Sátt er rofin og málsmeðferðarreglur brotnar með tillögu atvinnuveganefndar um átta virkjanahugmyndir í nýtingarflokk
Stjórn Landverndar mótmælir harðlega framkominni tillögu meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis um að færa átta virkjanahugmyndir úr biðflokki í nýtingarflokk rammaáætlunar. Fimm af þessum hugmyndum hafa ekki hlotið þá málsmeðferð sem lög mæla fyrir um. Aðkoma verkefnisstjórnar, faghópa hennar og almennings er engin. Tillaga atvinnuveganefndar felur í sér alvarlegt rof á tilraun til sátta um orkunýtingu í landinu. Þá er tillagan brot á grundvallarmarkmiði rammaáætlunarlaganna um að nýting byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati. Verði tillagan samþykkt er rammaáætlunarferlið ónýtt.
Stjórn Landverndar bendir á að tillaga atvinnuveganefndar virðist vera í andstöðu við málsmeðferðarreglur rammaáætlunarlaga. Lögin kveða á um skýrt verklag. Í fyrsta lagi er það umhverfisráðherra sem með lögunum er falið að leggja tillögur um flokkun virkjanahugmynda fyrir Alþingi. Í þessu máli hefur það ekki verið gert nema um þrjár hugmyndir í neðrihluta Þjórsár. Í öðru lagi verður ráðherra að byggja tillögur sínar á mati verkefnisstjórnar rammaáætlunar um rökstudda flokkun virkjunarhugmynda, að teknu tilliti til umsagna almennings og hagsmunaaðila. Fimm af átta virkjunarhugmyndum sem atvinnuveganefnd leggur til að færa í nýtingarflokk hafa hinsvegar ekki fengið þessa faglegu umfjöllun. Í þriðja lagi hefur engin átta hugmyndanna verið metin með stigagjöf af faghópum verkefnisstjórnar, en það er hinn lögmæti undanfari mats verkefnisstjórnar.
Stjórn Landverndar bendir á að verði tillagan samþykkt og verklag atvinnuveganefndar reynist í ósamræmi við lög, yrðu allar ákvarðanir sem byggja á samþykktinni jafnframt ólögmætar og að engu hafandi.
Stjórn Landverndar tekur fram að í athugasemdum samtakanna við afgreiðslu núgildandi rammaáætlunar lagði Landvernd til að allar virkjanahugmyndir á hálendinu yrðu settar í verndarflokk, þ.m.t. Hagavatnsvirkjun, Skrokkölduvirkjun og Hágönguvirkjanir, auk Hólmsárvirkjunar við Atley. Þá lagði Landvernd til að virkjanir í neðrihluta Þjórsár færu í biðflokk. Samtökin ítreka þetta mat sitt sem byggir á gögnum fyrri verkefnisstjórnar rammaáætlunar.
Stjórn Landverndar mótmælir tillögunni harðlega og krefst þess að atvinnuveganefnd virði leikreglur og viðleitni til sátta um stefnumótun í orkumálum á grundvelli rammaáætlunar.
Birt:
Tilvitnun:
Landvernd „Sátt er rofin og málsmeðferðarreglur brotnar með tillögu atvinnuveganefndar um átta virkjanahugmyndir í nýtingarflokk“, Náttúran.is: 27. nóvember 2014 URL: http://nature.is/d/2014/11/27/satt-er-rofin-og-malsmedferdarreglur-brotnar-med-t/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.