Starfshópur skoðar ráðleggingar OECD í umhverfismálum
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag tillögu Sigurðar Inga Jóhannssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, um að setja á fót starfshóp með fulltrúum fimm ráðuneyta, í því skyni að yfirfara og meta ráðleggingar sem fram koma í nýlegri heildarúttekt OECD á stöðu og þróun umhverfismála á Íslandi fyrir tímabilið 2001 – 2013.
Úttekt OECD (Environmental Performance Review – Iceland-2014) var kynnt þann 4. september síðastliðinn en í skýrslunni eru settar fram 26 ábendingar eða ráðleggingar (recommendations) til íslenskra stjórnvalda, sem snúa að löggjöf, skipulagsmálum, innviðum, hagrænum stjórntækjum o.fl. Meðal annars er farið yfir þróun lykilþátta, stöðu og stefnumörkun í málaflokknum, hlutdeild hagrænna stjórntækja (grænir skattar /skattaívilnanir) og hagfræðilega þætti í sjálfbærri fiskveiðistjórnun.
Þá er sjónum sérstaklega beint að náttúru og ferðaþjónustu annars vegar og hins vegar náttúru og orku- eða virkjanamálum. Farið er yfir tækifæri og áskoranir sem þessir málaflokkar fela í sér og lagðar fram tillögur að skrefum til úrbóta.
Í starfshópnum verða fulltrúar umhverfis- og auðlindaráðuneytis sem veitir hópnum forystu, forsætisráðuneytis, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis, innanríkisráðuneytis og fjármálaráðuneytis.
Úttekt OECD á frammistöðu Íslands í umhverfismálum - heildarskýrsla
Útdráttur með yfirliti yfir helstu atriði og niðurstöður skýrslunnar
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Starfshópur skoðar ráðleggingar OECD í umhverfismálum“, Náttúran.is: 17. október 2014 URL: http://nature.is/d/2014/10/17/starfshopur-skodar-radleggingar-oecd-i-umhverfisma/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.