Íslenskur sjávarútvegur sækir fram í sjálfbærnivottun

Veiðar íslenskra fiskiskipa á ufsa innan íslensku fiskveiðilögsögunnar hafa nú hlotið MSC (Marine Stewardship Council) vottun um sjálfbærni og góða fiskveiðistjórnun. Vottunin tekur til veiða með sex veiðifærum, þar á meðal botnvörpu, dragnót, netum og línu. Vottunin er veitt í kjölfar átján mánaða ítarlegrar úttektar sem unnin var af sérfræðingum undir stjórn Vottunarstofunnar Túns.

Marine Stewardship Council eru óháð alþjóðleg samtök sem starfa ekki í hagnaðarskyni og vinna að verndun sjávar og sjávarafurða gegnum vottunarkerfi. Samtökin votta sjávarútgerðir og þær sjávarafurðir sem standast staðla þeirra.
Þessir staðlar og sú aðferðarfræði sem þeir byggjast á tryggja að hver einasti þáttur í framleiðsluferli þeirra sjávarafurða sem eru merktar með MSC merkinu sé rekjanlegur, hafi staðist skoðun og komi upphaflega frá vottaðri, sjálfbærri útgerð.

UfsiUfsi er einn af helstu nytjastofnum hér við land og er um 50 þúsund tonnum landað árlega. Aflinn er að mestu unnin til útflutnings, ýmist ferskur, saltaður eða þurkkaður, á markaði í Vestur Evrópu og Nígeríu.

Vottunin var unnin að tilstuðlan Iceland Sustainable Fisheries ehf., sem stofnað var árið 2012 í þeim tilgangi að sameina krafta þeirra fjölmörgu sem leita eftir sjálfbærnivottun. Nú eru 34 íslensk sjávarútvegsfyrirtæki meðlimir í félaginu, og deila þau með sér MSC vottun á þorsk-, ýsu- og karfaveiðum, svo og á tveimur síldarstofnum, auk þess að vinna að því að fá vottun á karfaveiðar.

Í frétt um málið á heimasíðu Marine Stewardship Council kemur fram að niðurstöður úttektar á ufsaveiðunum hafi í heild verið mjög jákvæðar, en jafnframt voru sett þrjú skilyrði fyrir vottun þess efnis að gerðar verði sérstakar ráðstafanir til að bæta verndun og stjórnun viðkvæmra vistkerfa hafsbotnsins.

Í viðtali við MSC segir Gunnlaugur Eiríksson, framkvæmdastjóri ISF að vottun ufsans sé áfangi í þeirri stefnu félagsins að afla sjálfbærnivottunar á alla helstu nytjastofna fiskveiðilögsögunnar. Þá bendir Gísli Gíslason, þróunarstjóri MSC á Íslandi, á að drjúgur hluti íslenska fiskiðnaðarins séu nú þátttakendur í MSC vottunarferlinu með einum eða öðrum hætti. MSC vottun ufsaveiðanna sé enn eitt tækifæri til þess að sýna mörkuðum fram á sjálfbærni íslenskra fiskveiða og stjórnunar þeirra.

Vottunarstofan Tún vottar nú veiðar á Íslandsmiðum á þorski, ýsu og ufsa, og vinnur auk þess að úttektum á veiðum á karfa og grásleppu, sem reiknað er með að ljúki síðar á þessu ári. Nánari upplýsinga má leita með netpósti til verkefnastjóra sjávarnytjavottunar Túns, tun@tun.is.

Birt:
Sept. 13, 2014
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir, Gunnar Á. Gunnarsson „MSC vottun ufsaveiða á Íslandsmiðum staðfest“, Náttúran.is: Sept. 13, 2014 URL: http://nature.is/d/2014/09/13/msc-vottun-ufsaveida-islandsmidum-stadfest/ [Skoðað:May 18, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Oct. 9, 2014

Messages: