Séð út á Breiðafjörð. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði á föstudag samkomulag um stofnun öndvegisseturs um sjálfbæra nýtingu og vernd hafsins. Um er að ræða samstarfsvettvang fyrirtækja, háskólasamfélagsins, rannsóknastofnana og stjórnvalda um rannsóknir, þróun, framleiðslu og kynningu á tæknilausnum sem stuðla að vernd hafsins.

Samkomulagið var undirritað á föstudag í tengslum við alþjóðlegu Norðurslóðaráðstefnuna Arctic Circle sem fram fór í Hörpunni.

Markmiðið með stofnun setursins, sem hefur fengið heitið Oceana, er að efla þátttöku og starf innlendra og erlendra aðila á alþjóðavísu að nýtingu grænnar tækni sem tengist hafinu og verndun þess. Hafa áhyggjur þjóða af mengun hafsins aukist mjög á undanförnum árum og áratugum og er mikil umræða á alþjóðavettvangi um nauðsyn þess að huga að umhverfismálum, sjálfbærni og verndun hafsvæða.

Meðal annars er ætlunin að Oceana verði vettvangur til að nýta rannsóknir innan háskóla, opinberra stofnana og fyrirtækja til að þróa nýjar tæknilausnir og viðskiptatækifæri sem nýtast til verndar hafsins. Áhersla verður lögð á hagkvæma orkunýtingu, vöktun umhverfisgæða, endurnýjanlega orkugjafa og að koma í veg fyrir mengun hafsins. Auk þess að stuðla að umhverfisvernd er vonast til að með þessu verði hægt verði að fjölga verðmæltum störfum í tækni- og hugverkagreinum, draga að erlent rannsóknarfjármagn og auka við almennan skilning og þekkingu á hafinu og mikilvægi þess. Þá er markmiðið að styðja við stefnu stjórnvalda og ímynd Íslands sem fyrirmyndar lands hvað varðar hreint haf og vernd og sjálfbæra nýtingu lífríkis hafsins.

Auk umhverfis- og auðlindaráðherra undirrituðu 11 aðilar samkomulagið fyrir hönd fyrirtækja, háskóla, rannsóknastofnana og Reykjavíkurborgar.

Birt:
9. nóvember 2014
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Samkomulag um stofnun öndvegisseturs um sjálfbæra nýtingu og vernd hafsins“, Náttúran.is: 9. nóvember 2014 URL: http://nature.is/d/2014/11/09/samkomulag-um-stofnun-ondvegisseturs-um-sjalfbaera/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: