SO2-mælum stórfjölgað um land allt
Á allra næstu dögum mun Umhverfisstofnun í samstarfi við Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra auka stórlega vöktun á styrk brennisteinsdíoxíðs (SO2) frá eldgosinu í Holuhrauni. Keyptir hafa verið 40 mælar og verður mælingin í höndum þeirra sem starfa að almannavörnum á hverjum stað, s.s lögreglu. Við kaup á mælum var lögð höfuðáhersla á að kaupa mæla sem auðveldlega mætti koma fyrir á sem flestum stöðum um land allttil að tryggja sem þéttast mælinet á sem stystum tíma og kosturinn við að hafa þá hreyfanlega auðveldar einnig viðbragðsteymum að bregðast skjótt við ófyrirséðum aðstæðum.
Vegna eldgossins í Holuhrauni hefur undanfarið verið unnið að því að þétta net mælitækja sem mæla brennisteinsdíoxíð (SO2). Við venjubundar aðstæður hefur hefur SO2 nær eingöngu verið mælt í nágrenni stóriðjufyrirtækja. Eftir að eldgosið hófst og mengun frá brennisteinsdíoxíði er orðin raunverulegt vandamál í byggð skapaðist þörf fyrir að þétta mælinetið verulega og gera það hratt.
Almannavarnaryfirvöld í samráði við Umhverfisstofnun óskuðu eftir því við Landvirkjun, Alcoa, Norðurál og Elkem að þessi fyrirtæki lánuðu hluta af sínum mælibúnaði til þessa verkefnis. Fyrirtækin brugðust mjög vel við þeim beiðnum og eru þeim færðar þakkir fyrir. Þá hafa Landsvirkjun, HS Orka og Orkuveita Reykjavíkur breytt sínum mælum sem þessi fyrirtæki höfðu til að mæla H2S (brennisteinsvetni) á jarðhitasvæðum til að mæla einnig SO2.
Í dag birtir Umhverfisstofnun niðurstöður mælingar frá 10SO2-mælum í rauntíma á heimasíðunni. Á næstu dögum munu gögn frá fleiri mælum bætast við. Nýju mælarnir eru þess eðlis að ekki er hægt að streyma mæligögnum samstundis á vefinn frá þeim en mælarnir verða vaktaðir og þegar þeir gefa til kynna hækkandi SO2 styrk verður almenningi tilkynnt um það. Áhersla er lögð á að geta upplýst landsmenn um hver gildin eru í þeirra heimabyggð.
Á næstunni verða því alls 20 mælar, sem eru á vegum ýmissa stofnanna og fyrirtækja, með rauntímaupplýsingar um styrk SO2. Við það mætast síðan fljótlega 23hreyfanlegir mælar sem dreift verður um allt land. Einnig verður Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra með 17 mæla á sínum snærum. Alls verða því 60mælar í notkun um land allt.
Nettengdir mælar verða staðsettir á eftirtöldum stöðum:
- Akureyri
- Vogar við Mývatn
- Grunnskólinn í Reykjahlíð
- Eyvindartstaðir í Kelduhverfi
- Vopnafjörður
- Egilsstaðir
- Hjallaleyra í Reyðarfirði
- Ljósá í Reyðarfirði
- Hólmar Í Reyðarfirði
- Leirubakki í Landssveit
- Hveragerði
- Við Hellisheiðarvirkjun
- Norðlingaholt í Reykjavík
- Grensásvegur í Reykjavík
- Færanleg stöð Reykjavíkurborgar
- Dalsmári í Kópavogi
- Hvaleyrarholt í Hafnarfirði
- Grindavík
- Gröf í Hvalfirði
- Kríuvarða í Hvalfirði
Áætlanir gera ráð fyrir staðsetningu nýrra mæla á eftirtöldum stöðum og verður unnið í samstarfi við sveitastjórnir á hverjum stað:
- Húsavík
- Raufarhöfn
- Þórshöfn
- Bakkafjörður
- Borgarfjörður-Eystri
- Innst í Fljótsdal
- Innst í Jökuldal
- Seyðisfjörður
- Neskaupsstaður
- Fáskrúðsfjörður
- Breiðdalsvík
- Djúpivogur
- Höfn
- Skaftafell
- Kirkjubæjarklaustur
- Vík
- Hvolsvöllur
- Borgarnes
- Uppsveitir Borgarfjarðar
- Stykkishólmur
- Ísafjörður
- Hvammstangi
- Sauðárkrókur
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „SO2-mælum stórfjölgað um land allt“, Náttúran.is: 19. september 2014 URL: http://nature.is/d/2014/09/19/so2-maelum-storfjolgad-um-land-allt/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 20. september 2014