Kristín Vala í Rómarklúbbinn
Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands, hefur fengið innöngu í Rómarklúbbinn svokallaða (e. Club of Rome) sem vinnur að því að greina helstu vandamál sem steðja að mannkyninu og jörðinni.
Rómarklúbburinn eru alþjóðleg samtök sem eiga sér nærri 50 ára sögu en aðild að þeim eiga leiðtogar sviðum stjórnmála, viðskipta og vísinda sem deila áhuga á framtíð jarðar og mannskyns. Markmið samtakanna er að koma auga mikilvægustu viðfangsefnin sem móta muni framtíð manna og meta hættur sem steðja að mannkyninu ásamt því að koma með lausnir til þess að takast á við þær áskoranir sem bíða þjóða heims.
Samtökin hafa sent frá sér 33 skýrslur um framtíð mannkyns en sú þekktasta er líklegast „Takmörk vaxtar“ (Limits to Growth) sem kom út árið 1972. Þar voru svokölluð kvik kerfislíkön nýtt til að leiða í ljós afleiðingar samspils fólksfjölgunar og takmarkaðra náttúruauðlinda. Skýrslan og líkönin hafa staðist tímans tönn því þau vandamál sem spáð var fyrir, eins og offjölgun jarðarbúa, eyðilegging vistkerfa, mengun og þverrun náttúruauðlinda, hafa öll komið á daginn.
Um 100 manns víðs vegar að úr heiminum eiga nú aðild að Rómarklúbbnum sem hefur á síðustu árum einblínt á lausnir við þeim kerfisvanda sem mannkynið stendur frammi fyrir, þar á meðal að þróa nýja tegund efnahagskerfis sem byggist á því að ganga ekki á auðlindir jarðar en tryggja störf og nægar tekjur fyrir alla jarðarbúa.
Kristín Vala, sem er menntuð í jarðefnafræði, hefur um árabil sinnt rannsóknum tengdum sjálfbærni og meðal annar stýrt stórum alþjóðlegum rannsóknaverkefnum sem snúa að jarðvegi og sjálfbærum samfélögum. Hún vinnur nú ásamt samstarfsmanni sínum Harald Sverdrup, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands, að greiningu á samspili auðlinda og hagkerfa og hafa þau birt greinar þar um í alþjóðlegum vísindatímaritum. Þar að auki hefur hún unnið með alþjóðlegum hópi vísindamanna sem leggja til að árangur þjóða sé mældur með öðrum mælikvörðum en vergri landsframleiðslu. Greinar frá þeim hópi birtust m.a. í Nature og Geoscientist á sl. ári.
„Ég hlakka til að vinna með þessum góða hópi í Rómarklúbbnum sem hefur miklar hugsjónir um að breyta heiminum til hins betra,“ segir Kristín Vala um viðurkenninguna en hún hefur áður hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrri störf sín, þar á meðal inngöngu í bæði Evrópsku og Norsku vísindaakademíuna og verðlaun Balaton-hópsins fyrir vinnu sína í þágu sjálfbærni.
Birt:
Tilvitnun:
Háskóli Íslands „Kristín Vala í Rómarklúbbinn“, Náttúran.is: 23. janúar 2015 URL: http://nature.is/d/2015/01/23/kristin-vala-i-romarklubbinn/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 25. janúar 2015