Sigrún Magnúsdóttir er nýr umhverfis- og auðlindaráðherra
Sigrún Magnúsdóttir, nýr umhverfis- og auðlindaráðherra, segir að það fylgi því mikil ánægja og heiður að takast á við þetta verkefni á góðum aldri. Hún segir þetta hafa átt sér skamman aðdraganda þótt þingmenn flokksins hafi vitað af því í eitt og hálft ár að til stæði að skipa 5. ráðherrann.
Sigrún vildi ekki upplýsa hvenær forsætisráðherra hefði komið að máli við sig og nefnt það fyrst að hún yrði ráðherra. Sagði að hún og Sigmundur ræddu svo oft saman.
Sigrún tekur við ráðuneytinu á morgun eftir ríkisráðsfund á Bessastöðum og hefur síðan störf strax eftir áramót. Sigrún sagði að vitaskuld myndi hún beita sér fyrir verndun íslenskrar náttúru. „Ég ætla að berjast fyrir góðri umgengni um landið og hafið og svo eru það loftslagsmálin - verkefnin blasa við alls staðar.“
Sigrún og Páll Pétursson, eiginmaður hennar og fyrrverandi félagsmálaráðherra, eru væntanlega fyrstu hjónin til að gegna ráðherraembættum. „Lífið getur oft leikið á mann. Ég hafði nú ekki búist við þessu en það er afar skemmtilegt að þetta sé svona.“
Birt:
Tilvitnun:
Ríkisútvarpið ohf „Sigrún Magnúsdóttir er nýr umhverfis- og auðlindaráðherra“, Náttúran.is: 30. desember 2014 URL: http://nature.is/d/2014/12/30/sigrun-magnusdottir-er-nyr-umhverfis-og-audlindara/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.