Fundað var í morgun með starfsmönnum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnu þar sem farið var yfir stöðuna.  Jarðskjálftahrinan er enn í gangi og GPS gögn staðfesta að um er að ræða kvikuhreyfingar.

Virknin er mest áberandi á tveimur þyrpingum norðan og austan Bárðarbungu.  Engin merki eru sjáanleg um að gos sé hafið en áfram er fylgst með framvindu mála þar sem atburðarrás sem þessi kann að vera undanfari eldgoss.

Vísindamenn hafa aukið vöktun sína á svæðinu og lögreglustjórarnir á Húsavík, Hvolsvelli og Seyðisfirði auk Vatnajökulsþjóðgarðs hafa farið yfir sínar áætlanir.

Þyrla Landhelgisgæslunnar fór í dag með vísindamenn og starfsmenn almannavarnadeildar upp á Vatnajökul.  Í þeirri ferð var bætt við mælitækjum og vefmyndavélum sem er liður í aukinni vöktun á jöklinum auk þess sem svipast verður um eftir breytingum á yfirborði jökulsins og mannaferðum á svæðinu.

Lögreglustjórinn á Húsavík  hefur ákveðið að loka Gæsavatnaleið og öðrum hálendisvegum austan Skjálfandafljóts að Öskju. Vegi F88 að Herðubreiðarlindum (F88) hefur einnig verið lokað vegna mögulegra flóða á svæðinu í kjölfar eldgoss.

Safetravel-vefurinn - www.safetravel.is
Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra - www.almannavarnir.is
Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra á Facebook - www.facebook.com/Almannavarnir
Vegagerðin - www.vegagerdin.is 

Birt:
18. ágúst 2014
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Óvissustig hækkað í appelsínugult“, Náttúran.is: 18. ágúst 2014 URL: http://nature.is/d/2014/08/18/ovissustig-haekkad-i-appelsinugult/ [Skoðað:18. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 19. ágúst 2014

Skilaboð: