Nýtnivikan
Nýtnivikan verður haldin í Reykjavík vikuna 22. - 30. nóvember 2014.
Markmið vikunnar er að draga úr myndun úrgangs og hvetja fólk til að nýta hluti betur.
Þetta er í þriðja sinn sem Nýtnivika fer fram hér á landi og þema vikunnar að þessu sinni er að draga úr matarsóun.
Matarsóun er fjárhagslegt, samfélagslegt og umhverfislegt vandamál sem mikilvægt er að taka á.
Lýst er eftir viðburðum í Nýtniviku
Lýst er eftir þátttakendum og viðburðum sem tengjast því að draga úr matarsóun. Áhugasamir eru hvattir til að setja upp viðburð eða láta vita af viðburði sem fer fram á meðan á Nýtnivikunni stendur og tengist matarsóun á einhvern hátt. Hægt er að skrá viðburðinn (viðburðina) beint á vefsíðu evrópsku nýtnivikunnar eða senda póst á netfangið nytnivika@reykjavik.is Skráðir viðburðir verða birtir á vefsíðu Reykjavíkurborgar og kynntir þar.
Zero Waste hópurinn (Landvernd, Kvenfélagasamband Íslands og Vakandi) og Norræna húsið standa fyrir málþingi um matarsóun 25. nóvember sem verður auglýst nánar síðar á matarsoun.is.
Reykjavíkurborg stendur fyrir ljósmyndasamkeppni þar sem þemað er „nýtum matinn betur“. Þar geta allir tekið þátt og sett inn mynd sem lýsir góðri nýtingu á mat eða frumleg hugmynd að því hvernig gott er að nýta matarafganga. Leiðbeiningar vegna keppninnar verða kynntar nánar á reykjavik.is
Reykjavíkurborg hvetur alla til að draga úr matarsóun og nýta matinn betur. Hér að neðan eru nokkur heilræði sem hægt er að styðjast við.
Áður en þú ferð út í búð:
- Skrifaðu niður innkaupalista. Vertu viss um að kaupa aðeins það sem þú þarft til að koma í veg fyrir kaup á mat sem rennur út áður en hans verður neytt.
- Skoðaðu í skápana og ísskápinn áður en þú ferð. Þá færðu tilfinningu fyrir hvaða matur er til á heimilinu og hvað vantar.
- Sestu niður með fjölskyldunni og gerið saman matseðil fyrir vikuna. Þetta kemur í veg fyrir innkaup á óþarfa mat.
Í búðinni:
- Mundu eftir að fara eftir innkaupalistanum og ekki fylla körfuna af mat sem þú þarft ekki á að halda. Innkaup á mat á tilboðsverði er bara ódýrara ef maturinn nýtist.
- Velja mat eftir magni þar sem kostur er, t.d. kauptu grænmeti og ávexti í stykkjatali eða kauptu kjöt og fisk eftir þyngd. Þannig minnka umbúðir sem fylgja þér heim og auðveldara er að velja það magn sem þú þarft.
- Líttu á hvenær vara rennur út.
- Búðarferð er best á fullum maga. Smá snarl áður en haldið er í búðina dregur úr líkum á því að einhver óþarfi sé keyptur.
Þegar þú kemur heim:
- Gott er að skipuleggja skápana og ísskáp og gæta þess að geyma vörur á réttum stað við rétt hitastig.
- Settu nýjustu vöruna aftast og eldri birgðir af mat fremst. Ítarlegar upplýsingar um hvernig má draga úr matarsóun með geymsluaðferðum.
- Það er auðvelt að nýta matarafganga. Ef þú ert ekki viss hvernig best er að nýta afganga er hægt að skrá sig á námskeið hjá Zero Waste hópnum gegn vægu gjaldi sem heitir„Eldað úr öllu með kvenfélögunum og Dóru“. Nánari upplýsingar á vef leiðbeiningarstöðvar heimilanna.
- Gott er að eiga plastbox, glerkrukkur eða önnur ílát sem handhægt er að setja matarafganga í til geymslu eða til að taka með sér í skólann eða vinnuna.
-
Nýtnivikan
Tengdir viðburðir
Birt:
Tilvitnun:
Reykjavíkurborg „Nýtnivikan“, Náttúran.is: 14. nóvember 2014 URL: http://nature.is/d/2014/11/14/nytnivikan/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.