Útimarkaður íbúasamtaka Laugardals
Nú styttist í hinn frábæra, árlega, sprett-upp útimarkað Íbúasamtaka Laugardals, sem að þessu sinni verður haldinn laugardaginn 16. ágúst við smábátahöfnina í Elliðavogi.
Markaðurinn stendur frá kl. 13 til 17 en að honum loknum hefst grillveisla og síðan kvöldvaka með varðeldi og fjöldasöng.
Á markaðnum má selja og kaupa allt milli himins og jarðar; föt, fínerí, geisladiska, grænmeti, leikföng, listmuni, húsgögn, handverk, heimagerðar sultur, bækur og ber.
Það er alltaf mikið fjör á markaðnum enda eru skemmtilegar uppákomur stór hluti af aðdráttarafli hans og að vanda verður áhugaverð tónlistardagskrá á sviðinu!
Skráning seljenda er hafin á utimarkadur@gmail.com og það eina sem þú þarft að gera er að skrá þig og mæta svo með borð, stóla og annað sem þú þarft við söluna.
Þátttaka kostar ekki neitt en þar sem að markaðurinn kostar hins vegar heil ósköp (salerni, hljóðkerfi, svið, þóknun til tónlistarmanna, auglýsingar og margt, margt fleira) væri afar vel þegið að þátttakendur og aðrir velunnarar leggi okkur lið með því að taka þátt í söfnun á: www.karolinafund.com/project/view/464
Mundu að við getum þetta ekki án þín! Við erum ekki stofnun heldur bara nokkrir áhugasamir einstaklingar um skemmtilegra samfélag ;-)
Nú og þar sem að reynslan hefur sýnt okkur að fólk vill helst ekki fara heim að loknum markaði þá hefst grillveislan strax að honum loknum og síðan yljum við okkur með fjöldasöng við varðeld. Þú kemur bara með þinn mat, disk, hníf og gaffal og góða skapið og við sjáum um rest! Grill, gleði og góð tónlist!
Í anda vistvænni byggðar hvetjum við auðvitað alla markaðs- og kvöldvökugesti til að koma gangandi, hjólandi eða í strætó. Þeir sem endilega verða að koma á bíl finna hins vegar nóg af bílastæðum beggja vegna Elliðavogsins.
Lifi markaðsmenningin og kvöldvakan!
Sjáumst á markaðnum, Hildur, Kristín, Sigga, Nonni og Keli í markaðsnefnd ÍL
-
Útimarkaður íbúasamtaka Laugardals
Tengdir viðburðir
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Útimarkaður íbúasamtaka Laugardals“, Náttúran.is: 3. ágúst 2014 URL: http://nature.is/d/2014/08/03/utimarkadur-ibuasamtaka-laugardals/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.