Áfangasigur í baráttunni fyrir vernd Mývatns
Landvernd fagnar ákvörðun Skipulagsstofnunar um að endurtaka beri umhverfismat fyrir Bjarnarflagsvirkjun við Mývatn. Með þessu staðfestir Skipulagsstofnun þá varúðarnálgun sem Landvernd hefur lagt áherslu á að farin sé vegna virkjanaáforma í Bjarnarflagi og að nauðsynlegt er að draga úr óvissu um áhrif virkjunarinnar. Það varðar m.a. brennisteinsvetnismengun og áhrif hennar á heilsu fólks og mögulegar breytingar á innflæði næringarefna inn í Mývatn.
Í september 2012 sendu Landvernd og Fuglavernd kvörtun til Ramsarskrifstofunnar vegna undirbúningsframkvæmda Landsvirkjunar í Bjarnarflagi. Í kjölfarið kom sendinefnd Ramsarsamningsins í opinbera skoðunarferð sumarið 2013. Skrifstofan sendi frá sér skýrslu í desember 2013 þar sem mælt var með því að endurgera umhverfismat Bjarnarflagsvirkjunar og að taka sérstakt tillit til samlegðaráhrifa frá mögulegri stækkun Kröfluvirkjunar, líkt og Landvernd hafði bent á. Undir þetta mat er tekið í ákvörðun Skipulagsstofnunar.
Landvernd fagnar því niðurstöðu Skipulagsstofnunar sem er áfangasigur í baráttunni fyrir vernd lífríkis Mývatns.
Birt:
Tilvitnun:
Landvernd „Áfangasigur í baráttunni fyrir vernd Mývatns“, Náttúran.is: 10. nóvember 2014 URL: http://nature.is/d/2014/11/10/afangasigur-i-barattunni-fyrir-vernd-myvatns/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.