Gjörningaklúbburinn; Háaloft

Laugardaginn 24. janúar klukkan 14:00 opnar sýningin Ákall í Listasafni Árnesinga. Þau verk sem valin hafa verið á þessa sýningu tengjast öll orðræðunni um sjálfbæra þóun og þeim siðferðilegu málefnum sem hún vekur. Verkin eiga það sameiginlegt að vekja upp gagnrýna hugsun sem hvetur áhorfendur til að taka afstöðu til þeirra málefna sem verið er að vinna með hverju sinni og krefur þá jafnvel til þátttöku. 

Sýningarstjóri er Ásthildur Björg Jónsdóttir, lektor í listkennsludeild Listaháskóla Íslands. Sýningin er hluti af doktorsrannsókn hennar við Háskólann í Rovaniemi Finlandi og Háskóla Íslands. 

 Með aukinni þekkingu á heiminum lærum við hvernig allt í náttúrunni tengist. Þekkingin gerir einstaklingum kleift að uppgötva eigin hluteild í náttúrunni og samfélaginu sem er forsenda þess að viðkomandi geti tengt á milli atburðarása og séð viðburði í samhengi. Verkin á sýningunni Ákall benda okkur á ýmsa þætti sem vert er að skoða í samhengi sjálfbærni og geta hjálpað til við að velta fyrir okkur samhengi manns og náttúru. Samhengi og þekking eru forsenda þess að geta tekið þátt í að vinna gegn uggvænlegum afleiðingum af ósjálfbærri hegðun mannsins sem hefur neikvæðar afleiðingar fyrir komandi kynslóðir. Forsendur breytinga er þátttaka allra, samvinna og virðing fyrir stað og stund.

Ein leið að sjálfbæru samfélagi er í gegnum menntun. Í gildandi aðalnámskrám fyrir öll skólastig er sérstaklega tekið á mikilvægi þess að mennta til sjálfbærni í víðtækum skilningi þess hugtaks þar sem fjallað er um afstöðu einstaklingsins til mannréttinda, vistfræðilegs, efnahagslegs og félagslegs jafnréttis. Verkin á sýningunni Ákall vekja upp spurningar hjá  sýningargestum sem hvetur þá til að  rækta sjálfsvitundina og sjálfsgagnrýni. Sum verkanna eru með skýra  tengingu við náttúruvernd, lýðræði, virkni og mikilvægi virkrar þátttöku almennings í ákvörðunartöku.
Þegar við rýnum í listaverk öðlumst við grundvöll til að meta þau. Við val á listaverkunum var haft að leiðarljósi að veita áhorfendum tækifæri til að hugsa um þær félagslegu aðstæður sem verkin voru sköpuð í og hver séu sjónarhorn listamannanna. Þannig vekur inntak verkanna spurningar hjá áhorfendum sem  er kveikja túlkunar og veitir þeim forsendur til að taka listaverkin alvarlega.

Flestir gera sér grein fyrir að eyði maður um efni fram kemur að skuldadögum. Tæmi maður bankareikninginn og taki lán fyrir neyslu skerðir það möguleika manns til neyslu í framtíðinni. Með skammtímasjónarmið í huga, tímabundnum auknum lífsgæðum, skapar maður í raun versnandi lífsgæði í framtíðinni. Að lifa lífinu á þann hátt að maður viðhaldi góðu lífi án þess að skerða lífsgæði komandi og núverandi kynslóða er lykillinn að sjálfbærni.

Ásthildur Björg Jónsdóttir, sýningarstjóri.Ásthildur fékk tuttugu og fjóra samtímalistamenn til samstarfs við sig sem eru: Anna Líndal, Ásdís Spano, Bjarki Bragason, Bryndís Snæbjörnsdóttir & Mark Wilson, Eggert Pétursson, Gjörningaklúbburinn, Guðrún Tryggvadóttir, Gunndís Ýr Finnbogadóttir, Hildur Bjarnadóttir, Hildur Hákonardóttir, Hrafnkell Sigurðsson, Libia Castro & Ólafur Ólafsson, Ólöf Nordal, Ósk Vilhjálmsdóttir, Pétur Thomsen, Rósa Gísladóttir, Rúrí, Spessi og Þorgerður Ólafsdóttir. 

Jafnframt virkjaði Ásthildur listkennslunema í Listaháskólanum og kennara nokkurra skóla í Árnessýslu til þess að vinna með grunnskólabörnum þátttökuverk. Ungmennin myndgerðu óskir sýnar fyrir komandi kynslóðir. Verkin á sýningunni lögðu grundvöll umræðunnar sem átti sér stað áður en þau sköpuðu verkin. Á meðan sýningunni stendur gefst gestum safnsins tækifæri til að taka þátt í verkinu.

Á sýningunni má m.a. velta fyrir sér fegurð í hinu smá, stærra samhengi, margslungnu sambandi náttúrunnar og hins manngerða og eðli flokkunarkerfa og neysluhyggju. Hver eru tengsl þekkingar, staðar og stundar? Hvernig getum við brugðist við breytingum í umhverfi okkar? Hvaða svigrúm hefur einstaklingurinn til að breyta sínu kerfisbundna daglega lífi? Hvernig getum við skapað samábyrgt þjóðfélag? 

Sýningin Ákall mun standa til og með sunnudeginum, 26. apríl. Listasafn Árnesinga er opið fimmtudaga til sunnudaga kl. 12 – 18. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir.


Birt:
Jan. 23, 2015
Tilvitnun:
Listasafn Árnesinga „Ákall - Sýning í Listasafni Árnesinga“, Náttúran.is: Jan. 23, 2015 URL: http://nature.is/d/2015/01/23/akall-syning-i-listasafni-arnesinga/ [Skoðað:July 15, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: April 15, 2015

Messages: