RÚV og Tómas J. Knútsson verðlaunuð
Umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, veitti í dag í tilefni af Degi íslenskrar náttúru, RÚV – hljóðvarpi og sjónvarpi, fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Við sama tækifæri veitti hann Tómasi J. Knútssyni, Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti.
Tilnefndir til fjölmiðlaverðlaunanna voru:
- Gunnþóra Gunnarsdóttir, blaðamaður á Fréttablaðinu fyrir greinaflokkinn Útivist og afþreying þar sem sjónum var beint að áhugaverðum náttúruperlum í öllum landshlutum á hnitmiðaðan, einfaldan og fallegan hátt.
- Just.In.Iceland fyrir að nýta sér Netið og gagnvirkni þess til að kynna sérstöðu Íslands fyrir umheiminum með því að skapa stafrænan vettvang til að birta og deila fagmannlega teknum ljósmyndum af íslenskri náttúru og lífríki.
- RÚV, hljóðvarp og sjónvarp fyrir ítarlega og vandaða umfjöllun um almannarétt og gjaldtöku fyrir aðgang að náttúruperlum á liðnu ári.
Í rökstuðningi dómnefndar fjölmiðlaverðlauna segir:
Umræða og umfjöllun um almannarétt og gjaldtöku fyrir aðgang að náttúruperlum hefur verið eins og rauður þráður í upplýsingamiðlun fjölmiðilsins [RÚV] á síðastliðnum tólf mánuðum, mikil að vöxtum, alhliða, upplýsandi og gagnrýnin. Öll mikilvægustu sjónarmið málanna hafa komið fram en ekki verður gert upp á milli einstakra þátta, RÚV er tilnefnt til verðlaunanna í einu lagi. Er það niðurstaða dómnefndar að sú umfjöllun samantekin verðskuldi fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins árið 2014 enda hafi mikilvægum hagsmunum og réttindum almennings hvað snertir náttúruna og umhverfið verið gerð ítarleg skil frá öllum hliðum málanna.
Í rökstuðningi ráðherra vegna Náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti segir:
Tómas stofnaði Bláa herinn, sem eru frjáls félagasamtök hafa starfað síðan árið 1995 að umhverfisvernd í hafinu. Þeir sem til þekkja vita að Tómas og aðrir í þessum þarfa og friðsama her hafa unnið brautryðjendastarf við hreinsun í höfnun landsins með óeigingjörnu sjálfboðastarfi. Má þar nefna að yfir 1200 tonn af rusli hafa verið hreinsuð úr náttúrunni og komið til endurvinnslu í þessu starfi. Slíkar tölur segja þó aðeins litla sögu um mikilvægi starfsins sem Tómas og Blái herinn hafa unnið. Það sem skiptir kannski mestu máli í þessu samhengi er að við Íslendingar vöknum til meðvitundar um að umgengni okkar um haf og strendur skiptir ekki síður máli en umgengni okkar á fastalandinu.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar RÚV og Tómasi J. Knútssyni innilega til hamingju.
Ljósmyndir: Við verðlaunaafhendingar dags íslenskrar náttúru 2014, ljósm. Berþóra Njála, Umhveris- og auðlindaráðuneytið.
Birt:
Tilvitnun:
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir „RÚV og Tómas J. Knútsson verðlaunuð“, Náttúran.is: 16. september 2014 URL: http://nature.is/d/2014/09/16/ruv-og-tomas-j-knutsson-verdlaunud/ [Skoðað:2. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.