Jökulsárlón. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Samkomulag náðist á fundi Sameinuðu þjóðanna í Genf í Sviss í gær um drög að nýjum loftslagssamningi. Þau verða til umræðu á ráðstefnu í París í desember. Þar á að samþykkja nýjan lagalega bindandi loftslagssamning fyrir öll ríki heims.

Samkomulagið, sem samþykkt var í Sviss í gær, er 86 blaðsíður og byggist á niðurstöðum loftslagsfundarins í Líma í Perú í fyrra. Samkomulagið sem gert verður í París í lok þessa árs verður, að mati sérfróðra, alls ekki eins langt og ítarlegt og það sem gert var í gær enda erfiðisvinnan eftir - þ.e. að ná saman um plagg sem leiðtogar heims geti allir skrifað upp á. Fyrir fundinn í Genf í gær var  markmiðið að ljúka drögum að samkomulagi og var ekki víst að það myndi takast. Niðurstaðan kemur því - að mati sérfræðinga - þægilega á óvart.

Á Parísarfundinum á að gera bindandi samkomulag í loftslagsmálum sem liggi fyrir um næstu áramót og taki gildi 2020 þegar Kyoto-bókunin rennur út - en hún var framlengd á loftslagsfundinum í Katar 2012. Ákveðið var á fundinum í Líma í fyrra að ríki setji sér ákveðin viðmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og tilkynni þau skrifstofu Loftslagssamningsins fyrir Parísarfundinn.

Bandaríkin, Kína og Evrópusambandið hafa þegar gefið til kynna áform sín um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda fyrir Parísarsamninginn. Næsti fundur til undirbúnings fyrir Parísarráðstefnuna verður í Bonn í Þýskalandi í júní.

Birt:
16. febrúar 2015
Tilvitnun:
Ríkisútvarpið ohf „Drög að loftslagssamningi samþykkt“, Náttúran.is: 16. febrúar 2015 URL: http://nature.is/d/2015/02/16/drog-ad-loftslagssamningi-samthykkt/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: