Fleiri hleðslustöðvar en bensínstöðvar
Nú er svo komið að í Japan eru fleiri hleðslustöðvar fyrir rafbíla heldur en bensínstöðvar. Samkvæmt tilkynningu frá Nissan, öðrum stærsta bílaframleiðanda Japans, eru 40 þúsund hleðslustöðvar í landinu, og eru þá stöðvar í einkaeigu meðtaldar, og 34 þúsund bensínstöðvar.
Á hverri bensínstöð eru þó nokkrar dælur og því geta fleiri bílar fengið sig afgreidda í einu. Nissan hefur undanfarið veðjað á að þörfin fyrir rafbíla komi til með að aukast. Toyota, aðalkeppinautur fyrirtækisins og stærsta fyrirtækið á japanska markaðinum, hefur hins vegar einbeitt sér að framleiðslu vetnisbílsins Mirai sedan sem er væntanlegur á markað á næsta ári. Samkvæmt fyrirtækinu hefur pöntunum rignt inn. Vetnisbílar eru mjög umhverfisvænir, þar sem þeir skila eingöngu frá sér vatni og gufu, engum útblæstri. Enn er þó talsverður skortur á vetnisstöðvum. Vísindamenn telja að svokallaðir grænir bílar, raf- og vetnisbílar, komi til með að skila miklum árangri þegar kemur að því að stemma stigu við hnattrænni hlýnun.
Birt:
Tilvitnun:
Ríkisútvarpið ohf „Fleiri hleðslustöðvar en bensínstöðvar“, Náttúran.is: Feb. 17, 2015 URL: http://nature.is/d/2015/02/17/fleiri-hledslustodvar-en-bensinstodvar/ [Skoðað:Oct. 3, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.