Almanak SORPU 2015
Frá árinu 2006 hefur SORPA gefið út almanak sem notið hefur mikilla vinsælda. Ákveðið þema er tekið fyrir á hverju ári en alltaf er unnið út frá því að verkin tengist endurvinnslu eða endurnýtingu á einhvern hátt. Almanakinu er ætlað að vekja fólk til umhugsunar og sýna fram á að í úrgangi leynast verðmæti sem geta orðið að einstökum listaverkum, nýjum vörum og umbúðum við endurvinnslu.
Almanak ársins 2015 er unnið í samstarfi við Hlutverkasetur og urðu verkin sem sjá má á síðum þess til í listasmiðjuviku í september 2014. Hugmyndir verkanna kviknuðu m.a. við skoðun á því sem til fellur á heimilum þátttakenda, því sem fannst í Góða hirðinum í skoðunarferð þangað og í ferð sem farin var í Laugarnesið. Þátttakendur lærðu ýmsar þrykkaðferðir og eru myndverkin í almanakinu unnin með þrykkskapalónum sem eru t.d. gerð úr klósettrúllum, kartoni, strokleðrum, garni, lími, álpappír og plasti. Einnig er þrykkt með laufblöðum, kartöflum og smáhlutum eins og t.d. málningartúpum á mismunandi efnivið.
Þátttakendur listasmiðjunnar komust að því að fegurð hlutanna liggur í upplifun hvers og eins. Umhverfið er uppspretta hugmynda og úrgangur eins getur verið efniviður í sköpun annars. Fegurðin getur leynst þar sem hennar er síst að vænta og það er okkar að koma auga á hana og miðla henni áfram til annarra í gegnum verk okkar.
Almanaki fæst gefins á móttökustöðum SORPU.
Á Endurvinnslukortinu hér á vefnum finnur þú alla móttökustaði SORPU.
Birt:
Tilvitnun:
SORPA bs „Almanak SORPU 2015“, Náttúran.is: 24. desember 2014 URL: http://nature.is/d/2014/12/24/almanak-sorpu-2015/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.