Ráðstefna um lífrænan úrgang í undirbúningi
Stilla þarf saman strengi og nýta þessa auðlind
Í undirbúningi er ráðstefna um nýtingu lífræns úrgangs til uppgræðslu og annarrar ræktunar. Ráðgert er að hún verði haldin í húsakynnum Landgræðslu ríkisins í Gunnarsholti á Rangárvöllum föstudaginn 20. mars. Skipað hefur verið í undirbúningshóp þar sem sitja fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtaka, fyrirtækja í úrgangsiðnaði, Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins.
Margvíslegur lífrænn úrgangur fellur til hér á landi og með vaxandi umhverfiskröfum verður æ brýnna að þeim verðmætum sem felast í slíkum úrgangi sé ekki hent heldur séu þær nýttar til þarfra verkefna svo sem landgræðslu og ýmissar ræktunar, til dæmis skógræktar og annars landbúnaðar. Útlit er fyrir að í framtíðinni verði bannað að urða lífrænan úrgang og því ekki ráð nema í tíma sé tekið að finna sem besta farvegi fyrir þessi efni.
Ýmsar leiðir hafa nú þegar verið kannaðar nokkuð og má nefna orkuvinnslu, jarðgerð, dreifingu úrgangs á örfoka land og fleira. Ljóst er þó að sameina þarf krafta þeirra sem málið varðar og móta stefnu. Það er öðrum þræði markmið ráðstefnunnar en einnig að varpa ljósi á þau verkefni sem nú þegar er unnið að vítt og breitt um landið, draga fram þá möguleika í vinnslutækni og nýtingu sem völ er á, varpa ljósi á lög og reglugerðir og fleira.
Tilraunir Landgræðslunnar og sveitarfélaga á Suðurlandi með dreifingu seyru á örfoka land hafa vakið athygli og ljóst er að slík dreifing getur borið skjótan árangur eins og sést á þessum myndum af Hrunamannaafrétti. Þar hafa tilraunir staðið undanfarin þrjú ár og meðal annars komið í ljós að í sandinum er nægilegt fræ til að spíra þegar seyran er plægð þar niður.
Ekki liggur í augum uppi hvernig lífrænn úrgangur getur nýst í hefðbundinni skógrækt hérlendis enda fer hún oftast fram með þeim hætti að bakkaplöntur eru gróðursettar með plöntustaf og matskeið af tilbúnum áburði látin fljóta með. Hins vegar er vert að benda á verkefnið Hekluskóga þar sem kjötmjöl er nýtt til skóggræðslu með góðum árangri. Lífrænn úrgangur á þar stóran þátt í að byggja upp þá gróðurskán sem verður fræset fyrir birki og getur fóstrað ungar trjáplöntur.
Ýmiss konar lífrænan úrgang mætti nýta með svipuðum hætti til að búa í haginn fyrir skógrækt á örfoka landi. Ef lífrænn úrgangur á borð við moltu eða hrat frá metanvinnslu er kögglaður má dreifa honum í skóga til áburðar og til að auka lífvirkni. Einnig mætti skipuleggja sérstaka nytjaskóga þannig að þeir geti tekið við reglulegum skömmtum af seyru sem yrði þá sprautað milli trjáraðanna úr tankbílum. Slíka skóga væri hentugt að rækta á illa eða ógrónum láglendissöndum og fengist þá tvennt í einu, hagkvæm losun lífræns úrgangs og verðmætur skógur til iðnviðar- eða timburframleiðslu.
Ljóst er því að nýting lífræns úrgangs í skógrækt er nokkuð sem vert er að kanna nánar. Helsti þröskuldurinn að yfirstíga er sá kostnaður sem felst í því að flytja úrganginn langan veg. Sá kostnaður eykst eftir því sem efnið er þyngra og rúmfrekara.
-
Ráðstefna um nýtingu lífræns úrgangs til uppgræðslu og annarrar ræktunar
- Staðsetning
- None Gunnarsholt
- Hefst
- Föstudagur 20. mars 2015 09:00
- Lýkur
- Föstudagur 20. mars 2015 17:00
Tengdir viðburðir
Birt:
Tilvitnun:
Pétur Halldórsson „Ráðstefna um lífrænan úrgang í undirbúningi “, Náttúran.is: 22. janúar 2015 URL: http://nature.is/d/2015/01/22/radstefna-um-lifraenan-urgang-i-undirbuningi/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 6. mars 2015