Guðmundur Ármann hleður rafbíl sinn við opnun hraðhleðslustöðvarinnar á Selfossi.Ökumenn rafbíla geta nú hlaðið bílinn á nýrri hraðhleðslustöð sem Orka náttúrunnar (ON) hefur sett upp í samstarfi við Olís á Selfossi. Þetta er áttunda stöðin af tíu sem ON mun halda úti á Suður- og Vesturlandi. Fyrir eru stöðvar við höfuðstöðvar ON að Bæjarhálsi 1, við bifreiðaumboð BL við Sævarhöfða, við Smáralind, við Skeljung á Miklubraut, á Fitjum í Reykjanesbæ, við IKEA í Garðabæ og í Borgarnesi.

Sjá alla staði sem bjóða upp á vistvænt eldsneyti af einhverju tagi hér á Græna kortinu.

Rafmagnsbíll er raunhæfur kostur
Guðmundur Ármann, framkvæmdastjóri Sólheima, sá um að opna stöðina á Selfossi. Hann hefur átt rafmagnsbíl í tæpt ár. Hraðhleðslustöðvarnar gera honum kleift að komast allra ferða sinna án nokkurra vandkvæða og telur hann þær lykilþátt í að hraða rafbílavæðingu á Íslandi. Með tilliti til umhverfissjónarmiða og fjárhagslegs sparnaðar séu rafbílar það eina rétta fyrir íslenskt framtíðarsamfélag.

Nýr valkostur í Grænu skrefum Olís
Olís opnar nú hraðhleðslustöð fyrir rafbíla á þjónustustöð sinni á Selfossi, í samstarfi við Orku náttúrunnar (ON). Í nóvember 2010 sagði Einar Benediktsson þáverandi forstjóri Olís í viðtali í Morgunblaðinu að Olís stefndi á fjölorkustöðvar í framtíðinni.

Jón Halldórsson forstjóri Olís segir að opnun hraðhleðslustöðvar fyrir rafbíla sé liður í stefnu félagsins að auka aðgengi viðskiptavina að umhverfisvænum og endurnýjanlegum orkugjöfum.

Olís rekur nú tvær metan-afgreiðslur í Reykjavík og opnar í samstarfi við Norðurorku á Akureyri á næstu vikum. Snemma árs 2013 kynnti félagið, fyrst íslenskra olíufyrirtækja, díselolíu blandaða með VLO, eða vetnismeðhöndlaðri lífrænni olíu, sem er hreinna og umhverfisvænna díseleldsneyti en þekkst hefur. Allt er þetta liður í umhverfisstefnu félagsins en það hefur um árabil unnið skipulega að umhverfis- og uppgræðslumálum hér á landi.

Tíu nýir rafbílar á mánuði
Frá áramótum hafa tíu rafbílar bæst við bílaflota Íslendinga mánaðarlega. Fjölbreytt framboð rafbíla hefur aukist verulega síðustu mánuði. Hjá Norðmönnum er nú 21 rafbílategund á markaði. Þróunin er svipuð hér á landi.

Rekstur rafbíla sparar peninga og minnkar útblástur. Á vef Orkuseturs er að finna reiknivél sem ber orkukostnað rafbíla saman við orkukostnað annarra bifreiða. Reiknivélin segir jafnframt til um hverju munar í útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

Flestir rafbílaeigendur hlaða bíla sína heima hjá sér eða á vinnustað sínum. Til að stuðla að öruggum frágangi hleðslubúnaðar hefur Mannvirkjastofnun gefið út fræðslurit um hleðslu rafbíla og raflagnir.

Hraðhleðsluverkefni ON er unnið í samstarfi við BL ehf. og Nissan Europe, sem lögðu hleðslustöðvarnar endurgjaldslaust til verkefnisins. Orka náttúrunnar sér um uppsetningu þeirra og rekstur.

Birt:
3. september 2014
Tilvitnun:
Orkuveita Reykjavíkur „Fyrsta hraðhleðslustöðin á Suðurlandi opnuð“, Náttúran.is: 3. september 2014 URL: http://nature.is/d/2014/09/03/fyrsta-hradhledslustodin-sudurlandi-opnud/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: