Mastur á Hellisheiði. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Landvernd gerir alvarlegar athugasemdir við frumvarp iðnaðarráðherra til breytinga á raforkulögum. Breytingarnar myndu m.a. lögfesta að virkjanahugmyndir í orkunýtingar- og biðflokki rammaáætlunar megi nota sem grunnforsendur fyrir áætlunum og framkvæmdum í flutningskerfi raforku (kerfisáætlun). Þetta er með öllu óraunhæft þar sem orkunýtingarflokkur, hvað þá biðflokkur, þýða ekki að sjálfkrafa verði virkjað. Því myndi þetta keyra upp þörfina fyrir lagningu stórra raflína. Í frumvarpinu eru leyfisveitingar einfaldaðar úr hófi fram og stórlega dregið úr ákvörðunar- og skipulagsvaldi sveitarfélaga. Aukið ákvörðunarvald flutningsfyrirtækisins (Landsnets) yfir eigin framkvæmdatillögum yrði ótækt. Orkustofnun yrði falið eftirlit sem stofnunin getur ekki sinnt við núverandi lagaumhverfi. Í heild sinni drægi frumvarpið úr umhverfisvernd í landinu, auk þess sem óljóst yrði með kærurétt umhverfisverndarsamtaka vegna ákvarðana um einstakar framkvæmdir í flutningskerfinu. Öll tvímæli ber að taka þar af í samræmi við fullgildingu Íslands á Árósasamningnum.

Samkvæmt frumvarpinu eru lagðar til miklar breytingar á forsendum, gerð og eftirliti með kerfisáætlun. Lagt er upp með að flutningsfyrirtækið (Landsnet) geti m.a. notað virkjanahugmyndir í nýtingar- og biðflokki rammaáætlunar sem forsendur fyrir áætlunum um framkvæmdir í flutningskerfi raforku. Þessar forsendur standast ekki skoðun. Ekki er vitað hvort virkjanahugmyndir í biðflokki munu lenda í nýtingar- eða verndarflokki á endanum. Varðandi hugmyndir í nýtingarflokki, þá verða þær ekki endilega virkjaðar og flestar breytur eru óþekktar, þ.m.t. hvaðan orkan mun koma og hvenær, hve mikla orku þarf að flytja og hvert á að flytja hana og fyrir hvaða notendur. Þá er þetta ekki í samræmi við rammaáætlunarlögin nr. 48/2011, en þeim lögum er hvorki ætlað að spá fyrir um framleiðslu raforku né að ákveða hvar skuli virkja og hvar ekki, heldur hvar megi virkja og hvar ekki.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að Landsnet vinni áfram kerfisáætlun og hafi samráð við hagsmunaaðila þar um. Aðkoma hagsmunaaðila á fyrstu stigum undirbúnings er samt sem áður ekki nægilega tryggð með frumvarpinu og óljóst hvernig tekið verður á deilumálum sem upp kunna að koma, t.d. milli sveitarfélaga og Landsnets. Orkustofnun yrði falið mikilvægt eftirlitshlutverk með lögunum, en með þriðju raforkutilskipun ESB, sem að hluta til er verið að innleiða með frumvarpinu, er gerð krafa um sjálfstæðan og óháðan eftirlitsaðila gagnvart öllum öðrum opinberum aðilum og einkaaðilum. Þar eð Orkustofnun heyrir undir ráðherra orkumála og forstjóri stofnunarinnar er yfirmaður þess starfsfólks sem sinnir eftirliti, verður ekki séð að þetta skilyrði sé uppfyllt.

Með frumvarpinu eru leyfisveitingar einfaldaðar úr hófi fram og stórlega dregið úr aðkomu og valdi lýðræðiskjörinna sveitarstjórna um mikilvæg samfélagsmál. Sveitarfélögum yrði gert skylt að samræma skipulagsáætlanir sínar við verkefni í kerfisáætlun til næstu 10 ára, auk þess sem skipulagsmál þeirra mega ekki hindra framgang þeirra verkefna sem eru í staðfestri (af Orkustofnun) þriggja ára framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar. Þannig yrði flutningsfyrirtækinu (Landsneti) færð óeðlilega mikil völd. Þetta er sérstaklega alvarlegt í ljósi skorts á sjálfstæði eftirlitsaðila og því hversu óljóst er hvernig tekið yrði á deilumálum. Jafnframt er gert ráð fyrir í frumvarpinu að ekki þurfi lengur sérstakt leyfi Orkustofnunar fyrir hverri og einni framkvæmd, heldur sé nóg að hún sé í samþykktri framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar. Þetta vekur upp spurningar um hvort hægt sé að kæra ákvarðanir um einstakar framkvæmdir í kerfisáætlun, en taka þarf af öll tvímæli um það og tryggja umhverfisverndarsamtökum þann kærurétt sem þau eiga rétt á samkvæmt Árósasamningnum sem Ísland hefur fullgilt.

Umhverfismál eru meðhöndluð á léttvægan hátt í frumvarpinu og dregið úr áherslum á þau mál frá núverandi lögum. Samkvæmt frumvarpinu er Orkustofnun sem eftirlitsaðila t.d. ekki ætlað að taka afstöðu til umhverfisþátta þrátt fyrir að Evróputilskipanir og EES samningurinn kveði á um þá almennu skyldu yfirvalda.

Birt:
Dec. 3, 2014
Höfundur:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Landvernd gerir alvarlegar athugasemdir við frumvarp iðnaðarráðherra til breytinga á raforkulögum“, Náttúran.is: Dec. 3, 2014 URL: http://nature.is/d/2014/12/03/landvernd-gerir-alvarlegar-athugasemdir-vid-frumva/ [Skoðað:June 12, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: