernd og nýtingu náttúruauðlinda, eins og lög kveða á um.
Staða Náttúruminjasafnsins hefur frá upphafi verið algjörlega óviðunandi, stofnunin fjársvelt, ekkert sýningahald starfrækt og skrifstofuaðstaðan nýverið í lausu lofti eftir uppsögn á húsaleigusamningi.
Það er skýlaus krafa að stjórnvöld axli ábyrgð og tryggi Náttúruminjasafninu starfsumhverfi og fjármagn til reksturs sem hæfir höfuðsafni og gerir því kleift að sinna lögbundnum hlutverkum sínum. Öflugt náttúrufræðisafn styrkir menntakerfið og menningarlífið og stuðlar að aukinni þekkingu á náttúru landsins og skilningi á tengslum hennar við umheiminn. Menntun þjóðarinnar í nátttúrufræðum er forsenda sjálfbærni í megin atvinnugreinum landsins, sem allar hvíla á nýtingu náttúrunnar – fiskveiðar, ferðamennska, þungaiðnaður og landbúnaður. Aukinn skilningur á náttúru Íslands er eitthvert brýnasta og mest aðkallandi verkefni samtímans.
Nöfn samtakanna eru:
- Landvernd
- Náttúruverndarsamtök Íslands
- Bandalag Íslenskra skáta
- Félag Húsbílaeigenda
- Ferðaklúbburinn 4x4
- Framtíðarlandið
- Fuglavernd
- Hið íslenska náttúrufræðifélag
- Kayjakklúbburinn
- Landsamband Hestamanna
- Náttúruverndarsamtök Suðurlands
- Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands
- Skógræktarfélag Íslands
- Ungir Umhverfissinnar
- Útivist
Birt:
Tilvitnun:
Landvernd „Ályktun um Náttúruminjasafn Íslands“, Náttúran.is: 10. mars 2015 URL: http://nature.is/d/2015/03/10/alyktun-um-natturuminjasafn-islands/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.