Frá fundinum, mynd UARGóð þátttaka var á kynningarfundi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um drög að frumvarpi til laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða fyrir ferðamenn í þágu náttúruverndar, en fundurinn var haldinn í ráðuneytinu í gær.

Óskað hefur verið eftir umsögnum almennings um drögin en frumvarpið kveður á um að gerð verði tólf ára stefnumarkandi áætlun um uppbyggingu innviða sem lögð verði fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu á þriggja ára fresti. Samhliða verði unnar þriggja ára verkefnaáætlanir sem kveða nánar á um forgangsverkefni hverju sinni. Er markmiðið að móta stefnu, samræma og forgangsraða tillögum um uppbyggingu og viðhald innviða fyrir ferðamenn í þágu náttúruverndar.

Fjölbreyttur hópur fólks sótti kynningarfundinn og sköpuðust góðar umræður um frumvarpsdrögin auk þess sem fundargestir settu fram gagnlegar ábendingar um efni draganna, sem nýtast munu við áframhaldandi vinnu.

Almenningur hefur kost á að skila inn skriflegum umsögnum um frumvarpsdrögin og skulu þær berast í síðasta lagi 11. október næstkomandi á netfangið postur@uar.is eða í bréfpósti, á umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík.

Nánar má lesa um efni frumvarpsins hér

Drög að frumvarpi til laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða fyrir ferðamenn í þágu náttúruverndar. PDF útgáfa  Word skjal 

Birt:
7. október 2014
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Vel sóttur kynningarfundur“, Náttúran.is: 7. október 2014 URL: http://nature.is/d/2014/10/07/vel-sottur-kynningarfundur/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: