Ólafur Elíasson með lampann sem knúinn er sólarorku. Mynd: Little SunLampar knúnir sólarorku eru nú til sölu í gamla söluturninum á Lækjartorgi. Fyrir ágóðann af hverjum seldum lampa hér er annar framleiddur, niðurgreiddur og sendur þangað sem rafmagn er af skornum skammti.

Það er listamaðurinn Ólafur Elíasson og verkfræðingurinn Frederik Ottesen sem standa að baki verkefninu, sem kalla má félagslegt átaksverkefni. Þeir hagnast ekki sjálfir af sölu hans heldur er ágóðinn nýttur til frekari framleiðslu og niðurgreiðslu lampa á svæðum á borð við Afríku og Indland.

Selja einn lampa í Evrópu á móti tveimur í Afríku
Það var árið 2012 sem Ólafur og Frederik hófu undirbúning verkefnisins, með það að leiðarljósi að veita fólki aðgang að orku. Verkefnið er ærið, en í heiminum eru 1,2 milljarðar manna án rafmagns. „Markaðurinn er auðvitað gríðarlega stór. Tökum Eþíópíu sem dæmi. Þar búa 92 milljónir og af þeim eru sex milljónir með rafmagn. Restin hefur alls engan aðgang að orku,“ segir Ólafur og lýsir því að hægt en örugglega gangi að festa rætur í Afríku. „Í fyrra vorum við alltaf að selja tvo lampa í Evrópu á móti einum í Afríku. En í ár hefur þetta breyst og við höfum verið að selja einn í Evrópu á móti tveimur í Afríku. Það er æðislega fínt og sýnir að við erum að komast aðeins inn í kerfið þar."

Í orkubransanum til að breyta heiminum
Lampinn er nú þegar til sölu á tvö hundruð stöðum víðs vegar um heim, en Ólafur og Frederik ætla ekki að láta staðar numið hér við að beisla orku sólarinnar. „Við erum raunverulega að stefna að því að breyta heiminum.  Í vetur erum við að koma með sólarknúið hleðslutæki, sem virkar bæði fyrir venjulega farsíma og snjallsíma. Svo langar okkur að opna „orkukiosk" í framtíðinni í Afríku, því orka er mjög dýr þar. Í Eþíópíu er verð á rafmagni til dæmis 60 sinnum hærra en á Íslandi. Við lítum svo á við séum orkufyrirtæki, við erum í orkubransanum. En við metum orkuna í sálinni til jafns við orkuna í batteríinu. Við bæði þurfum orku og erum orka sjálf."

Birt:
13. ágúst 2014
Höfundur:
Ríkisútvarpið
Uppruni:
Rúv
Tilvitnun:
Ríkisútvarpið „Selja sólina á Lækjartorgi“, Náttúran.is: 13. ágúst 2014 URL: http://nature.is/d/2014/08/13/selja-solina-laekjartorgi/ [Skoðað:26. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: