Frans páfi talar á Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP-20) sem haldin var í Lima í PerúFrans er búinn að vera mjög duglegur í umhverfisbaráttunni, ekki síst í loftslagsmálunum. Þar hefur hann tekið mun beittari afstöðu en fyrirrennararnir. Stefán Gíslason fjallar um þetta í pistli sínum í dag.

Páfinn og umhverfið

Frans páfi hefur látið talsvert til sín taka í loftslagsumræðunni upp á síðkastið, en hingað til höfum við ekki átt því að venjast að páfinn hafi sig mikið í frammi í umhverfismálunum. Stundum hefur kaþólska kirkjan jafnvel þótt vinna gegn úrbótum í umhverfislegu og samfélagslegu tilliti, svo sem með andstöðu sinni gegn því að fólksfjölgunarvandinn væri nefndur í alþjóðlegum yfirlýsingum og með eindreginni afstöðu gegn notkun getnaðarvarna. En nýir siðir koma með nýjum herrum, jafnvel í Vatíkaninu.

Eins og hlustendur muna var 20. ráðstefna aðildarríkja Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP-20) haldin í Lima í Perú í byrjun desember. Þangað sendi páfinn skýr skilaboð um mikilvægi þess að leiðtogar þjóða heims kæmu sér saman um aðgerðir til að sporna við loftslagsbreytingum, enda væri þetta mál sem snerti allt mannkynið, sérstaklega kynslóðir framtíðar og þá sem minna mættu sín. Breytingar, sem við værum þegar farin að sjá, minntu á hversu alvarlegar afleiðingar það hefði að bregðast ekki við vandanum. Tíminn til að finna hnattrænar lausnir væri að renna út. Enn væri þó hægt að bjarga málum, en þá aðeins með samkomulagi og samstilltu átaki án pólitísks og efnahagslegs þrýstings.

En páfinn ætlar ekki að láta staðar numið við bréfið sem hann sendi inn á loftslagsráðsstefnuna í Lima í fyrri mánuði. Þvert á móti bendir flest til að hann vinni eftir markvissri aðgerðaráætlun sem hefur það að markmiði að knýja á um róttæka samþykkt á loftslagsráðstefnunni í París í lok þessa nýbyrjaða árs, en þar er stefnt að því að ná bindandi samkomulagi um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda sem komi í stað framlengdrar Kýótóbókunar. Í mars mun þannig vera von á sérstöku páfabréfi um umhverfismál upp á einar 50-60 blaðsíður, þar sem búist er við að páfinn sendi skýr skilaboð til fylgismanna kaþólsku kirkjunnar um allan heim um að þeir geri allt sem í þeirra valdi stendur, hver fyrir sig og sameiginlega, til að afstýra skelfilegum áhrifum loftslagsbreytinga á umhverfi og samfélag. Páfabréf eru ekki gefin út á hverjum degi, en að meðaltali má vænta þess að eitt slíkt sé skrifað annað hvort ár. Þaðan af síður hefur það tíðkast að skrifa páfabréf um umhverfismál. Þetta tiltekna bréf mun væntanlega fjalla eingöngu um loftslagsbreytingar og mannvistfræði. Bréfið verður sent til allra biskupa kaþólsku kirkjunnar, sem munu vera um 5.000 talsins, og þaðan áfram til 400.000 kaþólskra presta sem ætlað er að dreifa því til sóknarbarna um allan heim. Það er dágóður hópur, því að fylgismenn kaþólsku kirkjunnar eru samtals um 1,2 milljarðar.

Þessa dagana er páfinn á ferð um Asíu, þar sem hann mun fyrst heimsækja Sri Lanka og fljúga síðan til Filippseyja á fimmtudag. Loftslagsmálin verða væntanlega eitt helsta umræðuefnið í báðum löndum. Á Filippseyjum ætlar páfinn til dæmis að heimsækja borgina Tacloban, þar 6.300 manns fórust í fellibylnum Haiyan í nóvember 2013. Búist er við að páfinn nýti reynsluna úr þessari ferð sem efnivið í fyrrnefnt páfabréf. Seinna á árinu stefnir páfinn svo að fundi, meðal annars um loftslagsmál, með helstu leiðtogum annarra trúarbragða. Síðan áformar hann að ávarpa Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í september, en á því þingi er einmitt stefnt að því að ganga frá nýjum markmiðum í umhverfis- og þróunarmálum. Páfinn er sagður vonast til að allt þetta stuðli að því að leiðtogar þjóða heims nái metnaðarfullu samkomulagi á loftslagsráðstefnunni í París í desember.

Sumir hafa gengið svo langt að kalla Frans páfa „Súpermann páfann“ vegna þess hversu vasklega hann gengur fram í ýmsum málum, þrátt fyrir að vera orðinn 78 ára. Hann hefur ekki bara látið loftslagsmálin til sín taka, heldur er það haft eftir Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, að páfinn hafi verið lykilmaður í að bæta samskipti Bandaríkjanna og Kúbu. Sömuleiðis hefur Frans páfi tekið til hendinni til að koma betri reglu á innri mál Vatíkansins. Og í nóvember hélt hann eftirminnilega tölu fyrir þingmenn Evrópuþingsins, og er haft á orði að þeir hafi setið hljóðir eftir.

Eins og nærri má geta eru alls ekki allir jafnhrifnir af framgöngu páfa í umhverfisumræðunni. Þetta á meðal annars við um stóra hópa kaþólikka í Bandaríkjunum, en í þeim hópi má m.a. finna öflugustu stuðningsmenn svokallaðrar teboðshreyfingar. Þar halda menn því jafnvel fram að áhersla páfa stangist á við boðskap Biblíunnar og sé í versta falli móðgun við Guð. Sú túlkun ræðst þó sjálfsagt af því hvaða biblíuvers menn hafa valið að lesa og reyndar líka af því hvaða fjárhagslegu hagsmuni menn hafa af því að viðhalda núverandi hagkerfi sem byggir tilveru sína á jarðefnaeldsneyti. Páfinn hefur nefnilega líka talað um nauðsyn þess að brjóta upp núverandi hagkerfi sem ofan í kaupið stuðli að ójafnri skiptingu auðs. Og hann hefur sömuleiðis tekið eindregna afstöðu gegn einkavæðingu náttúruauðlinda. Þetta hefur orðið til þess að ýmsir hópar hægrimanna vestanhafs líta ekki aðeins á páfann sem vinstrisinna, heldur róttækan vinstrisinna.

Sjálfsagt efast margir um að páfinn hafi nokkur áhrif í loftslagsumræðunni, enda sé hann bara gamall karl og kaþólska kirkjan sé líka allt of gamaldags til að boðskapur hennar eigi erindi við nútímann. Auðvitað er of snemmt að fullyrða um áhrif páfans í þessu sambandi, en þegar grannt er skoðað eru þó líklega fáir líklegri til að hafa áhrif en einmitt hann. Eins og ég nefndi áðan eru fylgismenn kaþólsku kirkjunnar í heiminum samtals um 1,2 milljarðar, og þó að þeir sitji ekki allir og standi eftir því sem páfinn segir, þá er ljóst að páfinn hefur gríðarleg áhrif innan þessa hóps. Höfum það líka hugfast að í þessum hópi er eflaust mikill fjöldi sem hefur lítið leitt hugann að loftslagsmálum fram til þessa og um leið eflaust mikill fjöldi sem hvorki hefur hlustað á Samfélagið á Rás 1 né annan fróðleik um umhverfismál. En skyldi þessi fjöldi hlusta á páfann? Það veit ég auðvitað ekkert um með vissu, en sem dæmi um það aðdráttarafl sem þessi eini maður hefur, má nefna að búist er við að sex milljón manns sæki útimessu páfa á Filippseyjum næsta sunnudag.

Við þekkjum mörg dæmi um það, bæði í fámennum sveitum og í heimsþorpinu sem heild, að einn maður geti haft mikil áhrif. Við ættum því alls ekki að vanmeta páfann.

Hlusta á pistil Stefáns á ruv.is.

Birt:
13. janúar 2015
Höfundur:
Stefán Gíslason
Uppruni:
Rúv
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Páfinn og umhverfið“, Náttúran.is: 13. janúar 2015 URL: http://nature.is/d/2015/01/13/pafinn-og-umhverfid/ [Skoðað:26. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: