Hellisheiðarvirkjun. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Ísland styður gerð hnattræns framtíðarsamkomulags í loftslagsmálum og er bjartsýnt á að tekin verði góð skref í átt til þess á 20. aðildarríkjaþingi Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, sem nú fer fram í Lima í Perú. Þetta kom fram í innleggi Íslands á þinginu í dag. Vakin var athygli á þeirri ógn sem höfunum og lífríki þeirra stafar af loftslagsbreytingum og súrnun sjávar, sem væri sérstakt áhyggjuefni fyrir ríki sem byggðu afkomu sína á auðlindum hafsins.

Ísland sagði að ná þyrfti árangri ekki síst á tveimur sviðum. Á sviði orkumála þyrfti að nýta endurnýjanlega orku á kostnað jarðefnaeldsneytis. Ísland nýtti nær alfarið endurnýjanlega orku fyrir rafmagn og hitun, en þyrfti að skoða betur loftslagsvænar lausnir og minnka notkun á jarðefnaeldsneyti í samgöngum og sjávarútvegi. Á sviði landnotkunar þyrfti hnattrænt að samþætta baráttu gegn eyðimerkurmyndun og loftslagsbreytingum, en heima fyrir hyggðist Ísland efla skógrækt og landgræðslu og vinna að aðgerðum til að draga úr losun frá framræstu votlendi, þar sem slíkt er vænlegt. Auk þess var lögð áhersla á að jafnréttismál yrðu mikilvægur hluti af nýju samkomulagi. Þá tilkynnti Ísland um þátttöku sína í nýjum Grænum Loftslagssjóði sem stofnaður hefur verið innan Sameinuðu þjóðanna. 

Loftslagsfundinum á að ljúka á morgun, föstudag, þótt venja sé að lok slíkra funda dragist nokkuð. Meginverkefni fundarins nú er að leggja grunn að hnattrænu samkomulagi um hertar aðgerðir gegn loftslagsmálum, sem vonast er til að verði samþykkt á næsta aðildarríkjaþingi, sem haldið verður í París í lok 2015.

Ísland 10. loftslagsvænsta ríkið?

Danmörk telst vera loftslagsvænsta ríki heims þriðja árið í röð, ef marka má mat félagasamtakanna Germanwatch og Climate Action Network, sem kynnt var á aðildarríkjaþingi Loftslagssamnings S.þ. í Lima. Ísland er í 10. sæti á listanum sem er líka óbreytt staða frá því í fyrra, en félagasamtökin reyna að meta frammistöðu 58 ríkja í loftslagsmálum.

Félagasamtökin kynna árlega svokallaða Frammistöðuvísitölu loftslagsmála (Climate Performance Index) á fundum Loftslagssamningsins. Vísitalan er umdeilanleg, eins og ýmsar aðrar tilraunir til að setja flókin mál fram á einfaldan tölulegan hátt. Samtökin leggja til grundvallar í mati sínu eftirfarandi þætti: Magn losunar gróðurhúsalofttegunda,  þróun losunar, hlut og þróun endurnýjanlegrar orku, orkusparnað og stefnumótun í loftslagsmálum.

Tíu loftslagsvænstu ríkin samkvæmt vísitölunni eru: Danmörk, Svíþjóð, Bretland, Portúgal, Kýpur, Marokkó, Írland, Sviss, Frakkland og Ísland. Noregur er í 24. sæti, Finnland í 29., Bandaríkin í 41., Kína í 42. og Ástralía og Sádí-Arabía lenda svo í tveimur neðstu sætunum af þeim ríkjum sem skoðuð eru.

Birt:
12. desember 2014
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Ísland lýsir stuðningi við framtíðarsamkomulag í loftslagsmálum“, Náttúran.is: 12. desember 2014 URL: http://nature.is/d/2014/12/12/island-lysir-studningi-vid-framtidarsamkomulag-i-l/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: