Nokkrir af  þekktustu sérfræðingum samtímans á sviði loftslagsrannsókna, Gavin Schmidt, Erick Fernandes, Kevin Anderson og Erik M. Conway, taka þátt í ráðstefnunni „Heit framtíð, kalt stríð: Vísindin og loftslagsumræðan“ sem fram fer á Háskólatorgi 105 sunnudaginn 1. mars kl. 13:00 -  17:00.

Dagskrá:

  • Guðni Elísson: „Earth2015“
  • Gavin Schmidt: „Simulating the emergent patterns of climate change“
  • Erick Fernandes: „Turn Down the Heat – Why a 4°C Warmer World Must be Avoided”
  • Kevin Anderson: „Delivering on 2°C: evolution or revolution?“
  • Erik M. Conway: „Merchants of Doubt: How Climate Science Became a Victim of the Cold War“

Guðni Elísson, prófessor í Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, setur þingið og kynnir þátttakendur.
Halldór Björnsson, verkefnisstjóri loftslagsrannsókna hjá Veðurstofu Íslands, stýrir umræðum.

Um þátttakendurna
Gavin Schmidt er forstöðumaður NASA GISS en hann hóf feril sinn hjá geimrannsóknastofnuninni árið 1996. Helsta rannsóknarsvið hans er þróun og mat á tölvulíkönum af loftslagi Jarðar og hvernig þau geta nýst við ákvarðanatöku. Schmidt hlaut doktorspróf í heimfærðri stærðfræði frá University College í London árið 1994. Eftir hann hafa birst fleiri en hundrað ritrýndar fræðigreinar og hann er einnig meðhöfundur bókarinnar Climate Change: Picturing the Science, samstarfsverkefni loftslagsvísindamanna og ljósmyndara.

Erick Fernandes skipar stöðu ráðgjafa um landbúnað, skógrækt og loftlagsbreytingar við Alþjóðabankann og hefur einnig verið einn stjórnenda alþjóðlegs sérfræðingateymis bankans um aðlögun vegna loftslagsbreytinga (GET-CCA). Fernandes ólst upp á úrkomusnauðum sléttum Norður-Keníu, Eþíópíu og Sómalíu. Hann er með doktorsgráðu í jarðvegsvísindum frá Ríkisháskóla Norður-Karólínu og áður en hann hóf störf hjá Alþjóðabankanum var hann prófessor við Cornell-háskola.

Kevin Anderson er fráfarandi forstöðumaður Tyndall-loftslagsstofnunarinnar en tekur nú við formennsku í orku- og loftslagsdeild Manchester-háskóla. Með fram því mun hann áfram stýra Tyndall-loftslagsstofnuninni ásamt nýjum forstöðumanni. Hann er virkur rannsakandi og hefur nýlega birtinga greinar í tímaritum Royal Society og Nature. Anderson hefur sýnt fram á að það er lítil von um að halda hækkun meðalhitastigs jarðar undir 2°C, þrátt fyrir öndverðar yfirlýsingar stjórnmálamanna og ýmissa sérfræðinga. Enn fremur sýna rannsóknir Andersons að jafnvel til þess að halda hækkun hitastigsins undir 4°C þurfi gagngerra endurhugsun á því hvernig menn nálgast loftslagsvandann og samhliða því róttækar breytingar á efnahagskerfi samtímans.

Erik Conway sagnfræðingur á sviði vísinda og tækni er prófessor við Caltech-háskóla í Kaliforníu. Hann rannsakar sögu geimferða og vinnur að samþættingu geimvísinda, jarðvísinda og tækninýjunga. Conway hefur skrifað tvær bækur um loftslagsbreytingar ásamt Naomi Oreskes, Merchants of Doubt (2010) um vísvitandi misvísandi framsetningu loftlagsbreytinga meðal lítils hóps háttsettra vísindamanna og The Collapse of ‘Western’ Civilization (2014, þar sem gjörðir manna í samtímanum eru skoðaðar frá skálduðum sjónarhóli í framtíðinni.

Guðni Elísson er prófessor í almennri bókmenntafræði við Íslensku- og menningarfræðideild við Háskóla Íslands. Hann hefur gert umfangsmiklar rannsóknir á umræðu um loftslagsmál í íslensku samhengi.

Halldór Björnsson er verkefnisstjóri loftslagsrannsókna hjá Veðurstofu Íslands. Hann hefur m.a. komið að gerð skýrslna milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC).

Birt:
28. febrúar 2015
Höfundur:
Háskóli Íslands
Tilvitnun:
Háskóli Íslands „Heit framtíð, kalt stríð: Vísindin og loftslagsumræðan“, Náttúran.is: 28. febrúar 2015 URL: http://nature.is/d/2015/02/28/heit-framtid-kalt-strid-visindin-og-loftslagsumrae/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: