Opið bréf til forstjóra Landsvirkjunar, umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra
Reykjavík, 18. september 2014
Við viljum með þessu bréfi vekja athygli á hættu á stórkostlegum skemmdum á lífríki Þjórsárvera.
Við framkvæmdir við Kvíslaveitu á 9. og 10. áratug síðustu aldar var kvíslum sem falla í Þjórsá úr austri veitt í Þórisvatn með neti skurða og lóna. Stærsta lónið er Kvíslavatn austan Þúfuvers. Við vesturströnd lónsins, þ.e. ofan Þúfuvers, eru nokkrar stíflur og ein þeirra er flóðvar. Hún er lægri en hinar stíflurnar og hönnuð til þess að bresta við flóð en veitir um leið öllu vatninu beint niður í Þjórsárver. Kvíslaveita var byggð áður en lög um mat á umhverfisáhrifum voru sett og á þeim tíma sem Náttúruverndarráð fór með mál sem nú heyra undir umhverfisráðuneyti. Annað okkar (Þóra Ellen Þórhallsdóttir) sat í Náttúruverndarráði þegar unnið var við Kvíslaveitu og telur að ráðinu hafi ekki verið kunnugt um staðsetningu flóðvarsins fyrr en eftir að framkvæmdum við Kvíslavatn lauk. Staðsetning flóðvarsins var bersýnilega afleit í ljósi náttúruverndargildis Þjórsárvera en ekki var aðhafst neitt frekar. Á þeim tíma varð heldur ekki séð að stórt flóð gæti steypst niður Kvíslavatn og talið ólíklegt að veruleg hætta gæti skapast. Þetta breyttist því miður með Hágöngulóni.
Í apríl 2008 sendi Landsvirkjun erindi til Umhverfisstofnunar og óskaði heimildar til að gera flóðvar í stíflu Þ-4 í Kvíslavatni. Það er sami staður og þegar var hannaður sem flóðvar fyrir Kvíslavatn. Í bréfi Landsvirkjunar (dags. 30.5.2008) segir „Tilgangur Landsvirkjunar með þessum aðgerðum var að minnka líkur á stórfelldum skemmdum á náttúru og mannvirkjum yrði sá ólíklegi atburður að flóð kæmi í Köldukvísl vegna eldgoss í Vatnajökli“. Erindinu var vísað áfram til Þjórsárveranefndar sem Gísli Már Gíslason veitti forstöðu. Fyrst þá varð ljóst að flóðvar Hágöngulóns hafði verið staðsett þannig að það veitti flóðvatni í Kvíslavatn og þaðan beint ofan í Þjórsárver. Ekki hafði verið vakin athygli á þessu í vinnu við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar 1996 og þessar breyttu forsendur virðast ekki hafa orðið náttúruverndaryfirvöldum ljósar fyrr en löngu eftir að framkvæmdum við Hágönglón var lokið.
Þjórsárveranefnd brást hart við. Í umsögn meirihluta nefndarinnar kemur fram að ný gögn hafi sýnt að við gos í Bárðarbungu sem veitti flóðvatni til suðurs, mætti gera ráð fyrir að allt að 6.000 m3/s rynnu í Köldukvísl og Hágöngulón í a.m.k. 4 sólarhringa en minna vatn eftir það. Ef ekki hefði verið búið að gera Hágöngulón hefði flóðið haldið áfram eftir farvegi Köldukvíslar og þaðan runnið í Tungnaá og loks Þjórsá við Sultartanga. Samkvæmt líkanreikningum myndu nú yfir 90% af flóðinu fara í Kvíslavatn og þaðan í Þjórsárver. Farvegur Þjórsár þrengist við Sóleyjarhöfða neðan við Tjarnaver og Þúfuver og vegna þessarar fyrirstöðu er gert ráð fyrir að flóðvatnið næði að 581 m.y.s. og myndaði 30 km2 lón í neðanverðum Þjórsárverum. Þar færu undir vatn mestallt Þúfuver, neðri hluti Oddkelsvers og neðsti hluti Tjarnavers. Svo vill til að þessi hæð, 581 m, er vatnsborð stóra miðlunarlónsins sem umhverfisráðherra hafnaði árið 2000. Erfitt er að gera sér í hugarlund áhrif á gróður og lífríki Þjórsárvera. Í versta lagi (flóð um vor eða sumar og með miklum aurburði) gæti allur eða nær allur gróður undir 581 m drepist og 30 km2 flóðasvæðið sem að mestu er með margra metra þykkum jarðvegi, orðið geigvænleg uppspretta áfoks sem ógna myndi gróðri ofar í verunum. Ef hlaup kæmi á frosna jörð um vetur yrðu áhrifin væntanlega minni en þó færi það mjög eftir setburði í flóðvatninu.
Í framhaldi af umræðum í Þjórsárveranefnd, fól fulltrúi Landsvirkjunar í nefndinni verkfræðistofunni VST að vinna athugasemdir við umsögn meirihluta Þjórsárveranefndar. Minnisblað VST er dagsett 21.5.2008. Þar er gert ráð fyrir að án inngripa mannsins (þ.e. ef hvorki Kvíslavatn né Hágöngulón væru til) hefði flóðvatn sem rynni til suðurs við gos í Bárðarbungu, farið í farveg Þúfuverskvíslar og þaðan niður í Þjórsárver. Nánar tiltekið er áætlað að 40% vatnsins færu sunnan við Syðri Hágöngu, síðan í Þúfuverskvísl og þaðan í Þjórsárver. Sú sviðsmynd á væntanlega að rökstyðja þá staðhæfingu VST að staðsetning flóðvarsins muni „milda áhrif flóðsins á verin“.
Engin merki sjást um að stórflóð hafi farið um Þúfuver, neðri hluta Oddkelsvers eða Tjarnavers. Rannsóknir á jarðvegi í Þúfuveri, Oddkelsveri og Tjarnaveri, m.a. með 3-7 m djúpum borkjörnum, hafa aldrei sýnt ummmerki um stórfelld flóð. Áfok er mikið í efstu 0,5-1 m en neðar er móríkur jarðvegur sem ber vitni um mörg þúsund ára órofna sögu vistkerfa í neðri hluta Þjórsárvera. Ekkert bendir því til þess að flóð frá Bárðarbungu hafi farið um neðri hluta Þjórsárvera um langan tíma, líklega þúsundir ára. Saga flóða frá Bárðarbungu er ekki vel þekkt en talið er að flóð í Þjórsá árið 1766 megi rekja til atburða í Bárðarbungu. Sigurður Þórarinsson taldi að það hlaup hefði fyrst komið niður í Tungnaá en í ljósi þess sem nú er vitað um landslag og ísaskil undir Vatnajökli er miklu líklegra að slíkt flóð frá Bárðarbungu hefði farið í Köldukvísl og þaðan í Þjórsá. Ekkert bendir til að það hafi farið í Þúfuver. Til dæmis hefði Einar Brynjólfsson frá Stóra-Núpi væntanlega séð ummerki slíks flóðs þegar hann fór þar um á leið norður Sprengisand 6 árum síðan og látið þess getið í ferðalýsingu sinni.
Í bréfum og minnisblöðum Landsvirkjunar og VST er gert lítið úr hættu vegna Bárðarbungu og flóð í Köldukvísl nefnt „sá ólíklegi atburður“. Við sendum þetta bréf í ljósi þess að nú eru uppi breyttar aðstæður. Gos í Bárðarbungu gæti verið yfirvofandi og stórflóði þaðan til suðurs hefur með mannlegum inngripum verið beint í Þjórsárver.
Við erum sammála forstjóra Landsvirkjunar um að hönnun Hágöngulóns minnki líkur á skemmdum á stíflum og öðrum virkjunarmannvirkjum á Þjórsár-Tungnaársvæðinu en það er ekki forsvaranlegt að búa þannig um hnútana að Þjórsárverum sé fórnað í staðinn. Við bendum á umsögn Þjórsárveranefndar frá 2008 þar sem lagt er til hvernig flóðvatni megi veita aftur í Köldukvísl handan Hágöngulóns.
Við trúum því að engir vilji verða til þess með gáleysislegri hönnun að eyðileggja sérstæðasta og líklega verðmætasta vistkerfið á miðhálendinu. Við förum þess á leit að flóði til suðurs frá Bárðarbungu verði beint frá Þjórsárverum þannig að það valdi ekki óbætanlegum skaða á lífríki Þjórsárvera.
Virðingarfyllst,
Gísli Már Gíslason og Þóra Ellen Þórhallsdóttir
Höfundar hafa unnið að náttúrurrannsóknum í Þjórsárverum. Þóra Ellen vann að rannsóknum um áhrif lóns á náttúru veranna og Gísli hefur verið formaður Þjórsárveranefndar síðan 1987, en hún er Umhverfisstofnun og stjórnvöldum til ráðgjafar um allt sem varðar málefni Þjórsárvera.
Birt:
Tilvitnun:
Þóra Ellen Þórhallsdóttir, Gísli Már Gíslason „Opið bréf til forstjóra Landsvirkjunar, umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra“, Náttúran.is: 19. september 2014 URL: http://nature.is/d/2014/09/19/opid-bref-til-forstjora-landsvirkjunar-umhverfisra/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 5. nóvember 2014