Rúmum 175 milljónum úthlutað úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hefur staðfest tillögu stjórnar Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða um fyrstu úthlutun úr sjóðnum fyrir árið 2015. Að þessu sinni fengu 50 verkefni styrk fyrir 175,7 milljónir króna, til hönnunar og framkvæmda á ferðamannastöðum.
Hæstu styrkir 12 milljónir króna
Sem fyrr eru verkefnin fjölbreytt og dreifast víða um land. Hæstu styrkina, 12 milljónir króna, hljóta Vatnajökulsþjóðgarður vegna salernisaðstöðu við Snæfellsskála og Akraneskaupstaður vegna framkvæmda við Breiðina. Snæfellsbær fær 10 milljón króna styrk vegna aðgengis við Bjarnarfoss í Staðarsveit og 3 verkefni fá styrk á bilinu 8-9,5 milljónir króna.
Styrkjum má skipta í eftirfarandi flokka:
- Skipulag og hönnun, 7 styrkir kr. 18.9 milljónir
- Framkvæmdir, 24 styrkir kr. 118.6 milljónir
- Náttúruvernd og viðhald, 19 styrkir kr. 38, 2 milljónir
Að auki fékk Djúpavogshreppur 9 milljón króna styrk vegna skipulags og framkvæmda við Teigarhorn vegna sérstakra aðstæðna á svæðinu. Fjármagnað er með ónýttum eftirstöðvum eldri styrkja.
Sótt um fyrir 831 milljón
Alls bárust alls 103 umsóknir frá opinberum- og einkaaðilum sem hafa umsjón með ferðamannastöðum víðsvegar um landið. Heildarupphæð styrksumsókna var rúm 831 milljón króna en heildarkostnaður við verkefnin er áætlaður um 2 milljarðar króna.
Verulegur árangur náðst
Framkvæmdasjóður ferðamannastaða er nú á sínu fjórða starfsári og hefur frá upphafi úthlutað rúmlega 340 styrkjum að upphæð tæplega 1,5 milljarðar króna. Fullyrða má að verulegur árangur hafi þegar náðst af starfi sjóðsins. Víða um land má benda á spennandi verkefni sem orðið hafa að veruleika fyrir tilstuðlan þess fjármagns sem sjóðurinn hefur úthlutað, þótt vissulega sé enn víða þörf á úrbótum.
Listi yfir úthlutaða styrki 2015
Yfirlit um úthlutaða styrki frá upphafi
Næsta úthlutun:
Gert er ráð fyrir að næst verði auglýst eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum í haust og þá vegna framkvæmda á árinu 2016.
Birt:
Tilvitnun:
Ferðamálastofa „Rúmum 175 milljónum úthlutað úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða“, Náttúran.is: 24. febrúar 2015 URL: http://nature.is/d/2015/02/24/rumum-175-milljonum-uthlutad-ur-framkvaemdasjodi-f/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.