Ákvörðun í Lima um skref að nýju loftslagssamkomulagi
Ákvörðun var tekin á fundi Loftslagssamnings S.þ. í Lima aðfararnótt sunnudags um upplegg að nýju framtíðarsamkomulagi í loftslagsmálum.Samkvæmt ákvörðuninni eiga ríki að setja sér markmið um minnkun losunar á gróðurhúsalofttegundum og tilkynna til skrifstofu Loftslagssamningsins á árinu 2015.
Sett verður upp ferli innan samningsins til að meta innsend markmið ríkja og tryggja eftir föngum að þau séu skýr og samanburðarhæf. Stefnt hefur verið í nokkurn tíma að nýju framtíðarsamkomulagi í loftslagsmálum, sem á að samþykkja á fundi í París í lok 2015, og taka á gildi 2020. Í Lima var gengið frá texta sem "innleggi" í væntanlegt Parísarsamkomulag, en formleg drög að samningstextanum sjálfum eiga að liggja fyrir í maí 2015.
Illa gekk að ná samkomulagi um meginákvörðun Lima-fundarins og dróst fundurinn mjög á langinn. Drögum að ákvörðun sem lögð voru fram eftir áætluð fundarlok á föstudag var hafnað af mörgum ríkjum. Forseti aðildarríkjaþingsins, umhverfisráðherra Perú, lagði þá fram nýjan texta eftir samráð við helstu aðila, sem var samþykktur á endanum.
Ákvörðunin í Lima er grunnur fyrir lokalotu samningaviðræðna 2015, sem ljúka á með nýju framtíðarsamkomulagi í París. Þar eiga öll ríki að taka á sig einhverjar skuldbindingar um takmörkun losunar o.fl., en þó misstrangar eftir efnum og aðstæðum. Nú eru í gildi takmarkanir á losun innan Kýótó-bókunarinnar fram til 2020, en hún tekur þó einungis á um 15% heimslosunar koldíoxíðs og annarra gróðurhúsalofttegunda. Einungis Evrópuríki og Ástralía hafa tekið á sig skuldbindingar á 2. tímabili Kýótó, 2013-2020. Allir helstu losendur eiga hins vegar að setja sér markmið í væntanlegu Parísarsamkomulagi og munar þar mest um Kína og Bandaríkin, en einnig stór og vaxandi þróunarríki eins og Indland og Brasilíu og ríki sem hafa sagt sig frá Kýótó-skuldbindingum eins og Japan og Rússland. Ljóst er hins vegar að þau markmið um losun sem stefnt er að í Parísarsamkomulaginu verða lagalega veikari en í Kýótó-bókuninni og þau verða sett af ríkjunum sjálfum en ekki háð samþykki ríkja Loftslagssamningsins.
Ýmsar aðrar ákvarðanir voru teknar á Lima-fundinum, m.a. um fjármögnun aðgerða gegn loftslagsbreytingum. Mörg ríki, þ.á m. Ísland, greindu frá framlögum í Græna loftslagssjóðinn, sem nú nema samtals yfir 10 milljörðum bandaríkjadollara, sem þýðir að sjóðurinn getur tekið til starfa. Ísland lýsti yfir stuðningi við væntanlegt Parísarsamkomulag á fundinum og áhyggjum af áhrifum loftslagsbreytinga, m.a. á lífríki hafsins.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Ákvörðun í Lima um skref að nýju loftslagssamkomulagi“, Náttúran.is: 14. desember 2014 URL: http://nature.is/d/2014/12/14/akvordun-i-lima-um-skref-ad-nyju-loftslagssamkomul/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.