Blómkál
Blómkál Blómkál gefur mikla og góða uppskeru ef það tekst á annað borð. Best er því að reyna að fá tvær uppskerur á mismunandi tíma. Sú fyrri gæti komið síðast í júlí eða í byrjun ágúst og sú síðari þremur vikum seinna. Hægt er að dekra meira við fáeinar plöntur til að koma þeim áfram, eða sá tvisvar en það er mikil fyrirhöfn, því blómkál verður að forrækta, eins og flestar stórar plöntur.
Hrátt blómkál
Blómkál má nota hrátt niðurskorið í salat. Það má líka leysa upp í smáblóm og bera fram með einhverri íýfu eins og heimagerðri majónessósu og hafa í forrétt eða á hlaðborði.
Soðið blómkál
Annar forréttur væri kalt, soðið blómkál með franskri dressingu (góðri ólífuolíu og ediki eða sítrónu). Þetta er tilvalið ef afgangur er frá deginum áður. Frakkar vilja helst sjóða blómkálið eitt og sér til að halda bragðinu aðgreindu og blanda því fyrst saman við annað grænmeti eftir suðu. Blómkál kólnar ótrúlega fljótt eftir að það er fært upp og þarf oft að gera ráðstafanir til að halda því heitu. Þegar blómkálshöfuð er soðið í heilu lagi þarf að gæta þess að sjóða það varlega og vaka yfir pottinum því höfuðið á að koma upp í heilu lagi en ekki falla í sundur – þó á það að vera svo vel soðið að auðvelt sé að hluta það í sundur á fatinu. Þetta er nákvæmnisverk.
Blómkál með sósu
Heitt, soðið blómkál má bera fram með karrísósu eða heimalagaðri tómatsósu. Fallegt er að hafa höfuðið heilt. Sósan er gerð með því að setja 1 tsk af karrí út í 2 msk af smjöri og hita í potti. Síðan er 2 msk af hveiti stráð yfir og hrært saman. Þynnt með bolla af blómkálssoði og rjóma. Sósan á að vera þykk og það má rífa epli út í hana áður en hún er borin fram.
Blómkálssúpa
Blómkál er gott í súpu. Mér þótti blómkálssúpa yfirmáta góð þegar ég var krakki og finnst ég aldrei geta leikið þetta alveg eftir móður minni. Finn enga uppskrift í kompunni hennar. Kannski hefur súpan verið frá ömmu, sem hélt kostgangara en skrifaði ekkert niður sem ég veit um, en svona er mín uppskrift:
lítið blómkálshöfuð
1 bolli grænmetissoð eða vatn
2 bollar mjólk
1 msk hveiti
1 dl mjólk
salt, pipar og ögn af múskati
fínt söxuð steinselja (1–2 eggjarauður ef vill til að þykkja fremur en hveitijafninginn)
Blómkálið er brotið í litlar hríslur og soðið í grænmetissoðinu í örfáar mínútur. Mjólkinni bætt í og soðið ögn lengur eða þangað til blómkálið er meyrt en heldur vel lagi. Desilítri af kaldri mjólk settur í krukku og hveitið ofan á. Hrist kröftuglega og sett út í súpuna og hrært vel í uns suðan kemur upp. Kryddinu og steinseljunni bætt í. Það má þykkja og bæta súpuna með eggjarauðum ef vill. Til að vel hrærð eggjarauðan hlaupi ekki er heitri súpunni bætt út í hana í dropatali til að byrja með en síðar í stærri skömmtum. Þessu er svo aftur hellt í pottinn og hitað varlega svo súpan þykkni en sjóði ekki. Ef ég hef ekki tíma til að einbeita mér að svona verki fer allt í handaskol og þá er betra að sleppa egginu og nota hveiti.
Gratín
Galdurinn er að byrja snemma, helst þremur tímum fyrir matmálstíma. Deilið stóru blómkálshöfði, eða tveim minni, niður í litlar hríslur og forsjóðið að hluta. Blómkálið á að vera ofurlítið stökkt. Gerið þykka, hvíta sósu með því að nota tvo bolla af mjólk á móti 6 msk af olíu eða smjöri og 6 msk af heilhveiti eða fínu spelti. Kælið sósuna og látið hana kólna. Einum og hálfum tíma fyrir mat má kveikja á ofninum og hita í 190–200°. Takið eitt egg á mann og einu betur ef það skyldi koma gestur. Þessi uppskrift miðast við 5 egg. Eggjarauðurnar eru settar út í sósuna ein í einu og hrært vel á milli. Síðan þarf að stífþeyta eggjahvíturnar og blanda varlega saman við og á eftir þeim kemur soðið blómkálið. Það sakar ekki að setja svolítið af fínskorinni steinselju með. Yfir þetta má setja rasp eða brauðmylsnu og olíu eða smjör og ögn af salti til að gera stökka skorpu. Setjið í heitan ofninn og bakið í allt að klukkustund en það fer örlítið eftir því hvað formið er djúpt. Gratínið á að lyfta sér vel og fara beint á borðið þegar allir eru sestir svo þeir sjái það falla ef svo vill til. Gratínið er mjög lifandi og afar gott kalt líka. Þessa uppskrift má nota fyrir hvaða grænmeti sem er. Sumt þarf að forsjóða eins og gulrætur en spínat og grænkál má saxa og hafa hrátt.
Blómkálsbaka
Sumir hafa ekki tíma til að þeyta eggjahvítur og gera hvíta sósu og bakan hentar þeim miklu betur.
2 blómkálshausar eða 1 stór
3 egg
3 dl kaffirjómi eða rjómi og mjólk til helminga
150–200 g rifinn ostur
nýmalaður pipar, múskat og salt
Blómkáli eða öðru grænmeti (hér má gjarnan blanda saman blómkáli, spergilkáli, gulrótum o. fl.) er skipt í smáa vendi eða bita og soðið í saltvatni smástund, en ekki lengur en svo að grænmetið haldi vel lagi og sé örlítið hart undir tönn. Látið renna vel af. Soðið má nýta síðar. Raðað í smurt eldfast fat. Blandið saman eggjum, rjóma og kryddi og hellið yfir grænmetið. Stráið ostinum þar yfir. Bakið í 30–40 mínútur eftir því hvað deiglagið er þykkt. Í blönduna má einnig nota sýrðan rjóma, kotasælu eða rjómaost en þá þarf rúmlega dl á móti hverju eggi.
Úr bókinni Ætigarðurinn - handbók grasnytjungsins eftir Hildi Hákonardóttur.
Ljósmynd: Blómkáli í garði Hildar. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Blómkál“, Náttúran.is: 19. ágúst 2014 URL: http://nature.is/d/2014/08/17/blomkal/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 17. ágúst 2014