Frá fundi Figueres og Sigurðar Inga Jóhannssonar í gær.Christiana Figueres, framkvæmdastýra rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, átti í gær fundi með Sigurði Inga Jóhannssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra og Gunnari Braga Sveinssyni, utanríkisráðherra. Figueres er hér á landi til að taka þátt í Arctic Circle ráðstefnunni, sem fram fer um helgina.

Figueres lagði áherslu á að aðildarríki leggi fram metnaðarfullar áætlanir um minnkun á losun í yfirstandandi samningaviðræðum um nýtt hnattrænt samkomulag, sem stefnt er að því að undirrita í París á næsta ári. Ráðherrarnir hétu stuðningi Íslands við væntanlegt Parísarsamkomulag og að Ísland hygðist sýna metnað í loftslagsmálum.

Fyrirhugað er að Parísarsamkomulagið taki gildi árið 2020 og setji markmið fyrir ríki heims til 2030, en Figueres lagði áherslu á að nýr samningur verði að marka skýra stefnu í loftslagsmálum til lengri framtíðar.

Ráðherrarnir undirstrikuðu mikilvægi umhverfismála og að Ísland hefði það markmið að vera öðrum þjóðum fyrirmynd, m.a. með nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Einnig væri binding kolefnis úr andrúmslofti með skógrækt og landgræðslu mikilvægur þáttur í loftslagsstefnu Íslands og Ísland miðlaði þróunarríkjum af reynslu sinni á þessum sviðum í gegnum Jarðhitaskóla og Landgræðsluskóla Háskóla SÞ, sem starfræktir eru hér á landi.

Minntust þeir á ræðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra á allsherjarþingi SÞ í september sl.í því samhengi. Ísland stefndi að því að hætta notkun jarðefnaeldsneytis; slíkt væri þegar raunin varðandi orkuframleiðslu til rafmagns og hitunar, en vinna þyrfti að þessu markmiði í samgöngum og fiskveiðum.

Framkvæmdastýran heimsótti Hellisheiðarvirkjun og kynnti sér niðurstöður nýrrar rannsóknar um kolefnisbindingu í jarðvegi en rannsóknin sem að miklum hluta var unnin af íslenskum vísindamönnum hefur hlotið heimsathygli.

Einnig hitti hún nemendur Jarðhitaskóla og Jafnréttisskóla SÞ og fræddist um starfsemi þeirra.

Birt:
2. nóvember 2014
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Heita stuðningi við væntanlegt samkomulag í loftslagsmálum“, Náttúran.is: 2. nóvember 2014 URL: http://nature.is/d/2014/11/02/heita-studningi-vid-vaentanlegt-samkomulag-i-lofts/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: