Sanngjörn viðskipti / Fair Trade Iceland
FairTrade samtökin hafa sáð fræi vonar meðal annars í Palestínu þar sem eru 1700 bændur á Vesturbakkanum sem vinna saman innan FairTrade samtaka og rækta ólívur.
Nú í vor voru stofnuð Fair Trade samtök á Íslandi með nafninu Sanngjörn viðskipti / Fair Trade Iceland. Formaður er Guðbjörg Eggertsdóttir rekstrarhagfræðingur, gjaldkeri er Lilja Salóme H. Pétursdóttir mannfræðingur og ritari er Sara Lillý Þorsteinsdóttir læknanemi.
Tilgangur félagsins er að vekja áhuga almennings á sanngjörnum viðskiptum sérstaklega við þróunarlöndin. Einnig er samtökunum ætlað að ýta undir sanngjörn viðskipti með því að kynna þær vörur sem eru á markaðnum. Regnhlífarsamtök sem miðla upplýsingum til almennings og stuðla að vitundarvakningu undir fleiri en einu merki, Fair Trade merki. Starfa með alþjóðasamtökum á þessu sviði og vera fulltrúi þeirra á Íslandi.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að ná til almennings á skemmtilegan hátt með ýmsum uppákomum og hvetja fleiri til að velja vörur með Fair Trade eða sambærilegri vottun. Vera með og stuðla að fræðslu um sanngjörn viðskipti í skólum landsins. Hvetja opinbera aðila til að kaupa vörur sem fylgja stöðlum um sanngjörn viðskipti og fleira. Samstarf við sambærileg félög í öðrum löndum með það markmið að læra af öðrum og miðla af reynslu og þekkingu.
Við höfum þegar samstarfssamning við samtökin í Póllandi en formaður þess þekkir Ísland og setti sig í samband við okkur og óskaði eftir samstarfi. Samstarfið snýst fyrst og fremst um fræðslu í skólum en eins og haft er eftir Nelson Mandela þá er menntun besta leiðin til að breyta heiminum, unga fólkið er opið fyrir breytingum og heimsýn þeirra er að opnast og mikilvægt að unga fólkið fái rétta mynd af veruleikanum.
Við hugsum okkur samtökin hér á Íslandi sem regnhlífarsamtök fyrir allar vörur sem hafa þetta sama markmið en bindum okkur ekki við eitt einstakt Fair Trade merki og við gerum okkur grein fyrir því að vandinn í fátækum héruðum í þróunarlöndunum og víðar verður ekki leystur með einu merki, það þyrfti að gera miklu meira eins og að rjúfa múra tollabandalaga eins og EB og leggja meira í þróunarstarf. En Fair Trade samtökin hafa náð ótrúlegum árangri og eru stórt skref í rétta átt, þau stuðla líka að jákvæðri þróun sem því að gera kröfur um umhverfisvernd, jafnrétti og fleira, þau sýna líka samfélagslega ábyrgð í verki. Auk þess að greiða sanngjarnt verð greiða þau líka “premium price” sem rennur til uppbyggingar samfélagsins, sanngjarnt verð er ákveðið út frá þeim kostnaði sem þarf til að standa undir sjálfbærri ræktun. Ef markaðsöflin ein ættu að stjórna þessum viðskiptum væri þessum bændum haldið niðri í fátækt, vegna þess að vesturlönd eru að greiða of lágt verð fyrir vöruna, þetta veldur mikið ójafnvægi í alþjóðaviðskiptum þar sem eru annars vegar ríkir og fáir kaupendur en mjög margir fátækir seljendur hins vegar og þeim er því miður alltaf að fjölga, þetta á sérstaklega við í fátækum héruðum í austurlöndum og suður ameríku. Það er auðvelt fyrir stórfyrirtæki að nýta sér þetta og það hafa þau gert í alltof miklum mæli einsog dæmin sanna, má nefna Bangladesh í þessu sambandi en á síðasta vetri komu mjög sorglegar fréttir frá þessu landi sem er eitt það fátækasta í heimi.
Mikilvægustu alþjóðasamtök á þessu sviði eru World Fair Trade Organization sem eru alþjóðasamtök allra Fair Trade samtaka í heiminum og þau hafa barist fyrir réttlátari löggjöf og betri framleiðsluskilyrðum, en merkið þeirra sést hér til hægri.
Framtíðarsýn
„WFTO sér fyrir sér heim þar sem viðskiptahættir hafa verið umbreyttir þannig að þeir séu til hagsbóta fyrir þá fátæku og stuðli að sjálfbærni þróun og réttlæti.“
“WFTO has a vision of a world in which trade structures and practices have been transformed to work in favour of the poor and promote sustainable development and justice.“
Hlutverk
„WFTO’s hlutverk er að styðja framleiðendur til að bæta þeirra lífsskilyrði og samfélög í gegnum sanngjörn viðskipti.“ WFTO er alþjóðlegt net og stuðningsaðili fyrir sanngjörn viðskipti, tryggir að rödd framleiðenda heyrist. Áherslan beinist að framleiðendum, sérstaklega litlum framleiðendum og listamönnum, en það er aðaláherslan í stefnu, uppbyggingu og ákvarðanatöku innan WFTO.“
“WFTO ́s mission is to enable producers to improve their livelihoods and communities through Fair Trade. Is the global network and advocate for Fair Trade, ensuring producer voices are heard. The interest of producers, especially small farmers and artisans, is the main focus in all the policies, governance, structures and decision making within the WFTO.“
Flo-cert (FLO) sem hefur umsjón með „fairtrade” merkinu. En til að fá að nota það þurfa bændurnir að uppfylla strangar kröfur sem koma fram í stöðlunum frá Flo-cert og eru þeir samvinnuverkefni FLO og WFTO, en þeir voru einfaldaðir fyrir nokkrum árum síðan. Hér er hægt að nálgast staðlana: http://www.fairtrade.net/standards.html
Eftirfarandi kemur fram á heimasíðu Fairtrade samtakanna:
FLO (bein þýðing):
„Fairtrade eða sanngjörn viðskipti er val um aðra leið en að stunda hefðbundin viðskipti og er byggt á samstarfi milli framleiðenda og neytenda. Fairtrade býður framleiðendum betri samninga og bætt viðskiptakjör. Þetta gefur þeim tækifæri til að bæta líf sitt og skipuleggja framtíð sína. Fairtrade býður neytendum upp á öfluga leið til að draga úr fátækt með öllum sínum daglegu neysluvenjum.”
Það eru nú þúsundir af vörum sem bera Fairtrade merkið. Fairtrade staðlar eru til fyrir matvæli allt frá te og kaffi til ferskra ávaxta og fl., það eru einnig reglur um aðrar vörur en matvæli eins og til dæmis blóm og bómull.
„Þegar vara ber Fairtrade merkið þýðir það að framleiðendur og kaupmenn hafa uppfyllt Fairtrade staðlana. Staðlarnir voru settir á til að takast á við ójafnvægi í viðskiptasamböndum, óstöðugum mörkuðum og óréttlæti í hefðbundnum viðskiptum.“
Fair Trade samtökin í heiminum hafa náð ótrúlegum árangri, þau hafa náð til meira en milljón framleiðenda í 70 löndum og lagt fram sem umframgreiðslu til samfélagssjóða um 60 M. punda. (11.000 M.kr.) Í Bretlandi þar sem samtökin hafa náð miklum árangri eru 500 Fairtrade bæjir, meira en 1.000 Fairtrade skólar, 170 Fairtrade háskólar og meira en 7.000 Fairtrade stuðningshópar, einnig 500 fyrirtæki og 4.500 vörur.
People Tree er dæmi um breskt fyrirtæki sem hefur unnið að Fair Trade um árabil með góðum árangri en það framleiðir og selur fatnað sem er bæði vottaður FairTrade og bómullinn er lífrænt vottuð. En það eru ekki allir sem vita að bómullinn er ræktuð á ökrum eins og te og kaffi.
Hér á landi eru líka fyrirtæki sem framleiða undir FairTrade merkjum, meðal annars frumkvöðlafyrirtækið FAFUplay sem framleiðir skapandi leikföng úr vefnaði. Á undanförnum árum hefur ungliðahreyfing innan hjálparstofnunar kirkjunnar „Breytendur“ haft þetta sem baráttumál en þau skipta reglulega um málefni, gjaldkerinn okkar Lilja Salóme kemur úr þessari hreyfingu og þau eiga þakkir skilið fyrir baráttuna, þau fóru til dæmis í búðir og gerðu lista yfir FairTrade vörur en starfsfólkið í verslununum vissi ekki hvað það var, listinn var birtur á vef Náttúrunnar. Þess má geta til gamans að í Bandaríkjunum kom þessi fáfræði upp hjá starfsfólki Starbucks í fjölmiðlum, fyrirtækið bætti sig heldur betur og nú er kaffið FairTrade vottað og starfsfólkið er stolt af því sem það er að gera.
Við vonum bara að árangurinn verði jafn mikill hér á Íslandi og óskum eftir samstarfi við fyrirtæki og opinbera aðila til að svo megi verða og biðjum ykkur lesendur að styðja málefnið, með því að gerast félagsmenn, hér er skráningarblað, (hægt að afrita og setja inní vafra):
https://docs.google.com/forms/d/1gg_W8Vglz6dWGK5koFGzvbMXU_O-Jrkwbk90rboSmys/viewform
Við erum með Facebook síðu Fair Trade á Íslandi og bloggsíðu fairtradeiceland.blogspot.com
Guðbjörg Eggertsdóttir, formaður Sanngjörn viðskipti / Fair Trade Iceland
fairtrade.is@gmail.com
Heimildir:
In defence of fair trade Simon Maxwell; http://www.simonmaxwell.eu/blog/in-defence-of-fair-trade.html
http://www.fairtrade.net/benefits-of-fairtrade.html
http://www.fafuplay.com/our-ethos.html
http://www.starbucks.com/responsibility/sourcing
Birt:
Tilvitnun:
Guðbjörg Eggertsdóttir „Sanngjörn viðskipti / Fair Trade Iceland“, Náttúran.is: 21. ágúst 2014 URL: http://nature.is/d/2014/08/21/sanngjorn-vidskipti-fair-trade-iceland/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 27. janúar 2015