Tugþúsundir tonna af plasti á ári
Noti Íslendingar plast í jafn miklum mæli og íbúar Norður-Ameríku og Evrópu er heildarnotkun okkar 32.500 tonn á ári. Tölur Úrvinnslusjóðs sýna að um 24% af öllu umbúðaplasti og heyrúlluplasti skilar sér til endurvinnslu.
Það er vel yfir endurvinnslumarkmiði stjórnvalda, sem er 22,5%, en samt þýðir þetta að um þrír fjórðu hlutar allra plastumbúða lenda einhvers staðar annars staðar.
Stefán Gíslason fjallar um heimsframleiðslu á plasti og gang mála í endurvinnslu í Samfélaginu þ. 29. janúar 2015.
Samfélagið fimmtudaginn 29. janúar 2015
Pistill Stefáns - Vaxandi plastframleiðsla:
Það er frekar erfitt fyrir okkur sem nú lifum í þessum heimshluta að ímynda okkur veröldina án plasts. Samt er ekki svo ýkja langt síðan plast var nánast hvergi að finna í daglegu lífi venjulegs fólks. Þannig var það meira að segja um það leyti sem ég man fyrst eftir mér – og varla getur nú verið mjög langt síðan! Það var sem sagt ekki fyrr en um miðja 20. öld sem farið var að fjöldaframleiða hluti úr plasti í einhverjum mæli.
Á þeim rúmlega 50 árum sem liðin eru síðan ég man fyrst eftir mér hefur heimsframleiðslan á plasti vaxið jafnt og þétt ár frá ári. Í gær birti World Watch Institute til dæmis tölur um plastframleiðsluna á árinu 2013. Samkvæmt því yfirliti hefur ársframleiðslan aukist úr því að vera svo sem ekki nein fyrir rúmri hálfri öld upp í 299 milljónir tonna árið 2013 – og hafði þá aukist um 3,9% frá árinu áður. Og þó að margir séu farnir að hafa áhyggjur af plasti sem safnast upp í náttúrunni, þá bendir ekkert til annars en að framleiðslan haldi áfram að aukast á næstu árum. Eftirspurn eftir plasti eykst nefnilega jafnt og þétt, samfara lágu verði og aukinni neysluhyggju sem virðist breiðast hratt út til heimshluta sem áður sátu hjá í þessari þróun. Eins og staðan er í dag notar meðal-Jóninn í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku um 100 kg af plasti á ári, en í Asía er þessi tala um 20 kg og fer ört hækkandi.
Menn geta svo sem deilt um það hvort þessi stöðugi framgangur plastsins sé til góðs eða ills fyrir jarðarbúa og náttúruna sem þessir jarðarbúar byggja tilveru sína á. En það sem hlýtur að valda flestum hugsandi jarðarbúum áhyggjum í þessu sambandi er að endurnýting og endurvinnsla plasts eykst alls ekki í takti við framleiðsluaukninguna. Það þýðir einfaldlega að milljónir og aftur milljónir tonna af plasti eru jarðsett á urðunarstöðum um allan heim eða enda í heimshöfunum þar sem þau munu velkjast um næstu aldir í félagsskap sífellt stækkandi skammta af nýju plasti sem bætist í safnið árlega.
Á síðustu árum hafa menn náð ágætum tökum á að framleiða plast úr endurnýjanlegu hráefni, svo sem úr maís og sykurreyr. Þetta er þó enn sem komið er ekki nema örlítið brot af plastframleiðslunni í heiminum. Hér um bil allar þessar 299 milljónir tonna af plasti voru sem sagt framleidd úr olíu og gasi, en samkvæmt tölum World Watch Institute eru um 4% af öllu jarðefnaeldsneyti heimsins breytt í plast og önnur 4% þarf til að knýja sjálft framleiðsluferlið. Þarna erum við sem sagt að tala um samtals 8% af allri olíuframleiðslu heimsins.
Eins og ég nefndi áðan eykst plastframleiðslan um þessar mundir um því sem næst 4% á ári. Ef maður rýnir í tölur síðustu áratuga má sjá að í raun hefur hægst töluvert á aukningunni frá því sem var á fyrstu áratugum plastaldarinnar sem vér lifum nú á. Þannig jókst framleiðslan að meðaltali um 8,7% á ári á tímabilinu 1950 til 2012. Á þessum tíma var plastið var smátt og smátt að leysa önnur efni af hólmi – og þá sérstaklega málma, gler og pappír. Nú hefur plastið að miklu leyti tekið við hlutverki þessara efna í matarumbúðum – og reyndar í öðrum umbúðum líka. Árið 2009 var plast til dæmis 30% af öllum seldum umbúðum í heiminum. Aukin áhersla á sparneytnari bíla hefur líka átt sinn þátt í aukinni eftirspurn eftir plasti. Þannig er plast nú um 10% af þyngd hvers fólksbíls sem framleiddur er í Bandaríkjunum og 50% ef hlutfallið er reiknað út frá rúmmáli. Þetta gera rúmlega 150 kíló í hverjum einasta bíl. Árið 1960 var þessi tala ekki nema rétt um 9 kíló.
Ég hef ekki við hendina neinar nákvæmar tölur um það hversu mikið af plasti Íslendingar nota árlega, en ef við gefum okkur að íslenskir meðal-Jónar séu álíka neyslufrekir og evrópskir og norður-amerískir meðaljónar, þá eru þetta um 32.500 tonn af plasti á ári. Í ársskýrslu Úrvinnslusjóðs er að finna tölur um árlegt magn umbúðaplasts og heyrúlluplasts sem sett er á markað hérlendis árlega, en árið 2013 var þessi tala 12.665 tonn. Með hliðsjón af því er þessi heildartala upp á 32.500 tonn hreint ekki ólíkleg.
Ef við rýnum nánar í tölur Úrvinnslusjóðs, þá sýna þær að um 24% af öllu umbúðaplasti og heyrúlluplasti skilar sér til endurvinnslu. Það er vel yfir endurvinnslumarkmiði stjórnvalda, sem er 22,5%, en samt þýðir þetta að um þrír fjórðu hlutar allra plastumbúða lenda einhvers staðar annars staðar. Að vísu er erfitt að nefna hárnákvæma tölu í þessu sambandi, því að plast sem sett er á markað á tilteknu ári verður ekkert endilega að úrgangi sama ár.
Líklega hafa flestir heyrt talað um plastflákana fimm sem sveima um úthöfin og safna sífellt í sig meira af plasti og öðrum efnum með ófyrirsjáanlegum skaða fyrir vistkerfi hafsins. Því hefur verið slegið fram að allt að 10% heimsframleiðslunnar endi í sjónum, en það eru um 30 milljón tonn af plasti á ári. Ef til vill er það ríflega áætlað, enda er oft talað um að árlega fari um 10-20 milljónir tonna af plasti í sjóinn. Nýleg athugun bendir til að nú megi finna samtals um 5.250 milljarða stórra og smárra plastagna í sjónum og að samanlagt vegi þetta plast um 268.940 tonn, sem er þá rétt tæplega öll plastframleiðsla heimsins í heilt ár. Margir telja þetta reyndar vera varlega áætlað. En hvað sem plastagnirnar í sjónum eru margar og þungar, þá fljóta þær ekki bara þarna um í friði og spekt, heldur valda þær gríðarlegum búsifjum og kostnaði. Þannig er áætlað að plastið í sjónum valdi árlega um 13 milljarða dollara tjóni, en það samsvarar hátt í 1.750 milljörðum íslenskra króna. Inni í þessari tölu er tjón sem plastið veldur á vistkerfum hafsins, beint fjárhagstjón útgerðar og ferðaþjónustu og kostnaður við hreinsun strandsvæða.
Út frá tölum sem hér hafa verið nefndar er ekki fjarri lagi að áætla að við Íslendingar missum árlega um 1.600 tonn af plasti á haf út. Þrjúhundruðþúsundmanna þjóð sem vill vera í fararbroddi í málefnum hafsins þarf að gera betur en það. Fyrsta skrefið er að láta aldrei plast úr hendi sleppa utandyra, því að mest af því plasti sem vindurinn nær að feykja af stað endar fyrr eða síðar í sjónum. Í þessu sambandi er hollt að hafa í huga að ef Snorri Sturluson hefði notað plast á meðan allt lék í lyndi hjá honum í Reykholti, og ef eitthvað af því plasti hefði í ógáti horfið út í veður og vind, þá væri þetta sama plast jafnvel enn að flækjast einhvers staðar í kringum okkur, líklega í sjónum. Þess vegna er eðlilegt að við veltum því fyrir okkur, hvert fyrir sig, hvort plastið sem við köstum frá okkur í dag verði enn á sveimi meðal afkomenda okkar eftir 800 ár.
Birt:
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Tugþúsundir tonna af plasti á ári“, Náttúran.is: 31. janúar 2015 URL: http://nature.is/d/2015/01/31/tugthusundir-tonna-af-plasti-ari/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.