Strúturinn eða Fönixinn? Mishljómur eða sköpunargleði í heimi loftslagsbreytinga
Kevin Anderson, prófessor og fráfarandi forstöðumaður Tyndall-loftslagsstofnunarinnar í Manchester, flytur erindi á Háskólatorgi (sal HT-105) undir yfirskriftinni „Strúturinn eða fönixinn? Mishljómur eða sköpunargleði í heimi loftslagsbreytinga“. Fyrirlesturinn verður miðvikudaginn 25. febrúar kl. 13.50–14.50.
Kevin Anderson tekur nú við formennsku í orku- og loftslagsdeild Manchester-háskóla, en mun með fram því stýra Tyndall stofnuninni ásamt nýjum forstöðumanni. Hann er virkur rannsakandi og hefur nýlega birtinga greinar í tímaritum Royal Society og Nature. Hann vinnur að hinum ýmsu verkefnum fyrir stjórnvöld, allt frá skýrslugerð um losun gróðurhúsalofttegunda af völdum flugsamgangna fyrir Evrópuþingið til ráðgjafastarfa fyrir breska forsætisráðuneytið, m.a. um loftslagsstefnu Bretlands.
Skrif Andersons og samstarfskonu hans Alice Bows-Larkin um kolefniskvóta hafa afhjúpað gríðarlegt þekkingarlegt misræmi milli orðræðu stjórnmálamanna og raunverulegra afleiðinga sívaxandi útblásturs koltvísýrings.
Koma Andersons til landsins er einstakt tækifæri fyrir Íslendinga sem gefst ekki aftur. Anderson er hættur að fljúga af siðferðilegum ástæðum og leggur á sig langt og strangt ferðalag með stórflutningaskipum Eimskipafélagsins til þess að vera hérna með okkur.
Anderson hefur sýnt fram á að það er lítil von um að halda hækkun meðalhitastigs jarðar undir 2°C, þrátt fyrir öndverðar yfirlýsingar stjórnmálamanna og ýmissa sérfræðinga. Enn fremur sýna rannsóknir Andersons að jafnvel til þess að halda hækkun hitastigsins undir 4°C þurfi gagngerra endurhugsun á því hvernig menn nálgast loftslagsvandann og samhliða því róttækar breytingar á efnahagskerfi samtímans.
Guðni Elísson, prófessor í Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, kynnir Anderson og stýrir umræðum.
Birt:
Tilvitnun:
Háskóli Íslands „Strúturinn eða Fönixinn? Mishljómur eða sköpunargleði í heimi loftslagsbreytinga“, Náttúran.is: 24. febrúar 2015 URL: http://nature.is/d/2015/02/24/struturinn-eda-fonixinn-mishljomur-eda-skopunargle/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.