Hver í Reykjadal. ljósm. Guðrún TryggvadóttirSigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur sett af stað vinnu við frumathugun á sameiningu nokkurra stofnana ráðuneytisins eða samþættingu verkefna sem undir þær heyra. Stofnanirnar sem um ræðir eru Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn, Umhverfisstofnun vegna verkefna á sviði vöktunar og Veðurstofa Íslands. Þá verða jafnframt skoðaðir mögulegir samstarfsfletir við Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) og Rannsóknarmiðstöð í jarðskjálftaverkfræði.

Tilgangur verkefnisins er m.a. að meta þarfir, skilgreina markmið og framtíðarsýn og leiða í ljós hvort sameining stofnana eða samþætting verkefna sé góður kostur. Fyrir liggja skýrslur um stofnanauppbyggingu ráðuneytisins frá  2009 og 2010 auk þess sem ráðuneytið, í samstarfi við stofnanir þess, hefur frá 2013 unnið ítalega greiningu á verkefnum stofnananna. 

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á samhæfingu rekstrarumhverfis ríkisstofnana sem stunda rannsóknir og þróun, til að tryggja að fjárveitingar til rannsókna og þróunarstarfs nýtist sem best. Verkefnið er í anda tillagna hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar sem fela m.a. í sér að bæta hagkvæmni og árangur í ríkisrekstri, að rekstur ríkisins verði gerður skilvirkari og framleiðni aukin. 

Stýrihópur umhverfis- og auðlindaráðuneytis og viðkomandi stofnana hefur yfirumsjón með verkefninu. Gert er ráð fyrir að stýrihópurinn skili skýrslu og tillögum fyrir 1. mars á næsta ári. 

Birt:
18. nóvember 2014
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Frumathugun á samlegð stofnana á sviði rannsókna og vöktunar“, Náttúran.is: 18. nóvember 2014 URL: http://nature.is/d/2014/11/18/frumathugun-samlegd-stofnana-svidi-rannsokna-og-vo/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: