1.  Hversu miklu fjármagni var úthlutað í aðgerðaáætlun um eflingu græna hagkerfisins, til hvaða verkefna var því úthlutað og hversu mikið af því fjármagni hefur þegar verið nýtt til að framfylgja aðgerðaáætluninni?

Alls var úthlutað 74,5 millj. kr. til eflingar græna hagkerfisins og skiptist það á eftirfarandi 11 verkefni:

1. Bætt nýting lífræns úrgangs til uppgræðslu.
Verkefnið er á vegum Landgræðslu ríkisins og er styrkfjárhæð 7 millj. kr. Verkefnið kallast „Auðlind á villigötum“ og miðar að því að bæta nýtingu hvers konar lífræns úrgangs og leita leiða til að nýta hann við uppgræðslu illa gróins lands. Verkefnið hófst fyrri hluta árs 2014 og er stefnt að verklokum um mitt ár 2015.

2. Aukin skógrækt og vistheimt – Hekluskógar.
Verkefnið Hekluskógar var styrkt um 3 millj. kr. til aukinnar skógræktar og vistheimtar á starfssvæði þess en Hekluskógar vinna að endurheimt birkiskóga í nærsveitum Heklu. Fyrir þá fjármuni voru boðin út kaup á birkiplöntum sem gróðursettar voru haustið 2014.

3. Greining á möguleikum og umfangi náttúruauðlinda til eflingar græna hagkerfisins.
Ísland er ríkt að auðlindum þar sem tækifæri liggja til fjölgunar grænna starfa, en sjálfbær auðlindanýting er mikilvægur þáttur græns hagkerfis. Á vegum ráðuneytisins verður unnið að greiningu á náttúruauðlindum, svo sem stöðu, tegund, eðli auðlinda og hvernig stýringu þeirra er háttað, m.a. á grundvelli löggjafar. Sérstök áhersla er á að öðlast yfirsýn yfir náttúruauðlindir landsins á samræmdan hátt og jafnframt að draga fram möguleika sem þar felast til eflingar grænna starfa og sjálfbærrar verðmætasköpunar. Til þessa eru veittar 6 millj. kr. Verkefnið mun hefjast í nóvember 2014 og er stefnt að verklokum síðla árs 2015. Skipaður verður starfshópur á vegum ráðuneytisins vegna þessa.

4. Sjálfbærnivísar fyrir nýtingu auðlinda.
Í tengslum við verkefni 3 hyggst ráðuneytið vinna að greiningu á þeim viðmiðum sem sett hafa verið um sjálfbæra nýtingu auðlinda. Jafnframt verður dregin fram staða slíkra viðmiða við ákvarðanatöku og eins á hvaða sviðum umhverfismála skortir slík viðmið. Verkefnið verður unnið í samráði við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og viðkomandi fagstofnanir. Miðað er við verklok síðla árs 2015. Til þessa eru veittar 2 millj. kr.

5. Umhverfis- og auðlindavísar.
Í tengslum við verkefni 3 og 4 hefur ráðuneytið hafið vinnu við að draga saman yfirlit yfir mikilvæga umhverfis- og auðlindavísa og stefnir að því að þeir verði birtir á samræmdan hátt, væntanlega á vefsíðu ráðuneytisins eða stofnana þess. Með því verður bætt aðgengi að upplýsingum um stöðu umhverfis- og auðlindamála sem hluta græna hagkerfisins, það auðveldar að sjá stöðu einstakra greina og hvert þær stefna. Hluti þessa er fólginn í samstarfi við Hagstofu Íslands, auk ýmissa fagstofnana. Þessi vinna hófst um mitt ár 2014 og er stefnt að lokum síðla árs 2015 samhliða verkefnum 3 og 4. Styrkfjárhæð til þessa er 3 millj. kr.

6. Grænfánaverkefnið – umhverfisstarf í skólum.
Á grundvelli samstarfssamnings stjórnvalda og Landverndar um Grænfánaverkefnið var veittur styrkur að fjárhæð 2 millj. kr. til Landverndar til eflingar verkefnisins árið 2014.

7. Endurheimt votlendis.
Á vegum ráðuneytisins er unnið að verkefni til að stuðla að aukinni endurheimt votlendis og er styrkfjárhæð 3 millj. kr. Vinnuhópur undir stjórn ráðuneytisins vinnur að gerð aðgerðaáætlunar um mögulega endurheimt votlendis til samræmis við áherslur stjórnvalda í loftslagsmálum og náttúruvernd, sem á að liggja fyrir um mitt ár 2015.

8. Vernd náttúru og sjálfbærni á ferðamannastöðum.
Veittur var styrkur til verndaraðgerða á völdum friðlýstum svæðum, auk Þórsmerkur, til að vinna að bættum innviðum og landvörslu árið 2014. Styrkfjárhæð nam 27 millj. kr. og hefur þegar verið úthlutað um 4/5 þess fjár til Umhverfisstofnunar og Skógræktar ríkisins.

9. Orkuskipti á köldum svæðum – sjálfbær orkubúskapur.
Til að stuðla að sjálfbærum orkubúskap var veittur styrkur upp á 8 millj. kr. til sveitarfélagsins Skaftárhrepps vegna nýsköpunarverkefnis í héraði vegna kaupa á varmadælu til upphitunar húsnæðis á köldu svæði.

10. Að draga úr matarsóun.
Starfshópur á vegum ráðuneytisins hefur það verkefni að móta tillögur um hvernig draga megi úr sóun matvæla. Veittur var 1 millj. kr. styrkur til þessa verkefnis, fyrir aðkeypta vinnu starfshóps. Hópnum er ætlað að benda á hvetjandi leiðir til að nýta hráefni betur við vinnslu matvara sem og fullunnar matvörur eftir að þær eru komnar til neytenda, veitingastaða, framleiðenda og söluaðila. Þá skal hópurinn leggja fram tillögur um hvernig auka megi fræðslu um matarsóun, m.a. áhrif umbúða og skammtastærða. Loks skal hópurinn meta hvaða stjórntæki geta gagnast við að draga úr matarsóun og hvort þörf sé á breytingum á lögum og reglum sem áhrif geta haft á sóun matvæla. Áætluð skil hópsins eru í apríl 2015.

11. Kortlagning og nýting á slógi til eflingar lífrænum landbúnaði.
Veittar voru 12,5 millj. kr. til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis til verkefnis á árinu 2014 um kortlagningu og nýtingu á slógi til eflingar lífrænum landbúnaði. Til að efla lífræna framleiðslu á Íslandi er mikilvægt að aðgengi að lífrænum áburði verði aukið verulega frá því sem nú er. Aukið aðgengi að slíkum áburði er ein af forsendum þess að hægt sé að móta heildstæða framkvæmdaáætlun um eflingu lífrænnar framleiðslu. Slóg fellur til í umtalsverðu magni í íslenskum fiskiðnaði og er lítið nýtt. Í verkefninu verður magn slógs sem fellur til kortlagt, út frá mælingum á slóghlutfalli við löndun og vinnslu í Þorlákshöfn, ásamt sögulegum gögnum um slóghlutfall. Slógi verður safnað, það efnagreint með tilliti til mögulegrar nýtingar þess í áburð. Þróaðar verða frumgerðir af lífrænum áburði sem nota má í almennum lífrænum landbúnaði, lífrænni ylrækt, og lífrænn áburður sem ætlaður er til sölu á neytendamarkaði (til heimilisnota). Út frá niðurstöðum vöruþróunar og prófana verður mótuð áætlun um eflingu lífrænnar áburðarframleiðslu með tilliti til mögulegra markaða og framleiðslu um allt land.

2. Að hvaða verkefnum sem tengjast því að auka lífræna ræktun og hafa verið fjármögnuð í gegnum græna hagkerfið er unnið innan ráðuneytisins, sbr. orð umhverfis- og auðlindaráðherra við umræðu um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 12. september sl.?
Verkefni sem tengjast því að auka lífræna ræktun og tengjast fjármögnun í gegnum græna hagkerfið eru verkefni 1 og 11 í 1. tölul.

Sjá á vef Alþingis.

 

Sjá grein um niðurstöur starfshóps


  7,0        1. Bætt nýting lífræns úrgangs til uppgræðslu.
  3,0        2. Aukin skógrækt og vistheimt – Hekluskógar.
  6,0        3. Greining á möguleikum og umfangi náttúruauðlinda til eflingar græna hagkerfisins.
  2,0        4. Sjálfbærnivísar fyrir nýtingu auðlinda
  3,0        5. Umhverfis- og auðlindavísar.
  2,0        6. Grænfánaverkefnið – umhverfisstarf í skólum.
  3,0        7. Endurheimt votlendis
27,0        8. Vernd náttúru og sjálfbærni á ferðamannastöðum.
  8,0        9. Orkuskipti á köldum svæðum – sjálfbær orkubúskapur.
  1,0      10. Að draga úr matarsóun.
12,5      11. Kortlagning og nýting á slógi til eflingar lífrænum landbúnaði.

 

Birt:
4. nóvember 2014
Höfundur:
Alþingi
Uppruni:
Alþingi
Tilvitnun:
Alþingi „Svar umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Halldóru Mogensen um græna hagkerfið“, Náttúran.is: 4. nóvember 2014 URL: http://nature.is/d/2014/11/04/svar-umhverfis-og-audlindaradherra-vid-fyrirspurn-/ [Skoðað:24. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: