Kemísk efni í hlutum og réttur neytandans
Allt í kringum okkur eru kemísk efni sem koma víða að góðum notum í okkar daglega lífi. Þó eru sum innihaldsefni varasöm og mikilvægt að neytandinn sé upplýstur um slíkt svo hann geti tekið upplýsta ákvörðun í verslunum. Neytandinn getur skoðað innihaldslýsingu á umbúðum efna eða efnablandna og að auki skulu öryggisblöð með ítarlegri upplýsingum um örugga notkun fylgja þeim vörum notaðar eru í atvinnuskyni.
Engar kröfur eru gerðar um efnainnihaldslýsingu á hlutum, eins og t.d. húsgögnum, vefnaðarvörum, skóm og raftækjum. Þessir hlutir innihalda þó kemísk efni sem gefa þeim ákveðna eiginleika. Mýkingarefnum er t.d. bætt í plast til að gera það mjúkt og eldtefjandi efnum er bætt í vefnaðarvöru og raftæki til að koma í veg fyrir að kvikni í henni. Ef slík innihaldsefni hafa heilsu- og umhverfisskaðlega eiginleika og losna frá hlutnum þá getur það haft neikvæð áhrif á heilsu manna og umhverfi.
Neytandinn hefur rétt að fá afhentar upplýsingar í verslunum um hvort hlutur innihaldi efni á lista Evrópusambandsins yfir sérlega hættuleg efni, svokölluðum kandídatslista. Á þessum lista eru efni sem hafa skaðlega eiginleika eins og að vera krabbameinsvaldandi, skaða frjósemi eða vera skaðleg umhverfinu. Umhverfisstofnun kynnti iðnaði og verslun þennan rétt neytandans á upplýsingafundi þann 5. september 2013 og hefur nú sett inn upplýsingatexta á heimasíðu sinni um grænan lífsstíl.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Kemísk efni í hlutum og réttur neytandans“, Náttúran.is: 23. janúar 2015 URL: http://nature.is/d/2015/01/22/kemisk-efni-i-hlutum-og-rettur-neytandans/ [Skoðað:26. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 22. janúar 2015